Hvaða fjandans menning er í hættu?

Þeir sem mestar áhyggjur hafa af því að innflytjendur séu íslenskri menningu skaðlegir, virðast sjaldan verulega menningarlega innstilltir sjálfir.

Hvaða menning er það sem mun hverfa fyrir tilstilli Pólverja, Sómala eða Tælendinga?

Er það tungumálið? Er hætta á því að við tökum upp kínverska setningargerð? Eða arabiskt slangur? Munu flóttamenn frá Kosovo rústa stafsetningarkunnáttu landans?

Er það matarmenningin? Hafa menn áhyggjur af því að íslenska þorrablótið verði aflagt? Er svona slæmt að við borðum meira af núðlum og minna af kjötfarsi? Eru Danir hættir að borða middagspölse og smörrebröd vegna áhrifa Tyrkja og Júgóslava?

Eru það íslenskir drykkjusiðir sem eru í hættu? Eru líkur á að unglingar hætti að flykkjast til Eyja til að hlusta á Árna Johnsen gaula kartöflugarðssönginn við erlent lag, nauðga útúrdrukknum telpum og kjálkabrjóta aðra álíka menningarsinna?

Eru það bókmenntirnar sem við gætum misst? Hefur þetta ágæta fólk áhyggjur af því að unglingar hætti að syngja Land míns föður á 17. júní eða að almenningur hætti að greina á milli kveðskapar Davís Stefánssonar og íranskrar popptextagerðar? Er kannski líklegt að sandnegrar tæli íslenska unglinga til að leggja Eglu frá sér hálflesna til þess að hanga yfir One Tree Hill?

Er það íslenska tískan sem gæti farið fjandans til? Gæti kannski farið svo að gallabuxur og flíspeysa verði sjaldséður búningur ef fólk með handklæði á hausnum fær að vaða hér uppi og opna fatabúðir? Heldur fólk að íslenskar kerlingar hætti að prjóna lopapeysur og að ungar konur afleggi peysufötin og klæðist þess í stað sarí eða kímónó? Er svona mikil hætta á að búrkan nái vinsældum?

Kannski byggingarlistin? Gætu Hottintottar tekið upp á því að rífa hina fögru byggingu sem hýsir 10-11 í Austurstræti og byggt leirkofa í staðinn?

Eru það hugmyndir okkar um frelsi og mannréttindi sem eru í hættu? Hafa málsvarar menningarinnar kannski áhyggjur af því að íslenskar mæður taki uppá því að umskera dætur sínar á eldhússborðinu eða að feður fremji ærumorð ef synir þeirra lýsa sig samkynhneigða?

Eða er það vinnumenning Íslendinga sem gæti breyst? Höfum við áhyggjur af því að embættismenn hætti að verja fjórðungi vinnutíma síns í að ‘skreppa’, tala í símann og hanga á msn, þegar halanegrar komast til valda? Eða er hætta á því að við hugmyndir okkar um manngildi breytist og að við förum jafnvel að meta fólk út frá einhverju öðru en vinnusemi þess? Getur hugsast að komi að því að við höfum meiri áhuga á því hvort náungi okkar sé góð manneskja, greiðvikin, heiðarleg, réttsýn, hófsöm og sjálfstæð, heldur en því hvort hann sé ‘hörkuduglegur’?

Ég skil áhyggjur af ýmsum vandamálum sem fylgja hraðfara breytingu úr einsleitu þorpssamfélagi í fjölmenningarsamfélag. Ég skil óttann við átök, kynþáttahyggju og erlend glæpagengi. En í alvöru talað; hvernig stafar íslenskri menningu hætta af innflytjendum?

Share to Facebook

One thought on “Hvaða fjandans menning er í hættu?

 1. ———————–

  Þú farir að skrifa sanskrít og enginn skilji þína annars bráðskemmtilegu pistla?

  Posted by: Sveinn | 7.08.2008 | 13:46:45

  ———————–

  jáen, jáen, það kemur önnur menning hingað líka og hún er ljót og leiðinleg… :O Okkar gamla fær ekki eins mikið plááááss!

