Ég skammast mín fyrir þessa forsetanefnu

Einu sinni kaus ég Ólaf Ragnar til að gegna forsetaembættinu og ég hef hingað til verið sátt við að hafa hann þótt mér finnist hann orðinn full þaulsetinn.

En nú er ég búin að skipta um skoðun. Ég vil ekki sjá það að maður sem styður mannréttindabrot Kínverja með því að þiggja partýboð og það m.a.s. boð þar sem tekið er fram að ákveðnir samfélagshópar séu ekki þóknanlegir. Hvað varðar bullið í honum um að árangur náist í mannrétindamálum með því að sýna harðstjórum virðingu (fyrir hvern fjandann á að virða þá?) þá auglýsi ég hér með eftir upplýsingum um það hvenær í veraldarsögunni stjórnvöld hafa hætt við útrýmingu þjóða, þjóðarbrota eða samfélagshópa og aflagt dauðarefsingar, pyndingar og önnur mannréttindabrot, fyrir kurteisleg tilmæli frá viðhlæjendum sínum.

Ég fær ekki betur séð en að það sem hingað til hefur skilað árangri séu viðskiptaþvinganir og fordæming alþjóðasamfélagsins. Ekki verður séð að mannréttindi í Kína hafi fengið meira vægi þótt við höfum boðið fjöldamorðingjanum Jiang Zemin til veislu. Það kom mér ekki svo mikið á óvart á sínum tíma þótt Halldór Ásgrímsson teldi það við hæfi að snudda utan í hann en Ólafur veldur mér virkiega vonbrigðum.

Ég skammast mín fyrir að hafa þetta sem forseta.

mbl.is Götum lokað vegna embættistöku

 

One thought on “Ég skammast mín fyrir þessa forsetanefnu

  1. ————————

    Þurfum við ekki bara að leggja niður embættið ef að það sækjast ekki 3-5 eftir útnefningu og láta svo viðkomandi aðila hafa fé til kosningarbaráttu.

    Johnny Bravo, 31.7.2008 kl. 13:14

    ———————–

    Ég hef líka aldrei verið sáttur við að almenningur geti beintengt hvaða þvælu sem er við fréttir á stórum fréttamiðli.

    Gústaf M. (IP-tala skráð) 31.7.2008 kl. 13:20

    ———————–

    Ég er reyndar ekkert viss um að það sé yfirhöfuð nein nauðsyn á að spandera fé skattgreiðenda í þetta tilgangslitla embætti. Ef landinn vill endilega halda í þessa fordýru skrautfjöður þá finnst mér alveg koma til greina að setja hámark á þá fjárhæð sem leyfilegt er að verja til kosningabaráttu, svo fremi sem allir frambjóðendur fá jafnt aðgengi að fjölmiðlum.

    Þjóðin ætti svo bara að sjá um það sjálf að reka þá forseta úr embætti sem vinna beinlínis gegn friði og frelsi í heiminum með því að snobba fyrir stjórnvöldum á borð við þau sem Kínverjar þurfa að lifa við. Við gætum t.d. mætt við innsetninguna á morgun og lýst vanþóknun okkar.

    Eva Hauksdóttir, 31.7.2008 kl. 13:25

    ———————–

    1. Er það ekki hugmynd að takmarka setu við 2-3 kjörtímabil? Það er óþarfi af manni finnist maður lifa við konungsríki.

    2. Viðskiptaþvinganir gegn Kína? Ef þú losar þig við allt sem hefur stimpilinn ‘Made in China’, er ekkert nema mjólk og skyr eftir í íbúðinni þinni.

    Villi Asgeirsson, 31.7.2008 kl. 13:42

    ———————–

    Íslendingar eiga að losa sig algerlega við forseta.. alger sóun á peningum að halda uppi súperofuröryrkja

    DoctorE (IP-tala skráð) 31.7.2008 kl. 13:46

    ———————–

    Skil ekki kommentið hjá Gústaf M.

    Má maður ekki segja að forsetaembættið sé kjánalegt og menn nenna ekki að bjóða sig fram í þetta einu sinni

    Johnny Bravo, 31.7.2008 kl. 14:11

    ———————–

    Ef þjóðir heims sameinuðust um að lifa án þess sem er made in China, þá þyrfti ekki nema nokkrar vikur þar til Kínverjar næðu skilaboðunum. Ætli þeir myndu ekki mæta kröfum um umbætur í mannréttindamálum ef þeir sæju fram á að viðskiptavinir þeirra myndu bara ekkert umbera hegðun þeirra.

