Þakka boðið Stefán

Þessi fundur var um margt góður og upplýsandi. Jólaveinsuppákoman vekur áhugaverðar spurningar en er engan veginn það sem stendur upp úr hjá mér. Mér finnst gott að hafa á hreinu að það sé misskilningur að heimildir lögreglu til handtöku og valdbeitingar hafi verið rýmkaðar, ég gerði mig sjálf seka um að trúa því bara án þess að skoða gömlu lögin sjálf. Stefán Eiríksson kemur vel fyrir og það var snjallt af honum að tala hreinskilnislega um piparúða sem valdbeitingartæki en ekki varnaúða.

Ef ég hefði ekki reynslu af lögreglunni hefði ég keypt allt krappið. Engar símahleranir, enginn áhugi á því að koma upp gagnasafni um mótmælendur, enginn mannamunur ef einhver verður fyrir árásum. Eftir að einn fundargesta spurði eitthvað á þá leið hvort áhugi lögreglunnar á því að vernda mótmælendur væri minni en áhuginn á því að vernda valdhafa, og vísaði í Kelmenzsyni og rúðubrotin í Nornabúðinni, sneri Stefán sér að mér, einlægur á svip og sagði að mér væri alltaf velkomið að koma og ræða við sig. Það var líka snjallt af honum en ég er bara ekki svo bláeyg að það trix virki á mig. Neinei, auðvitað viðurkennir lögreglan ekki löglegar eða ólöglegar persónunjósnir. Hún gerði það ekki heldur á tímum kalda stríðsins. Og ekkert mál að kæra bara, segja þeir. Jamm, af því að þeir sem rannsaka klögumál á hendur lögreglunni eru svo hlutlausir eða hvað?

Jájá, lögreglustjóri og yfirlögregluþjónn koma vel fyrir. Þó það nú væri að takist að ráða sæmilega geðþekka menn í slík embætti. En ég hef mun fleiri ástæður til að vantreysta lögreglunni en treysta.

Ég veit svosem ekki hvern fjandann ég ætti að ræða við Stefán Eiríksson. Nýjasta dæmi um reynslu mína af lögregluna kannski? Ég verð fyrir því að rúður eru brotnar á vinnustað mínum og hef góða ástæðu til að ætla að mér beri að skilja það sem einhverskonar ógnun. Þótt hafi orðið vitni að öðrum atburðinum og bílnúmer liggi fyrir (sami bíll báðar nætunar) er áhugi lögreglu á málinu svo lítill að þegar húseigandinn fór til að leggja fram kæru, var honum ráðlagt að kæra ekki, því það væri svo ‘flókið’. Ég hef engar áhyggjur af því að ‘grímuliðið’ taki upp á því að heimsækja bílinn eða eiganda hans enda er það fólk að berjast gegn alvöru glæpamönnum, en það er enginn skortur á áhugafólki sem hefur haft samband við mig og boðist til að ‘taka málið að sér’. Kannski það sé það sem lögreglan vill. Að ég gefi einhverjum fautum upp bílnúmerið og gái svo bara hvað gerist?

Eða ætti ég kannski að kíkja á skrifstofuna til Stefáns til að fá staðfestingu á því að lögreglan haldi ekki uppi persónunjósnum? Taka drengilegan svip hans og sannfærandi orð sem sönnun?

Hér er eitt bráðfyndið atvik sem ég má til með að deila með lesendum. Lesið fyrst síðustu athugasemdina hér eða nr 7, frá ‘Grími’. Lesið svo þessa færslu líka.

Þeir mega nú alveg eiga það, húmoristarnir sem vinna fyrir yfirvaldið að þeir hafa lag á að skemmta manni.

mbl.is Stoltir glæpamenn og fjölskyldualbúm lögreglunnar
Share to Facebook

One thought on “Þakka boðið Stefán

  1. —————————————-

    „Ég veit svosem ekki hvern fjandann ég ætti að ræða við Stefán Eiríksson. Nýjasta dæmi um reynslu mína af lögregluna kannski? Ég verð fyrir því að rúður eru brotnar á vinnustað mínum og hef góða ástæðu til að ætla að mér beri að skilja það sem einhverskonar ógnun.“

    Þá eigi þið Stefán Eiríksson eitthvað sameiginlega, því rúður voru einmitt líka brotnar á vinnustað hans. Þið eigið líklega meira sameiginlegt en þið haldið.

