Með augum flóttamannsins

„Líkamlega líður mér mjög vel. Þetta er gott hús og ég get farið í sund. Það er ágætt að fara í sund en það bara leysir ekkert vandamál mitt.

Vandamálið er að líf mitt er búið að vera á pásu í mörg ár. Andlega líður mér eins og ég sé í fangelsi. Ég má ferðast um Ísland en það er ekki hægt ef maður á enga peninga, svo ég kemst ekki neitt. Ég má ekki vinna. Ég vil ekki vera upp á Rauða Krossinn kominn, mig langar að verða mér úti um menntun og vinna og eignast heimili. Mig langar að eignast konu og börn en það er ekki hægt því ég get hvenær sem er átt von á því að verða sendur til heimalands míns aftur. Ég vil ekkert fara þangað því það er hættulegt og ekkert nema vandamál og eymd. Ég þekki umhverfið ekki einu sinni lengur, það er allt í rúst þar og vinir mínir eru dánir. Þó að sé gott að vera á Íslandi er ég alltaf hræddur. Ég er minna hræddur en þar sem ég get búist við að sprengju sé kastað á bæinn en ég er samt hræddur. Að vera flóttamaður er eins og að vera fangi en ég hef ekki gert neitt af mér.

Ég reikna ekki með að fá hæli hérna því á fjórum árum hafa aðeins þrír flóttamenn úr þessum búðum fengið hæli á Íslandi en tugir verið sendir burt. Stundum er fólki hent úr landi með svo litlum fyrirvara að það nær ekki að kveðja vini sína. Þeir sem eru fæddir í Evrópu geta valið hvar þeir búa en ég má hvergi vera. Í orði kveðnu eru það mannréttindi að fá að leita hælis annarsstaðar ef maður er ekki öruggur heima hjá sér en það er bara í orði. Raunveruleikinn er sá að ef maður er ekki svo heppinn að fæðast á öruggum stað er stjórnvöldum annarra landa skítsama hvort maður lifir eða deyr.“

Við heimsóttum flóttamannabúðirnar í Reykjanesbæ í kvöld og töluðum m.a. við þennan ágæta mann sem hefur alla burði til að gleðja Skattmann og vinna íslensku samfélagi gagn. Hann er hræddur um að það geti flýtt fyrir endursendingu hans út í opinn dauðann ef hann kemur fram opinberlega og því get ég ekki gefið upp nafn hans og þjóðerni.

Í flóttamannabúðunum í Reykjanesbæ halda til um 45 manns. Hvort sem þeir hafa verið hér í 4 daga eða 4 ár, sofna þeir út frá sömu hugsun hvert einasta kvöld; hversu lengi?

———-

(Viðmælandi minn heitir Fatah. Hann var upphaflega frá Aghanistan en hafði lengst af verið flóttamaður í Íran,  var sendur til Íran nokkrum vikum síðar. Hann flúði þaðan til Pakistan. Sumarið 2011 var hann enn á flótta, ég hef ekki frétt af honum síðan.)

One thought on “Með augum flóttamannsins

  1. ————————
    Þetta er það sem ég var að nefna um daginn. Væri ekki mannúðlegra bara að hafa „réttarhöld!“ á Keflavíkurflugvelli og klára málið á staðnum ? Þetta vesalings fólk það býður eftir niðurstöðu árum saman ,fær ekkert að vinna eða fara í nám. Ekkert ! Svo þegar þetta hefur tekið sinn tíma þá er þeim nánast undantekningarlaus neitað um landvistarleyfi og sent aftur.

    Posted by: Guðjón Viðar | 5.08.2008 | 15:12:54

    ————————

    Það væri áreiðanlega gott mál að klára dæmið um leið og fólk kemur til landsins en það væri þá líka eðlilegt að framburður fólksins fengi almennilegt vægi sem sönnunargagn.

    Posted by: Eva | 5.08.2008 | 15:37:45

    ————————

    Ekki ætla ég að mæla seinaganginum bót, hann er óþolandi. En mér skilst að oft á tíðum eigi fólkið erfitt með að gera grein fyrir sér. Hvaðan það kemur, hvert það er að fara og hvað það þarf að óttast í heimalandinu. Í einhverjum tilvikum getur verið (og er) um óæskilega afbrotamenn að ræða. Eigum við að opna landið fyrir hverjum sem er eða… Hvar eigum við að setja viðmið?
    kjh

    Posted by: kjarheid | 5.08.2008 | 19:14:02

    ————————

    Mér finnst alveg sjálfsagt að skoða málið áður en fólki er veitt hæli. Það er hinsvegar með ólíkindum að þessir 28 starfsmenn sem útlendingastofnun hefur á að skipa þurfi meira en 4 ár til að leysa eitt slíkt mál. Það er líka óviðunandi að fólk sem er með allt uppi á borðinu (eins og t.d. Paul Ramses) skuli vera sent burt án þess að málið sé tekið fyrir.

    Svo ber líka að hafa í huga að í löndum þar sem mannréttindi eru fótum troðið, eru skilgreiningar á glæpum iðulega allt aðrar en hér.

    Posted by: Eva | 5.08.2008 | 20:11:27

    ————————

    Margt til í þessu hjá þér, Eva.
    Hvernig mundir þú skilgreina orðið „glæpur?“ Ekki vitna í orðabók.
    kjh

    Posted by: kjarheid | 5.08.2008 | 20:18:36

    ————————

    Ég geri almennt greinarmun á afbroti og glæp þótt auðvitað megi finna tilfelli þar sem er erfitt að greina á milli.

    Ég tala um afbrot ef einhver hefur brotið gegn lögum án þess að það sé í þeim tilgangi eða til þess fallið að valda saklausum tjóni. Ég myndi t.d. flokka það sem afbrot en ekki glæp að leggja bíl ólöglega eða gefa Skattmann rangar upplýsingar um tekjur sínar.

    Glæpur veldur hinsvegar skaða. Ofbeldisbrot og brot gegn eignarrétti og friðhelgi fólks falla í þann flokk.

    Ég get ekki litið á það sem glæp þótt einhver gagnrýni stjórnvöld í landi þar sem það er bannað, trufli starfsemi stórfyrirtækja sem í krafti auðs og valda komast upp með mjög umdeilt hátterni, steli sér til matar þegar hann hefur verið sviptur afkomumöguleikum sínum, verji eigur sínar gegn kannski löglegu en fullkomlega ósiðlegu eignanámi eða lifi kynlífi sem samræmist ekki ríkjandi trúarbrögðum.

    Posted by: Eva | 6.08.2008 | 0:22:28

    ————————

    Meikar sens.
    kjh

    Posted by: kjarheid | 7.08.2008 | 9:09:24

    ————————

    Tjásur af moggablogginu

    Mikið rosalega finn ég til með sessu fólki 🙁

    alva (IP-tala skráð) 5.8.2008 kl. 00:11

    ————————

    takk fyrir þessa færslu… hvað ætli sé annars að frétta af honum Paul Ramses… málið virðist hafa gufað upp í daglegu amstri ráðherrans

    Birgitta Jónsdóttir, 6.8.2008 kl. 14:43

    ————————

    Það sem er að frétta af Paul er það að hann fer á fætur kl fimm og gengur í tvo tíma til að bíða allan daginn í biðröð eftir að komast inn á skrifstofu til að fá eitt eyðublað. Hundruð flóttamanna mæta þarna daglega en 30 eyðublöð eru afhent daglega.

    Eva Hauksdóttir, 6.8.2008 kl. 15:53

     

Lokað er á athugasemdir.