    Eva Hauksdóttir, 31.7.2008 kl. 16:08

    ———————–

    Þótt við Íslendingar höfum ýmsilegt til að skammast okkar fyrir (eins og reyndar flestar þjóðir) sem snertir mannréttindamál, þá er töluverður munur á ástandinu hér og í Kína. Auðvitað ættu Íslendingar að skammast til þess að afnema kvótakerfið, taka upp almennileg vinnubrögð í málefnum flóttamanna o.s.frv. en það vðgengst þó ekki hér (svo ég viti) að fólki sé stungið í fangelsi án þess að réttað sé yfir því, það sé beitt pyndingum vegna skoðana sinna eða að kerfisbundnar hóprefsingar og jafnvel útrýmingarherferðir eigi sér stað.

    Þótt við séum langt frá því að vera fullkomin, léttir það ekki af okkur þeirri skyldu að lýsa andúð á þeim viðbjóði sem tíðkast í Kína.

    Eva Hauksdóttir, 31.7.2008 kl. 17:24

    ———————–

    Hvað koma mannréttindabrot í Kína okkur við. Þetta land getur orðið okkur mjög þýðingarmikið viðskiptalega séð seinna meir. Svo hefur Forseti vor ekkert annað gert en standa sig vel í embætti eins og hans var von og vísa. Svona tal um persónu hans á ekki að líðast.

    Sigurbrandur Jakobsson, 31.7.2008 kl. 18:09

    ———————–

    Segðu mér eitt Sigurbrandur; finnst þér að þér komi það eitthvað við ef maðurinn í næsta húsi ber konuna sína til óbóta eða nauðgar barninu sínu?

    Eva Hauksdóttir, 31.7.2008 kl. 18:21

    ———————–

    Sigurbrandur er að segja að peningar séu mikilvægari en fólk, við eigum að horfa í aðra átt ef von er á peningum.
    Ef engin von væri á seðlum frá kína þá hefðu allir íslenskir sem og aðrir stjórnmálamenn dissað þetta dæmi.

    Ég kem reyndar ekki auga á hvað Óli hefur gert gott í sínu embætti, ég heyri hann á stundum segja: Góðir íslendingar og annað álíka stöff sem maður hefur heyrt frá ótal forsetum… svo skýst hann á einhverja snobb ráðstefnur þess á milli.

    Hvað situr eftir forsetatíð Óla Sigurbrandur, hver eru hans góðu verk?

    Ég mæli með því að þegar Óli hætti þá leggjum við þetta óþarfa embætti niður.

    DoctorE (IP-tala skráð) 31.7.2008 kl. 18:58

    ———————–

    Ég get nefnt sem dæmi eitt verk Ólafs Ragnars. Þegar hann kvartaði yfir vegunum í Barðastrandarsýslu og sagði þá ekki fólki bjóðandi. Í dag er búið að endurbæta vegakerfi mjög mikið, þrátt fyrir að ráðamenn hafi vælt hástöfum yfir afskiptasemi hans. Kannski er það fólk sem byggir Barðastrandarsýslu réttlægra í ykkar augum en veslingar í Kína.

    Eva þetta komment hjá þér er viðbjóður og kemur málinu bara ekkert við. Og í sjálfu sér kemur það manni ekki mikið við því gerist það innan veggja heimilisins þá er það friðhelgt. En auðvitað mindi maður reyna að koma ábendingu til viðeigandi yfirvalda, því við erum ekki lögreglan.

    Í mínum huga er brotið mjög á því fólki sem byggir landsbyggðina í dag, og er ekkert síður betra en það sem er að gerast í Kína og Jemen eða hvað sem það nú er. Réttur fólks til lífsbjargar á landsbyggðini hefur verið skertur ár frá ári, og fleiri og fleiri flýja á höfuðborgarsvæðið, þar sem ofbeldi, meðal annas af því tægi sem þú nefnir, er að verða íþrótt. Þið 101 náttúru unnendur ættuð frekar að líta ykkur nær hvað varðar afkomu fólks og réttindi og svo getum við litið við í Kína eða Jemen.

