Framlag Íslendinga

palestinaVel heppnað þjóðarmorð Ísraela á Palestínumönnum, með dyggum stuðningi Bandaríkjastjórnar, hefur nú staðið yfir í 58 ár.

Palestínumenn eru fangar í eigin landi, þjóð sem alþjóðasamfélagið viðurkennir ekki sem þjóð. Þeir eru í bókstaflegri merkingu sveltir inni á litlum svæðum og samgangur á milli þeirra er lífshættulegur (reyndar er það lífshættulegt í sjálfu sér að vera Palestínumaður). Þeir njóta engra mannréttinda, og þótt þar ríki að nafninu til heimastjórn, getur hún ekki einu sinni gefið út vegabréf. Lýðræðislega kjörin stjórnmálasamtök fólks sem dirfist að bera hönd yfir höfuð sér, eru nefnd „herská samtök“ eða jafnvel „hryðjuverkasamtök“ í vestrænum fjölmiðlum.

Daglegt líf Palestínumanna líkist lífi fátæklinga í Evrópu á miðöldum. Heilbrigðisþjónustan er í rúst, skólakerfið óstarfhæft, fátæktin skelfileg og í þokkabót geta þeir búist við að klasasprengjum verði kastað á heimili þeirra eða leiksvæði barnanna hvenær sem er. Margir hafa ekki aðgang að öðru vatni en regnvatni. Á Vesturbakkanum er þriðja kynslóð flóttamanna að vaxa upp.

Við Íslendingar vitum þetta allt saman. Við höfum lagt okkar af mörkum til þessarar hæggengu helfarar, með því að harðneita Palestínumönnum um landvistarleyfi og með þátttöku okkar í Nató. Við hryllum okkur yfir hreyfingum nýnasista og teljum okkur góð á meðan þær eru ekki áberandi hér. Við fylkjum okkur hinsvegar undir merki illa dulbúins jakkafatafasisma. Við köllum hann frjálshyggju.

Share to Facebook