  Posted by: hildigunnur | 7.08.2008 | 18:19:32

  ———————–

  Ég er ekki viss um að fólk sé endilega eitthvað hrætt um að innflytjendur skemmi íslenska menningu. Við erum bara svo svakalegt smásíli í stóra pollinum að við verðum að hafa okkur öll við að hafa einhver sérkenni. Það hefur orðið íslenskri menningu til bjargar að við búum á eyju lengst úti í rassgati sem fáir hafa nennt að heimsækja gegnum aldirnar. Nú er það hins vegar að breytast.
  Ég held að fólk vilji tala íslensku áfram og geta lesið það litla sem þó hefur verið skrifað á íslensku.

  Hins vegar er núna komin upp hreyfing „fjölmenningar“ sinna. Það er, fólk sem getur með engu móti lifað nema vera afætur á annarra þjóða menningu. Þetta fólk borðar helst ekki tvisvar í röð mat ættaðan úr sama mennigarheimi. Það fær raðfullnægingar í Kolaportinu því þar er bæði hægt að kaupa bæði tælenskt og pólskt skrautrusl. Því finnst íslenskt sveitó og vill ekki sjá það.

  Ef yfir mig myndi koma óstjórnleg löngun til þess að kaupa tælenskt skrautrusl þá myndi ég bara plana ferð til Tælands og kaupa mér ruslið þar. Nú eða bara versla það á ebay. Heima hjá mér á Íslandi vil ég hins vegar tala íslensku, lesa íslensku og borða íslenskan ömmumat. Ég vil ekki þurfa að fara til Kanada í pílagrímsferð til þess að geta borða „íslenskt“ lambalæri vegna þess að á Íslandi sé bara hægt að fá lambakebab.
  Ef við höldum ekki í okkar sérkenni þá hættum við að vera til sem þjóð, þá verðum við bara einhver bragðlaus fjölþjóðavellingur.

  Posted by: Hugz | 8.08.2008 | 9:59:56

  ———————–

  ..já og sérkennum okkar sem einstaklinga. Hvað væri Ísland án Diddú eins og Jónas Ingimundarson orðaði það einu sinni. Eins má spyrja hvað væri Ísland án Hildigunnar og Evu? Tveggja framvarða í sköpun íslenskrar menningar í orði og tónum.

  Posted by: Sveinn | 8.08.2008 | 10:17:17

  ———————–

  Mér er sjálfri annt um íslenskuna en ég hef miklu meiri áhyggjur af áhrifum sjónvarpsefnis, tölvuleikja og popptexta, auk illa talandi fjölmiðlamanna, heldur en Pólverja eða araba.

  Það er reyndar goðsögn að við höfum verið svo óskaplega einangruð í gegnum tíðina. Hingað komu alltaf skip og Íslendingar hafa alla tíð verið hrifnir af því að dvelja erlendis um tíma, nánast litið á það sem manndómsvígslu. Það var t.d. miklu meiri einangrun meðal stórs hluta Norðmanna á fyrri öldum en hér á Íslandi.

  Sannleikurinn er sá að menning okkar hefur orðið fyrir áhrifum úr ýmsum áttum og að tungumálinu undanskildu er í raun mjög erfitt að benda á einhver séreinkenni á íslenskri menningu í dag. Það væri þá helst Þorrablótin, sem reyndar eru seinni tíma hefð.

  Posted by: Eva | 8.08.2008 | 13:56:52

  ———————–

  Það er ekki rétt. Við erum líka með nokkuð sérstaka matarhefð sem við erum reyndar ekkert sérlega mikið fyrir að flagga. Nema sem túristagríni þegar við skellum sviðakjömmum, hákarli og brennivíni á borð saklausra ferðamanna. Svo er hugsunarháttur Íslendinga líka dáldið sér á parti. Við hugsum alltaf eins og við séum amk 30 milljónir og búum yfir kjarnavopnabúri.

