Erindi mitt á borgarafundinum 8. jan

Góðir fundarmenn

Ég vil byrja á því að þakka þeim sem hafa lagt á sig vinnu við að koma þessum borgarafundum í kring. Í mínum augum eru þeir hænuskref í átt til lýðræðis.Ég mæti hingað í kvöld sem talsmaður borgaralegar óhlýðni. Það merkir ekki að ég sé hér sem talsmaður aðgerðasinna á Íslandi enda er aktivistahreyfingin ekki skipulögð samtök með stjórn eða foringjum. Aðgerðasinnar tala fyrir sjálfa sig, ekki aðra.Þegar óánægja ríkir í samfélagi rísa hópar fólks gegn valdhöfum. Fyrstu aðgerðir eru yfirleitt prúðmannlegar. Menn safna undirskriftalistum, halda ræður og bera skilti. Það er sanngjarnt að byrja á því að biðja kurteislega um breytingar en slíkar aðferðir skila sjaldan árangri einar og sér. Þegar örvænt þykir að menn fái kröfum sínum framgengt með kurteisinni, taka hávaðamótmæli við. Móðgandi slagorð heyrast, menn sýna fyrirlitningu t.d. með því að sletta skyri og pólitísk list verður áberandi. Þegar fólk verður svo úrkula vonar um að ágeng skilaboð hafi áhrif, gerist annað af tvennu: fólkið lætur sig hafa það að búa við ástand sem það er óánægt með, eða það grípur til beinna aðgerða til að framfylgja kröfum sínum.

Beinar aðgerðir hafa gegnt lykilhlutverki í öllum helstu baráttumálum sögunnar. Það er vegna þess að þær virka. Sumir þeirra sem sem hér sitja hafa t.d. fylgt kröfum sínum um kjarabætur eftir með beinni aðgerð sem kallast verkfall. Það er ekki svo langt síðan verkföll voru ólögleg og glæpamennirnir voru barðir og fangelsaðir. Annað dæmi er frá baráttunni gegn aðskilnaðarstefnunni í Suður Afríku. Þar flykktust blökkumenn inn á veitingahús hvítra og sátu þar sem fastast. Þeir vissu vel að það var ólöglegt. Þeir vissu að lögreglan kæmi og berði þá út með kylfum og að sumir yrðu handteknir. Þeir vissu það, en þeir voru tilbúnir til að fremja þann glæp, því hann þjónaði sá réttlætinu og réttlætið er lögunum æðra.

Á Íslandi hafa nú hljómað í meira en þrjá mánuði kröfur sem snúast um eitt meginatriði, að spilling verði upprætt úr íslensku samfélagi. Að við losnum við óhæfa valdhafa. Þessari kröfu hafa aðgerðasinnar fylgt eftir með beinum aðgerðum, t.d. með því að tefja ríkisstjórnarfundi og rjúfa útsendingu á innantómu froðusnakki formanna flokkanna yfir kryddsíld og kampavíni.

Þeir aðgerðasinnar sem lengst ganga, brjóta lög, en borgaraleg óhlýðni er ekki það sama og að fremja geðþóttaglæpi. Það er ekki borgaraleg óhlýðni að aka fullur eða ráðast á fólk. Borgaraleg óhlýðni er það að brjóta lög og/eða óskráðar reglur samfélagsins, á skipulagðan hátt í pólitískum tilgangi. Borgaralegri óhlýðni er yfirleitt beint gegn þeim sem illmögulegt er að lögsækja, sem og gegn lögum sem tryggja völd hagsmunahópa, stofnana eða stórfyrirtækja. Aðgerðunum í Alþingishúsinu og við ráðherrabústaðinn var t.d. beint gegn lögunum um að það sé ekki hægt að reka ríkisstjórnina, nema hún samþykki það! Ef það að berjast gegn slíkum ólögum er að vera glæpamaður, þá er ég stoltur glæpamaður.

Aðgerðir aktivista eru gagnrýndar fyrir að vera ólíklegar til að afla okkur fjöldafylgis og að endurspegla ekki mótmælasmekk þjóðarinnar. Hvorttveggja er rétt. Aðgerðasinnar eru minnihlutahópur og mörgum þykja hugmyndir okkar um rétt manna til að rísa gegn yfirvaldinu öfgakenndar. Það er í mínum huga ekkert vandamál því við erum ekki stjórnmálaflokkur. Okkar hlutverk er ekki að afla fylgismanna, heldur frekar að hvetja hvern og einn til að tala fyrir sjálfan sig og fylgja eftir sínum eigin kröfum. Ég ætla ekki að setja reglur um það hvernig samfélagið eigi að vera, heldur vil ég að sýna fram á að valdalaust fólk geti tekið málin í sínar hendur, og skapa þannig fleira fólki forsendur til að hafa áhrif.