    „Eða ætti ég kannski að kíkja á skrifstofuna til Stefáns til að fá staðfestingu á því að lögreglan haldi ekki uppi persónunjósnum? Taka drengilegan svip hans og sannfærandi orð sem sönnun?“

    Pottþétt ættirðu að gera það, nú þegar mótmælendur eru búnir að koma sér upp sinni eigin leyniþjónustu, varðandi Klemmmz bræðurna, nafngreiningar, myndbirtingar og SMS/e-mail hótanir. Þá held ég að það væri ekki ósniðugt hjá þér að spjalla við Stefán Eiríksson, þó ekki væri nema bara til að samhæfa aðgerðir ykkar, það er að segja hvenig að þið njósnið um andstæðinga mótmælanna og þá væntanlega einnig hvernig hann njósnar um stuðningsmenn mótmælanna.

    Þetta gæti orðið verula athyglisverður fundur hjá ykkur, og mjög gagnlegur.

    Ingólfur Þór Guðmundsson, 10.1.2009 kl. 12:25

    —————————————-

    Takk fyrir stórfína frammistöðu Eva. Ég gef þeim félögum Stefáni og Geir Jóni líka prik fyrir að mæta og svara spurningum yfirlætislaust. Vonandi hafa þeir ekki sagt ósatt vitandi vits en erfitt er að trúa því öllu. Varðandi forvirkar rannsóknaheimildir, s.s. símhleranir og fl.velti ég því fyrir mér hvort að þær séu ekki aðallega í verkahring ríkislögreglustjóra sem er innvígður Sjálfstæðismaður og eflaust í beinu sambandi við aðdáendur þína í dómsmálaráðuneytinu.

    Sigurður Hrellir, 10.1.2009 kl. 14:10

    —————————————-

    Sæll Ingólfur.

    Munurinn á mínum vinnustað og Stefáns er sá að hans vinnustaður er valdastofnun sem hefur á að skipa miklum fjölda þjálfaðra manna sem hafa lagalegan rétt til að beita ofbeldi og vopnum. Minn vinnustaður er hinsvegar smáverslun í fjölbýlishúsi, ég er eini starfsmaðurinn og hef hvorki líkamsburði til að ráða við meðalungling, né myndi ég hitta belju með vatnsbyssu þótt ég héldi í halann á henni. Auk þess er engin manneskja sem hefur orðið fyrir ólöglegri frelsissviptingu í haldi í Nornabúðinni en þú ert líklega að vísa til atviks þar sem 500 manns kröfðust þess að maður sem hafði sætt ólöglegri handtöku yrði leystur úr haldi.

    Mig langar að fá nánari upplýsingar um þessa leyniþjónustu mótmælenda. Ég hef ekkert heyrt um hana en gæti hugsanlega nýtt mér þjónustu þeirra. Þú getur kannski upplýst mig?

    Eva Hauksdóttir, 10.1.2009 kl. 17:59

    —————————————-

    Sæl Eva og afsakaðu afskiptasemina hjá mér.  Eins og fram hefur komið þá var handtakan á syni þínum ekki ólögleg.  Óheppileg kanski en ekki ólögleg.

    Og þar fyrir utan, ef svo hefði verið að handtakan hefði verið ólögleg þá var í fyrsta lagi ekki hægt að vita það strax (hann átti jú eftir að borga sekt og var að eigin sögn búin að ákveða að sitja hana af sér) og í öðru lagi ef það hefði virkað fyrir ykkur að brjótast inn á lögreglustöðina til að fresla hann þá fyrst hefði lýðveldið verið fallið.

    Varðandi leyniþjónustuna þá hefur þú sjálf sett in færslu varðandi „leyniþjónustu götunnar“.

    Hin Hliðin, 10.1.2009 kl. 20:30

    —————————————-

    Er ekki bara alveg sama Eva hvað Stefán eða aðrir valdhafar segðu við þig, þú myndir aldrei trúa einu eða neinu sem þeir segja!!!!  Þú ert greinilega mjög ákveðin í að vera á móti lögum og reglu eins og skrifin þín sýna og sanna.  Ég ber fyllsta traust til íslenskrar lögreglu og styð þá heilshugar í störfum sínum. Þeir hætta lífi sínu hvern dag fyrir okkur hin …..  Lögreglunni ber að sinna sínu starfi hversu óljúft sem þeim það kannski er, en þeir sinna því með sóma að mínu mati

    Katrín Linda Óskarsdóttir, 10.1.2009 kl. 23:36

    —————————————-

    Hin Hlið. Eins og fram hefur komið þá var handtakan á syni mínum ólögleg. Lögreglan afsakar sig með misskilningi en það er engum vafa undirorpið að það voru kolrangar forsendur fyrir þessari handtöku.