    Sigurbrandur Jakobsson, 31.7.2008 kl. 19:49

    ———————–

    Kommentið frá mér er viðbjóður, satt er það, því það lýsir mjög viðbjóðslegum veruleika. Til er fólk sem er svo siðlaust og svo vondar manneskjur að það lætur sig engu varða þótt fólk verði fyrir hroðalegri meðferð beint fyrir framan nefið á því. Svo er til fólk sem lætur sig það hugsanlega varða ef það gengur mjög langt, en þó því aðeins að viðbjóðurinn sé sýnilegur. Ef er nokkur möguleiki að stinga hausnum í sandinn velur það þann kost.

    En það er líka til fólk sem hugsar aðeins öðruvísi. Fólk sem álítur að það sé mikilvægara að margar manneskjur búi við frelsi öryggi en að fáar manneskjur geti sukkað í vellystingum með því að kúga aðra. Þessháttar fólk telur að mannréttindabrot í Kína komi okkur við, rétt eins og ofbeldi gagnvart barninu í næsta húsi. Þetta sjónarmið er kallað ábyrgðartilfinning, siðferði eða mannúð og það er ekki hægt að útskýra það fyrir fólki sem skortir hæfileika til að setja sig í spor annarra. Sem betur fer er samt meirihlutinn laus við þá tilfinningalegu fötlun.

    Eva Hauksdóttir, 31.7.2008 kl. 21:18

    ———————–

    En hvað með það sem ég var að segja með það sem er að gerast hér á Íslandi. Finnst þér það engu máli skipta. Ég get haldið langan fyrirlestur um þjóðfélagshætti hér heima. Um það hvernig landsbyggðin er að leggjast í auðn. Hvernig afkomurétturinn hefur sogast á hendur fárra stórra fyrirtækja sem spila með þetta eins og Matador. Lítið ykkur nær. Við erum að fara að sitja uppi með viðlíka ástand og í Kína, bara að öðrum toga, og mér sýnist nú sem dæm Forseti vor láta sig það meira varða en þið í 101. Hafið þið enga skoðun eða samúð með löndum ykkar sem sumir hverjir eru að sjá á eftir ævistörfum sínum verða að engu, eins og reyndin er orðin víða á Vestfjörðum.

    Sigurbrandur Jakobsson, 31.7.2008 kl. 21:57

    ———————–

    Það að maður sé mótfallinn því að Íslendingar mylji undir morðingja, merkir ekki að maður styðji þar með yfirgang sömu aðila gagnvart landsbyggðinni.

    Það er einmitt rétt sem þú segir, atvinnumöguleikar eru farnir að einskorðast við örfá fyrirtæki. Þau stærstu og voldugustu þeirra eru Alcan og Alcoa. Með því að gefa þessum risum færi á að leggja landið undir sig er grundvellinum fyrir fjölbreytilegu atvinnulífi kippt undan landsbyggðinni. Það er því líka hagur landbyggðarfólks að losa okkur við þessar blóðsugur.

    Eva Hauksdóttir, 31.7.2008 kl. 22:21

    ———————–

    Þó þér finnist það kannski skrítið, þá er ég nokkuð sammála þér hvað seinnihlutan varðar. En eins og er að þá eru álfyrirtækin ekki allsráðandi á landsbyggðini og því miður, jafnt og það er sem betur fer, að þá eru þau sem betur fer að hleypa lífi í hrakandi byggðarlög eins og Austfirðina. En ég hef bara engan heyrt en sem hefur dreymt um það að vinna í álveri þegar hann verður stór. Og frekar vildi ég verða flórmokari en fara að vinna í álveri.

    Mér bara finnst það sem Saving Iceland er að brölta bara engim til góðs enda eru þau flest af erlendu bergi brotin og þekkja ekki mikið til mannlífs á Íslandi í dag eða á fyrri árum. Þetta er eitthvað of öfgakennt og fíflalegt til að fólk taki mark á því. Sem dæmi varð ég nánast vitni að því sem þau gerðu á Snorrabrautini í fyrra og fannst það hreinlega vera skyldara róstum frekar en baráttu fyrir sanngjörnum málstað.

    En það gleður mig að við skulum vera sammála um að ekki sé góð þróunn að landsbyggðin og þar með landið allt verði Matadórspil í höndum stórfyrirtækja. Því með því erum við að þokast nær stöðu mála í Kína, og það er ekkert auðvelt snúa slíku við frekar en það er í Kína. En með góðum tengslum við Kína getum við reynt okkar besta til að koma einhverju að og ég trúi ekki öðru en það hafi verið hugur Ólafs Ragnars og líka Vigdísar Finnbogadóttur hérna um árið.