Þeir sem eru ósáttir við mótmælaaðferðir reyna gjarnan að draga einhvern til ábyrgðar. Þeir sem álíta að Hörður Torfason sé hin eina sanna rödd fólksins, (þrátt fyrir að hreyfingin heiti raddir fólksins í fleirtölu) eða að þar sem ég hafi auglýst mótmælaaðgerð á blogginu mínu, hljóti ég að bera ábyrgð á því hvernig hún fór fram, taka ekki með í reikninginn að Hörður Torfason, ég og aðrir mótmælendur erum ekki kosin eða ráðin til þess að fara með völd og ábyrgð. Það er ekki hægt að draga þann til ábyrgðar sem hefur ekkert vald.

Stefán og Geir Jón hafa vald. Þeir geta skipað undirmönnum sínum að úða eitri í andlitið á fólki og lögreglan verður að hlýða þess háttar skipun frá yfirboðurum. Þ.a.l. eru stjórnendur lögreglunnar ábyrgir þegar slíkum aðgerðum er beitt. Hörður Torfason hefur hinsvegar ekki vald til þess að skipa mér að kasta eggjum. Ef ég tek upp á því að kasta eggjum, ber enginn ábyrgð á þeirri hegðun nema ég sjálf. Hörður hefur heldur ekki vald til þess að segja Grími félaga mínum til að sýna á sér andlitið, ég hef ekki slíkt vald, ekki einu sinni mamma hans hefur slíkt vald. Stefán og Geir Jón hafa slíkt vald. Þeir geta ef þeir kæra sig um, skipað hverjum einasta manni hér inni að taka niður grímuna og sýna skilríki. En satt að segja ber ég litla virðingu fyrir því valdi.

Þegar ég var lítil, villtist ég einu sinni og lögreglan sá um að koma mér heim. Ég sofnaði í lögreglubílnum og vaknaði í fangi lögregluþjóns sem bar mig upp tröppurnar heima. Mér leið vel hjá honum, hann var elskulegur maður og ef einhver segði mér nú að þetta hefði verið hann Geir Jón, myndi ég trúa því. Lögreglan á virðingu mína alla þegar hún hjálpar fólki í vandræðum og verndar okkur gegn glæpamönnum. Það er hinsvegar ekki virðingarverð stofnun sem í blindni þjónar valdi þeirra sem rændu íslenskan almenning og stefndu sjálfstæði þjóðarinnar í voða. Hlutverk lögreglu ætti ekki að vera að verja vald þeirra. Betur færi þeim að gæta hagsmuna almennings og handtaka þá glæpahunda sem enn sitja við kjötkatlana.

„Með lögum skal land byggja“. Þetta er gott slagorð en upphaflega var það lengra og lögreglan virðist ekki kunna seinni hlutann: „Með lögum skal land byggja en ólögum eyða“. Það eru ólög sem leyfa það að þeir sem bera ábyrgð á bankahruninu sitji áfram í valdamiklum embættum. Það eru ólög strákar mínir og svo lengi sem þið og ykkar menn þjónið valdníðingum betur en samvisku ykkar, svo lengi sem þið verndið ríkisstjórn sem með gengdarlausri gróðahyggju og einkavinavæðingu hefur komið því til leiðar að hundruð fjölskyldna standa frammi fyrir gjaldþroti, þá gegnið þið ekki því hlutverki að auðvelda almenningi að byggja þetta land. Fólk er að flýja land, vegna ólaga sem þið verjið með valdbeitingu. Á meðan lögreglan heldur uppi ólögum í landinu er hún engar virðingar verð. Ég mun berjast gegn slíkum ólögum með beinum aðgerðum og við þær aðstæður mun ég láta skipanir ykkar sem vind um eyrun þjóta.

mbl.is Fundi lokið í sátt og samlyndi
Share to Facebook

One thought on “Erindi mitt á borgarafundinum 8. jan

  1. ————————————————–

    Flott ræða.  Þú ert hetja.

    Jón Kristófer Arnarson, 12.1.2009 kl. 00:31

    ————————————————–

    Super.

    Hulla Dan, 12.1.2009 kl. 11:13

    ————————————————–

    Ingi Þór, greyið mitt vertu nú ekki svo grænn að halda að einhver taki mark á þessum hótunarpósti sem þú sendir á netfang Saving Iceland fyrir nokkrum vikum, þótt þú hafir gert það undir nafni. Fólk tekur mark á þeim sem framkvæma, ekki þeim sem tala. Það er ekki nóg að vera í mótorhjólaklúbbi til að fólk haldi að þú sért töffari.

    Eva Hauksdóttir, 12.1.2009 kl. 14:57

    ————————————————–

    Er búin að vera að spá…

    Ég tek mark á þeim sem hafa réttlátar skoðanir, standa á sínu, taka ábyrgð á því sem þeir segja og gera og eru heiðarlegir, þó ég geti ekki séð á þeim smettin.

    Ég tek hinsvegar ekki mark á svikurum, lygurum og þjófum og þeim sem reyna stöðugt að skella skuldinni á aðra, þó ég sjái smetti þeirra daglega.
    Held að fólk sé yfirleitt sammála mér í þessum málum.

    P.s Ég er ekki að ræða um einhverja einstaka aðila. Bara fólk yfirleitt.

    Hulla Dan, 12.1.2009 kl. 17:01

Lokað er á athugasemdir.