Alþingismenn sjái sjálfir um að setja nothæf lög

Althingishusid
Á fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar í gær var fjallað um álit Umboðsmanns Alþingis á samskiptum fyrrum innanríkisráðherra við lögreglustjóra í tengslum við brot á trúnaðarskyldu ráðuneytisins.

Á fundinum beindi Brynjar Níelsson þeirri spurningu til Umboðsmanns hvort rétt væri að fela undirmönnum það verkefni að rannsaka yfirmenn sína og hvernig ráðherra í þessari stöðu ætti að bregðast við ef hann teldi vinnubrögð lögreglu ámælisverð. Benti þingmaðurinn á að þeir sem sæti rannsókn eigi rétt á að gera athugasemdir og varpaði fram þeirri spurningu hvort ekki væri rétt að ríkissaksóknari annaðist rannsókn þegar svo sérstaklega stæði á.

Í svari Umboðsmanns kom fram að lögin geri ekki ráð fyrir því fyrirkomulagi að ríkissaksóknari færi með rannsókn sakamáls. Hann benti á að ef þessi afskipti ráðherra af lögreglurannsókninni hefðu ekki átt sér stað, hefði aldrei komið til afskipta Umboðsmanns. UA tók undir það álit að æskilegt gæti verið að embættismenn og stofnanir í slíkri stöðu gætu leitað til einhvers sem ekki ætti aðild að málinu eða væri tengdur því.

Brynjar ítrekaði spurningu um það hvort ríkissaksóknari ætti ekki að hafa rannsóknarheimilidir í málum af þessu tagi.

Umboðsmaður svaraði því til að lagasetningarvaldið væri hjá Alþingi en ekki Umboðsmanni Alþingis.  Þegar Brynjar innti eftir persónulegu áliti hans sagðist UA ekki hafa tamið sér að segja Alþingi fyrir verkum.

Taka má undir það sjónarmið Brynjars að þörf sé á lagabreytingu, því þótt það sé eflaust rétt hjá UA að kerfið virki ágætlega svo fremi sem farið sé að leikreglum, er greinilega ekki hægt að ganga út frá því að þær leikreglur séu virtar. Það er svo á valdi Brynjars sjálfs og samstarfsmanna hans á Alþingi að gera þær lagabreytingar sem þeir telja nauðsynlegar. Málið snýst þó miklu fremur um gagnsæi og góð vinnubrögð í stjórnsýslunni en erfiða aðstöðu ráðherra þegar ráðuneytið sætir sakamálarannsókn. Mun því mörgum þykja meira aðkallandi að fá það á hreint með hvaða hætti Alþingi hyggst láta Hönnu Birnu Kristjánsdóttur axla ábyrgð á þessum samskiptum sínum við lögreglustjóra. Og er það þó aðeins einn angi þess ógeðfellda máls sem hún er flækt í.