Um gagnvirkar bókmenntir

education-books

Um daginn sagði afi Bjarni að engin þróun hefði orðið í bókmenntum á síðustu áratugum. Í myndlist og leikhúsi hefðu komið fram nýjungar en bókin væri alltaf eins. Honum yfirsjást gagnvirku bókmenntirnar. Vefbækurnar og tölvuleikirnir.

Í vefbókinni rennur skáldskapur saman við veruleikann. Við skynjum sem ævisögu það sem í raun er söguleg skáldsaga af einhverjum meðalmennskulúða. Ævisaga sem enginn myndi lesa nema af því að lesandinn hefur a) væntingar um að sjá nafns síns eða einhvers sem hann þekkir getið, b) möguleika á að hafa áhrif á framvindu sögunnar með því að nota kommentakerfið. Persónulega vefbókin er jafnvel meiri skáldskapur en hefðbundin ævisaga þar sem hún er samtímasaga sem felur í sér persónulega reynslu, oft viðkvæma og þ.a.l. mjög margt sem ekki er enn orðið frásagnarhæft. Á sama tíma kemur út hver ævisagan af annarri undir yfirskini skáldsögunnar. Efasemdir okkar um raunveruleikann endurspeglast því ekki síður í bókmenntum en í myndlist. Vefbókin er stundum illskiljanleg tilfinningatjáning, vettvangur höfundar til að endurspegla sálarástand sitt án þess að aðdragandi sé röklega skýrður eða niðurstaða dregin. Nákvæmlega sama element er oft notað í gjörningalist, tónlist, myndlist. Áhrifin eru tilfinningaleg fremur en vitræn.

Sýndarraunsæi eða sýndarveruleikaraunsæi?
Ég get ekki gert upp við mig hvort orðið er gegnsærra. Kannski af því að fyrirbærið er ógegnsætt í eðli sínu.