Af hverju tekur Ingibjörg Sólrún ekki frí?

Fátt ef nokkuð hræðir mig meira en krabbamein. Það er andstyggilegur sjúkdómur og ég held að mér gæti aldrei orðið svo illa við nokkurn mann að ég fyndi ekki til með honum ef hann stæði frammi fyrir þeim ófögnuði.Þótt ég hafi fyrir löngu misst allt álit á Ingibjörgu Sólrúnu sem stjórnmálamanni, hef ég ekkert á móti henni sem manneskju. Hún og fjölskylda hennar eiga samúð mína alla og ég óska henni góðs bata. Það verður þó ekki fram hjá því litið að Ingibjörg Sólrún er í valdastöðu í samfélagi sem er gegnsýrt af spillingu. Það fer ekki hjá því að viðbrögð hennar í alvarlegum veikindum veki nokkrar áleitnar spurningar og fyrst ég sé engan annan varpa þeim fram, er best að ég taki af skarið og segi það sem aðrir láta sér nægja að hugsa.

-Hvaða almannahagsmunir knýja ráðherra til að standa beint upp úr heilaskurðaðgerð og taka til við að stjórna landinu?

Af hverju tekur manneskjan sér ekki frí? Krabbamein hlýtur að vera áfall, ég tala nú ekki um þegar það leggst á heilann. Allir sem hafa fylgst með fólki í krabbameinsmeðferð gera sér grein fyrir því að slík meðferð er mikið álag. Ingibjörg Sólrún gegnir embætti sem hefur í sjálfu sér mikið álag í för með sér og við þær samfélagsaðstæður sem eru uppi um þessar mundir, virðist venjulegu fólki það ganga brjálsemi næst að standa nánast beint upp úr heilaskurðaðgerð og taka til við að sinna einni af mestu ábyrgðarstöðum landsins. Nú er hún á leið í geislameðferð og enn er stefnan að liggja ekki fyrir lengur en meðalmaður með gubbupest. Eru læknarnir hennar sáttir við þessar áherslur? Mér finnst þetta ekki hljóma eins og Ingibjörg sé svona rosalega samviskusöm, heldur virðist hún vera að gæta hagsmuna sem hún setur ofar líkamlegri og andlegri heilsu sinni. Eru það hagsmunir almennings, hagsmunir flokksins eða hagsmunir fámennrar klíku? Ég geri mér grein fyrir að spurningin er ósmekkleg, það er aldrei neitt dannað við að setja fram óþægilegar spurningar og allra síst gagnvart fólki sem á um sárt að binda, en er það ósanngjarnt að spyrja um tilgang og forsendur þegar æðstu ráðamenn í þessu spillingarbæli okkar sýna hegðun sem samræmist engri skynsemi?

-Af hverju fer hún í meðferð til útlanda og hver borgar þá meðferð?

Er íslenska heilbrigðiskerfið svona aftarlega á merinni? Höfum við ekki lækna og aðstæður til að ráða við þennan sjúkdóm? Fara sjúklingar með þessa tegund krabba almennt til útlanda til að leita sér lækninga? Ég hef ekkert vit á krabbameini og er ekki viss um þetta en ef svarið er nei, ef Ingibjörg Sólrún fer til Svíþjóðar til að fá læknismeðferð sem er í boði hér, þá er sanngjarnt og eðlilegt að spyrja; hver borgar? Þessi spurning er líka ósmekkleg, vissulega. En í samfélagi þar sem þegnarnir eiga að sitja við sama boð hvað varðar heilsugæslu, þá er þessi ósmekklega spurning samt sem áður sanngjörn.

 

Share to Facebook

One thought on “Af hverju tekur Ingibjörg Sólrún ekki frí?

  1. ————————————————————

    Mér skilst að Ingibjörg sé ekki með illkynja æxli en aðeins þau eru talin vera krabbamein. Æxli í heila geta þó verið mjög skæð þó ekki séu þau illkynja. Ég hef reyndar þekkt fólk á besta aldrei sem dó úr krabbameini. Það var mikið mál fyrir það fólk að stunda áfram vinnu sína eins lengi og það gat, láta veikindin hafa sem minnst áhrifi á líf sitt. Þetta eru kannski þeir hagsmunir sem Ingibjörgu er efst í huga.

