Hefur þú eitthvað að fela?

Ég þekki konu sem hélt að hún væri að verða geðveik. Hún gat ekki sett óhreinar nærbuxur í taukörfuna, heldur þvoði þær í höndunum jafnóðum og það er bara frekar bilað. Á endanum tók hún sér tak og komst yfir þetta því hún vildi ekki láta gamalt áfall stjórna lífi sínu.

Áfallið var ekki neinn stórviðburður. Ekki nauðgun eða náttúruhamfarir. Hún tók upp þessa geðveikislegu hegðun eftir að lögreglan gerði húsleit heima hjá henni. Hún var í kunningsskap við mann sem var grunaður um refsivert athæfi og þar sem hann hélt sig mikið heima hjá henni, þótti viðeigandi að rjúfa friðhelgi heimils hennar.

Henni brá þegar þeir bönkuðu upp á en kyngdi og hugsaði, hvað er það versta sem getur gerst? Komst að þeirri niðurstöðu að í versta falli myndu nágrannarnir slúðra um hana. Hún tók innrásinni af stillingu. Sá sem hefur ekkert að fela, þarf heldur ekkert að óttast, eða hvað?

Þeir fundu ekkert grunsamlegt. Gengu m.a.s. vel um og sýndu henni meiri tillitssemi en hún hafði átt von á. Samt sem áður var hugsanlegur kjaftagangur nágrannanna ekki það versta. Það versta var þegar þeir fóru inn á baðherbergið þar sem blóðugar nærbuxur lágu efst í taukörfunni hennar.

Hún hafði ekkert að fela. Ef einhver hefði spurt hana hvort hún hefði reglulegar blæðingar, hefði hún sennilega viðurkennt það kinnroðalaust. Enda ekkert til að skammast sín fyrir. Samt þótti henni þetta svo niðurlægjandi reynsla að næstu mánuði gat hún ekki hugsað sér að taka áhættu á því að hafa óhreinar brækur til sýnis ef hún yrði fyrir annarri innrás.

Persónunjósnir hafa alltaf verið stundaðar á Íslandi. Þær hafa bara ekki verið löglegar. Það eina sem mun breytast við forvirkar rannsóknarheimildir er að tilefnislaus innrás yfirvalda í einkalíf þitt verður viðurkennd sem eðlileg hegðun og þ.a.l. stunduð í mun meira mæli en áður. Rétturinn til einkalífs verður ekki lengur talinn heilagur.

Ég hef engar áhyggjur því ég hef ekkert að fela, segir einhver. Jæja gæskur, ekki rengi ég þig. En ef þú ert einn þeirra sem hefur ekkert að fela, viltu þá taka þér 5 mínútur í að fara í gegnum skjölin í tölvunni þinni. Ég er viss um að þú hefur ekkert að fela. Ekkert barnaklám eða upplýsingar um stórfelldan fjárdrátt. En hvernig eru myndirnar sem voru teknar um jólin? Þessar sem þú settir ekki á facebook. Áttu mynd af þér sauðdrukknum að troða þig út af marengstertu? Já, er semsagt góð ástæða fyrir því að hún er ekki á fb? Hvað með ofurvæmna ástarljóðið sem þú skrifaðir fyrir 5 árum en hættir við að senda á ljóð.is af því að þú sást sjálfur að það færi enn verr með brostna hjartað þitt að opinbera þetta eymdarrunk? En tölvupósturinn þinn? Geymirðu enn uppkastið af bréfinu, þar sem þú jóst svívirðingum yfir leikskólakennarann þegar barnið þitt kom heim í sokkum af einhverju öðru barni? Hættir svo við að senda þegar þú áttaðir þig á því að sennilega stafaði þessi ofsareiði nú frekar af því að yfirmaðurinn gaf í skyn að þeir sem væru ósammála honum gætu farið að skoða rétt sinn til atvinnuleysisbóta.

Kíktu líka aðeins í skápana hjá þér. Af hverju er boxið með viagratöflunum á bak við sárabindapakkann innst í skápnum? Hefur þú eitthvað að fela? Eða finnst þér bara óþægilegt að óviðkomandi séu með nefið í þínum baðskápum? Eru 15 pakkar af kókosbollum í eldhússkápnum? Það er ekkert ólöglegt að safna kókosbollum en þú segir nú samt ekkert hverjum sem er að þú hafir dottið í kókosbollur þegar þú hættir að reykja.

Hvað með bókhaldsmöppuna? Ertu að reyna að fela kreditkortaútskriftina eða er ástæðan fyrir því að hún liggur ekki á stofuborðinu við hliðina á Gestgjafanum sú að þér finnst öðrum ekkert koma það við hvað þú eyddir miklum peningum í ríkinu í síðasta mánuði? Þótt það sé löglegt. Finnst þér kannski að öðrum komi það heldur ekki við þótt þú hafir eytt andvirði þessa ógreidda rafmagnsreiknings í afmælisgjöf handa barninu þínu?