    Sigurbrandur Jakobsson, 31.7.2008 kl. 22:40

    ———————–

    Ólafur geri það sem hann vill og þarf ekki spyrja okkur um hverjum hann byður í mat eða hvert hann fer. Hann er búin að standa sig frábærlega vel! Það verður erfitt að taka við eftir honum.

    Það eru alltaf skiptar skoðanir um menn og málefni en Það fer svo mikla orku í illt umtal og neikvæðni.

    Heidi Strand, 31.7.2008 kl. 23:02

    ———————–

    Jú, hann Ólafur þarf barasta víst að spyrja okkur hverjum hann býður í mat og hvert hann fer sem fulltrúi þjóðarinnar. Hann er ekki að fara á eigin vegum í þessa snobbveislu hjá fjöldamorðingjum og það erum líka við sem borgum brúsann.

    Ég hef almennt ekki haft neitt sérstakt út á störf Ólafs Ragnars að setja þótt ég hafi heldur ekki séð nein aðdáunarverð tilþrif hjá honum. Vigdís vakti athygli á skógrækt og kvenréttindabaráttu en ég sé ekki að Ólafur hafi gert neitt markvert. Hann kemur vel fyrir og er svosem alveg frambærileg skrautfjöður og ég hef m.a.s. kosið hann. Ég get þó ekki fellt mig við forseta sem þiggur boð í snobbveislu þar sem tekið er fram að ákveðnir samfélagshópar séu ekki vel séðir.

    Svo auglýsi ég hér með eftir því hvað hann Ólafur Ragnar hefur gert í þessu embætti sínu sem er svona æðislegt.

    Eva Hauksdóttir, 1.8.2008 kl. 01:36

    ———————–

    Hvað ef maðurinn í næsta húsi er að berja konuna sína og það er engin lögregla til að kalla til, enginn sem getur farið og neytt hann til að hætta ?

    Hættir hann ef þú fordæmir allt sem hann gerir og sniðgengur heimili hans ?

    Eða er hann líklegri til að hætta ef þú spjallar við hann á vinalegum nótum og býðst til að hjálpa honum við að hætta voðaverkum sínum ?

    Ég held að afstaða Ólafs Ragnars í þessu máli sé hárrétt.

    Viðar Freyr Guðmundsson, 5.8.2008 kl. 03:20

    ———————–

    Ég vildi að svo væri en geturðu nefnt mér eitt dæmi úr mannkynssögunni um að harðstjórar hafi látið af hegðun sinni fyrir vinsmleg tilmæli? Það er margbúið að biðja Kínverja vinsamlegast að hætta að drepa fólk fyrir skoðanir sínar og beita pyndingum en það hefur ekki skilað árangri.

    Þú getur alveg prófað að ræða málin í rólegheitum en ef nágranninn heldur ótrauður áfram, þá mætirðu ekki í partýið, heldur segirðu honum skýrt og skorinort að svona geri maður ekki og svo færðu alla í hverfinu til að hætta að versla í búðinni hans. Ekki nóg með það heldurðu skýturðu líka skjólshúsi yfir konuna þegar hún kemur hlaupandi til þín og segir að maðurinn sé að reyna að drepa sig. Er það ekki?

    Eva Hauksdóttir, 5.8.2008 kl. 12:43

    ———————–

    Ég hafði vonað að þjóðin losnaði loks við þetta forsetaóbermi en að sjálfsögðu var ekki hans orðum að treysta í þessu frekar en öðru.  Við þurfum að standa undir partýhaldinu áfram næstu fjögur ár hjá honum og frúnni.  Liggur við að mér finnist bara ágætt að Baugur sjái um hluta fjármögnunarinnar eins ógeðfellt og það er nú.

    Óli hefur lítið gert af viti þessi ár sem hann hefur setið en þeim mun meira ógagn.  Hann á eftir að skilja við forsetaembættið í rjúkandi rúst, rúið virðingu og engum til gagns.

    Þetta daður hans við kínakommana þarf nú ekki að koma á óvart í ljósi áhugamála hans gegnum tíðina.

    Hins vegar er þessi kínaferð hans til skammar.  Ef hann þykist hafa einhvern áhuga á mannréttindum þá á hann að sitja heima.  Eða fara á skíði eins og hann gerir gjarnan á íslenskum hátíðisdögum.

    LM, 5.8.2008 kl. 18:27

Lokað er á athugasemdir.