    Sigurður Þór Guðjónsson, 11.1.2009 kl. 13:15

    ———————————————————

    Þetta er ansi smekklega framsett ósmekkleg spurning  en þó sanngjörn í hæsta máta eins og sagt er.  Ég er ekki frá því að hún beri mesta ábyrgð(þó ég taki ekki ábyrgðina á því frá öðrum) á því að Samfylkingin lagðist í sæng með Sjálfstæðisflokknum eftir síðustu kosningar og kossi smellt á Geir Haarde….sællar minningar.  Betra hefði verið í þeirri stöðu að stjórnarkreppa hefði átt sér stað og boðað hefði verið til nýrra kosninga og línurnar skerptar.  Það hefði ef til vill leitt til einhvers……. allavega sýnt fram á að pólitísk kreppa væri til staðar og að tímamót væru að eiga sér stað þar sem endurnýjunar væri þörf, á hugmyndum, fólki, framtíðarsýn en í staðinn var bara gerður handónýtur samstarfssamningur Ríkisstjórnar sem fyrst og fremst lét reka á reiðanum og svoleiðis átti það að vera næstu 4 ár, en svo bara strandaði báturinn, því Mr. Cool sem er forsætisráðherrann okkar (Herra KUL) er strandaglópur og Ingibjörg er algjörlega óhæf sem leiðtogi Samfylkingar.  Hún er bara annar strandaglópur.   Ég mæli með fríi á Kanarí með Guðna og fundum á Klörubar með klúbbnum „Gömlu góðu dagarnir heima á Fróni“ 

    Máni Ragnar Svansson, 11.1.2009 kl. 14:23

    ———————————————————

    Ég þekki fullt af fólki sem kaus samfylkinguna vegna trúar sinnar á því að Solla svikari mundi taka til hendinni gegn spillingunni. Og margt af þessu fólki, þar á meðal ég, kaus samfylkinguna eingöngu vegna loforða Sollu svikara um að afnema forréttinda-lífeyrisréttinda ráðamanna þjóðarinnar og nokkurra embættismanna. Það eru mestu mistök mín um ævina og er þó af nógu að taka. Ég naga mig stöðugt í handarbökin og skammast mín fyrir að hafa látið blekkjast og jaðrar við að ég gerist einsetumaður í sjálfsrefsingu fyrir heimskuna. Solla svikari reyndist holdgerfingur undirferlisins þegar til kom. Hún hefur lagt allan sinn pólitíska feril undir í spillingarráðningu vinkonu sinnar í sendiherrastöðu, svikin á loforðinu um afnám lífeyrisforréttindanna og síðast en ekki síst með hollustu sinni við Davíð drullusokk Oddsson og að tryggja að við honum verði ekki hreyft í Bleðlabankanum svo lengi sem hann kýs sjálfur að vera þar. Solla svikari var og er eini stjórnmálamaðurinn sem hefur í hendi sér að láta fleygja Dabba drulluhala út. En nei, Solla svikari lagði stjórnmálaferilinn sinn að veði og sem betur fer búin að tapa honum endanlega. Þessi kvislingur kemst aldrei aftur í ríkisstjórn sem betur fer.

    corvus corax, 11.1.2009 kl. 14:32

    ———————————————————

    Eva, ég tek undir það sem þú ert að segja. Það er mikið álag á venjulega manneskju að fara í tvær heilaaðgerðir á stuttum tíma og síðan í geislameðferð. Ingibjörg Sólrún ætlar greinilega að ríghalda í völdin á kostnað eigin heilsu og þjóðarinnar. Ég kaus hana þegar hún var í framboði fyrir Kvennalistann og fannst hún verðugur fulltrúi minn á þingi. Síðan eru liðin mörg ár. Nú er hún í mínum huga fulltrúi spilltra afla í Þjóðfélaginu. Ég skora á hana að leggja niður völd. Við þurfum nýtt Ísland og Ingibjörg Sólrún er ekki inn í þeirri mynd sem fulltrúi þjóðarinnar.

    Sigrún Unnsteinsdóttir (IP-tala skráð) 11.1.2009 kl. 17:08

    ———————————————————

    já fólk spyr sig enda á allt slíkt að vera uppá borðinu með það hvort fólk er að fá sömu heilbrigðisþjónustu.

    Sylvía , 12.1.2009 kl. 08:41

Lokað er á athugasemdir.