Opið bréf til íslenskra rökleysulúða

stop-Af hverju bara Kárahnjúkavirkjun, af hverju mótmæla þeir ekki öllu hinu líka?
-Af hverju fara þeir svona að? Af hverju ekki einhvernveginn öðruvísi?
-Hvað með álverið á Grundartanga, finnst þeim það allt í lagi?
-Hvar voru lopapeysuhipparnir þegar þeir byrjuðu að grafa sundur Hafnarfjarðarhraun?
-Af hverju mótmæla þeir ekki alveg eins botvörpuveiðum?
-Af hverju gera þeir ekki eitthvað áhrifaríkara? Sem er samt alveg löglegt og sem allir fíla?

Nöldur af þessu tagi er auðvitað ekki svaravert en þar sem heimska almúgans ríður ekki við einteyming ætla ég að gera tilraun til aulaheldrar útskýringar:

Vegna þess fíflin ykkar að hér eru engir atvinnumótmælendur.

Þeir fáu sem hafa gert eitthvað róttækara en að fara í labbitúr niður Laugaveginn, eru venjulegt fólk í fullri vinnu eða námi, oft fjölskyldufólk og oftar en ekki með lágar tekjur. Mótmælaaðerðir eru ekki á fjárlögum og fá ekki styrk frá stórfyrirtækjum. Þær eru fjármagnaðar af skólafólki, elllífeyrisþegum og litlum hópum erlendra stúdenta. Aktívir umhverfissinnar nota sinn takmarkaða frítíma til að berjast gegn þeim framkvæmdum sem þeir sjálfir kjósa. Þeir eru ekki á launum við það og enginn annar en þeir sjálfir hafa neitt um það að segja hverju þeir mótmæla, hvar eða með hvaða aðferðum. Ég fullyrði að hver einasti þeirra tæki því fagnandi ef þeir sem hafa agnúast út í þá fyrir rangar áherslur, drusluðust sjálfir til að mótmæla eyðileggingunni á Hafnarfjarðarhrauni, álveri á Grundartanga eða hverri þeirri umhverfisvá sem menn sjá ástæðu til að hafa áhyggjur af.

Ef þið bæruð í alvöru umhyggju fyrir framtíð jarðarinnar, mynduð þið leggja umhverfisverndarfólki lið í stað þess að gagnrýna það fyrir að vera ekki ofurhetjur. En það eru allt aðrar hugsjónir en náttúruvernd sem vaka fyrir þeim sem með aumkunarverðri hundalógík, reyna að gera málstað umhverfissinna tortryggilegan.