Ástæðan fyrir því að yfirvöld mega ekki valsa um á heimili þínu, gramsa í eigum þínum, elta þig og lesa tölvupóstinn þinn, er ekki sú að lögin vilji tryggja glæpamönnum kjöraðstæður til að fela eitthvað. Ástæðan er sú að mannskepnan þarfnast þess að eiga ómerkileg leyndarmál. Maðurinn þarf á því að halda að líta út fyrir að vera betri, sterkari, heilsteypari, hreinni og fallegri en hann raunverulega er. Það þarf traust til að sýna sitt rétta andlit. Slíkt traust sýnir maður þeim sem þekkja mann og elska. Það er fólkið sem við treystum. Fólkið sem við deilum með skápum, tölvum og óhreinatauskörfum. Sem við deilum með einkalífi okkar, því sem við að hluta til felum fyrir umheiminum. Ekki af því að einkalíf okkar sé ólöglegt, heldur af því að það er viðkvæmt. Af því að vitneskja óviðkomandi fólks getur sært okkur og skaðað sjálfsmynd okkar, jafnvel ímynd okkar út á við.

Forvirkar rannsóknarheimilidir merkja ekki bara að unnt verði að afstýra afbrotum (og reyndar höfum ekki hugmynd um hversu mörgum afbrotum slíkar heimildir hafa afstýrt). Þær merkja líka að ekkert okkar getur lengur gengið út frá því að við eigum í raun einkalíf.

Forvirkar rannsóknarheimildir merkja, að ef þér finnst tilhugsunin, um að fólk sem þú treystir ekki sjái óhreinu nærbuxurnar þínar, svo óþægileg að þú þværð þær í höndunum í stað þess að setja þær í óhreina tauið, þá er það ekki vísbending um að þú sért geðveikur heldur að þú búir í lögregluríki.

Share to Facebook

One thought on “Hefur þú eitthvað að fela?

 1.  Góð!

  Posted by: Hulda H. | 17.02.2011 | 11:55:53

  Kæra Eva, ég hef búið í lögregluríki, með þessum skrifum þínum gerir þú lítið úr því máli.

  G

  Posted by: Guðmundur Ólafsson hagfræðingur | 17.02.2011 | 16:42:24

  En stíllinn er frábær

  Posted by: Goðmundur Ólafsson hagfræðingur | 17.02.2011 | 19:05:23

  Guðmundur ég er viss um að forvirkar rannsóknarheimildir hafa verið eitt af því sem gerðu lögregluríkið sem þú bjóst í að lögregluríki. Er það ekki rétt hjá mér?

  Íslendingar munu stíga stórt og mikilvægt skref í átt að lögregluríki með því að koma á forvirkum rannsóknarheimildum. Við getum annað hvort horfst í augu við það strax eða velt okkur á hina hliðna og sofið fram yfir forvirkar refsiheimildir.

  Posted by: Eva | 18.02.2011 | 8:50:41

  Nei, það var nóg að barnið þitt talaði ógætilega á dagheimili.

  Posted by: Guðmundur Ólafsson hagfræðingur | 18.02.2011 | 17:13:18

  Eins og það séu ekki til mismunandi stig af lögregluríki Guðmundur.

  http://en.wikipedia.org/wiki/Inverted_totalitarianism

  Posted by: Dr. Duce | 19.02.2011 | 4:52:04

  Guðmundur, þótt þú hafir búið í landi þar sem fólk býr (eða bjó)ekki við sjálfsögðustu mannréttindi, þá merkir það ekki að við eigum að sætta okkur við bara pínulitla skerðingu á friðhelgi einkalífs og heimilis. Þvert á móti eigum við að verja með kjafti og klóm það frelsi sem við þegar njótum og heimta meira ef eitthvað er. Það er stórhættulegt viðhorf að ef eitthvað sé verra annarsstaðar, þá eigum við bara að vera ánægð. Það eru þau rök sem hafa verið notuð til að berja niður alla mannréttindabaráttu, alltaf og allsstaðar.

  Posted by: Eva | 19.02.2011 | 9:39:34

  Fasistar vinna nákvæmlega svona. Ganga á/afnema réttindi í smá skrefum.

  „Fasismi á sér engar pólitískar girðingar!“
  Skuggi St.

  Posted by: Skuggi | 19.02.2011 | 12:54:54

  Fyrir nokkrum árum las ég, þýddi og gerði samantekt úr þingskýrslu Bandaríkjaþings um ólöglegar aðgerðir Alríkislögreglunnar gegn bandarískum borgurum sem eiga við hér.

  Í skýrslu þingnefndar Bandaríkjaþings 1976 kemur fram að alríkislögreglan stundaði aðgerðir undir því yfirskini að „vernda öryggi landsins og koma í veg fyrir ofbeldi.“ (Bls. 6 í bók III). Nefndin komst hins vegar að þeirri niðurstöðu „að alríkislögreglan hefði hlutverk við að viðhalda ríkjandi þjóðfélags- og stjórnmálaskipan, og aðgerðir hennar skyldu miða að því að berjast gegn þeim sem ógna þeirri skipan.“ (Bls. 5 og 7 í bók III.).

  Fyrir áhugasama er hér samantektin í heild:
  http://jonthorolafsson.blog.is/blog/jonthorolafsson/entry/1104834/

  Posted by: Jón Þór Ólafsson | 19.02.2011 | 16:24:54

   

Lokað er á athugasemdir.