  Posted by: Hugz | 8.08.2008 | 15:10:49

  ———————–

  Mér hefur alltaf fundist þessi framtíð Íslands alveg yfirmáta spennandi. Verst finnst mér eiginlega að áhrif útlendinganna hér séu ekki meiri. Hvar eru litháísku ritsnillingarnir? Eða víetnömsku kvikmyndaleikstjórarnir? Sjálfan dreymdi mig einu sinni um að gera bíómynd sem gerðist í Reykjavík en væri nær algerlega á víetnömsku. Hætti svo að finnast það góð hugmynd því það er eitthvað svo nýlendulegt. Hins vegar þætti mér akkur í því að hvetja t.d. víetnömsk ungmenni til að gera myndir út frá sínum eigin veruleika, svona til dæmis. Ég myndi í það minnsta vilja sjá það.

  Posted by: Gummi | 8.08.2008 | 15:13:27

  ———————–

  Matarhefðin já. Ég er sjálf óskaplega hrifin af saltkjöti, kjötsúpu og slátri. En ég elda þennan mat afskaplega sjaldan og ef ég býð fólki í íslenskan heimilismat, bregst ekki að ég fæ komment á borð við ‘hey, kjötsúpa, ég hef nú bara ekki fengið kjötsúpu í næstum ár’.

  Ég held að sé ekki tilviljun að það er ekki hægt að fá íslenskan mat nema á örfáum veitingahúsum og þá aðeins með því að panta fyrir stóran hóp í einu. Hversu oft borðum við þennan mat raunverulega? Ég hugsa að séu 2 ár síðan ég át siginn fisk síðast. Saltkjöt á sprengidag.

  Pönnukökur blíva þó. Og kleinur.

  Posted by: Eva | 8.08.2008 | 15:23:47

  ———————–

  Íslenskan er hornsteininn í menningu okkar. Hún er það sem tengir okkur saman. Þetta á einnig við um tónlistina og matinn sem við neytum. B Gröndal taldi að a.m.k. 100 þús atriði gætu talist til menningar okkar. En síðast en ekki síst er maður manns gaman. Ef til vill full hástemmt en hljómar betur en það sem danski kaupmaðurinn sagði forðum: Landið er fagurt og frítt en fólkið er bölvað og skítt.

  Posted by: Sveinn | 8.08.2008 | 15:57:03

  ———————–

  Málið er bara að tónlistin sem við hlustum á er að mestu erlend og janvel þótt hún sé íslensk er hátt hlutfall textanna á ensku.
  Maturinn sem við borðum er að stórum hluta skyndifæði að erlendri fyrirmynd. Hvort borðar venjulegur unglingur oftar pizzu eða slátur? Kentucky fried eða nætursaltaða ýsu? Hvort þekkir hann betur íslenskar bókmenntir eða ameríska sjónvarpsþætti? Hvort er hann líklegri til að syngja fimmundarvísur með bróður sínum eða sofna út frá Judas Priest?

  Posted by: Eva | 8.08.2008 | 21:14:04

  ———————–

  Hráefnið í skyndibitanum er íslenskt að stórum hluta. Sumir s.k. bitar bera íslensk nöfn og ættu allir að gera það. Það er fín tilbreyting í nýjum réttum t.d. tælenskum stöðum. Þessir staðir verða allir meira og minna að aðlaga sig okkar smekk. Þú getur fengið tilbúna kjötsúpu í Vík og á Brú í Hrútafirði, jafnvel víðar. Það er rétt hjá þér við þurfum að finna nýjar leiðir til þess að auðvelda matseld og auka eftirspurn eftir íslenskum réttum. Fiskisaga er á réttri leið. Við erum eftir á í þróun sameiginlegra eldhúsa. Hugsaðu þér í 36 íbúða blokk er klukkan sjö verið að elda í öllum eldhúsunum fyrir örfáa einstaklinga. Af hverju slær fólkið ekki saman og skiptist á. Býr til kommúnueldhús? Nýjar matarvenjur og jafnvel amerískir sjónvarpsþættir geta víkkað sjóndeildarhringinn aukið ímyndunarafl og sköpunargleði og kryddað menningu okkar. Við skulum vona að börnin sofni út frá einhverju uppbyggilegu hvert svo sem lagið er. Ég er sammála varúðartóninum í málflutningi þínum – við verðum að standa vörð um menninguna. Kveðja

  Posted by: Sveinn | 9.08.2008 | 0:55:12

Lokað er á athugasemdir.