    Hvaða færslu varðandi leyniþjónustu götunnar ertu eiginlega að tala um? Ég hef einu sinni auglýst fund hjá þeim félagsskap en komst reyndar ekki á þann fund sjálf og ef það fólk hefur tekið að sér persónunjósnir þá eru það alveg nýjar fréttir fyrir mig.

    Katrín Linda, eins og ég hef margsagt þá vantreysti ég lögreglunni og hef góðar ástæður til. Það er rétt til getið hjá þér að það þarf meira en orð til að endurvekja mitt traust til þeirrar stofnunar.

    Það er reyndar rangt til getið að ég sé á móti lögum og reglu. Ég er hinsvegar á móti ólögum sem hafa þann tilgang einan að tryggja völd siðblindra gróðapunga og valdafíkla, og ég hlýt að gagnrýna stofnun sem heldur uppi ólögum í landinu.

    Eva Hauksdóttir, 11.1.2009 kl. 02:02

    —————————————-

    Ég er búinn að fylgjast með þessum málum á Íslandi úr fjarlægð þar sem ég bý erlendis og ástandið er greinilega ekki gott. En ég verð að segja að það er alltaf hættulegt þegar fólk ákveður að það viti betur og sé réttlátara en aðrir þegnar þjóðfélagsins. Auðvitað getur  það gerst að fólk sé handtekið án réttmætrar ástæðu, en þá er ekki rétta leiðin að safna liði og berjast með ofbeldi til að fá viðkomandi lausan, það eru aðrar leiðir færar. (þær afla manni að vísu ekki eins mikillar athygli) Þetta virkaði svona meira á mig eins og gert var í eldgamla daga á tímum Sturlunga, ef einhver gerði á þinn hlut þá safnaðiru liði og hefndir þín, hélt bara að þetta væri liðin tíð. Samkvæmt öllu sem ég sé í fjölmiðlum og heyri frá vinum og ættingjum þá er lögreglan bara að reyna að halda uppi lögum og reglum, eins og ætlast er til í réttarríkjum. Það er nefnilega þannig að í réttarríkjum þá á fólk að fylgja lögum og reglum sem sett eru af löggjafarsamkundunni sem þetta sama fólk hefur kosið til að sinna því verki. Finnist manni lögin ósanngjörn, og hafi maður í raun stóran hluta þjóðarinnar,( eða jafnvel meirihluta þjóðarinnar) á bak við sig þá hlýtur það að vera hægur leikur að bjóða sig fram, ná árangri og beita sér á réttum vettvangi, þ.e. Alþingi Íslendinga. Þangað inn komast ALLIR sem raunverulega hafa stóran hluta þjóðarinnar á bak við sig.

    Hjalti (IP-tala skráð) 11.1.2009 kl. 08:46

    —————————————-

    Að bjóða sig fram til Alþingis, og hljóta kosningu, er engin lausn. Vandamálið er ekkert bara fólkið sem situr á Alþingi, heldur kerfi sem er hannað til þess að mikil völd safnist á fáar hendur. Vald spillir. Það er alveg sama hvaða dýrðlingur fengi ráðherratign, það yrði bara tímaspursmál hvenær hann félli í þá gryfju að beita valdi sínu til þess að þjóna einkahagsmunum.

    Það er ekkert að því að fara löglegar leiðir til að ná markmiðum sínum en þær leiðir eru bæði tímafrekar og skila oft engum árangi þegar kerfið er til þess hannað að tryggja völd fárra. Nýlegt dæmi um það hve vel kerfið þjónar almenningi er mál pilts sem varð fyrir líkamsárás í 10/11. Það var lögregluþjónn sem réðist á hann og sá er ekki eina rotna eplið í tunnunni því félagar hans stóðu auðvitað fullkomlega með honum í ofbeldinu. Þessi fauti fékk sektardóm og er nú aftur kominn á götuna, með kylfu og handjárn. Til hvers að reyna að ná fram réttlæti í gegnum slíkt kerfi? Væri ekki nær að brjóta það á bak aftur og byggja nýtt?

    Eva Hauksdóttir, 11.1.2009 kl. 10:43

Lokað er á athugasemdir.