Af hverju viðurkennir Hanna Birna núna?

hbk-688x451

Á fundi stjórnskipunar og eftirlitsnefndar í morgun benti Birgitta Jónsdóttir á að í ágúst hefði Umboðsmaður Alþingis talið koma til greina að gefa Alþingi skýrslu um brot ráðherra í starfi. Hún spurði UA eftirfarandi spurninga:

  • Hvenær á þessum fimm mánuðum UA hefði orðið ljóst að ekki yrði um slíka skýrslu að ræða.
  • Hvort afstaða ráðherra sjálfs breytti einhverju um það hvort hann hefði framið afbrot í starfi.
  •  Hver væri munurinn á broti í starfi og broti á verklags og siðareglum.

Umboðsmaður svaraði þessum spurningum ekki beint en lét uppi það álit sitt að svo fremi sem UA hefði forsendu til þess að ljúka málinu sjálfur, bæri honum að gera það.  Þótt svör UA séu ekki afdráttarlaus má af þeim ráða að áform hans um að skila Alþingi skýrslu hafi verið örþrifaráð þar sem ráðherra fékkst ekki til að gefa honum réttar upplýsingar um málsatvik fyrr en 8. janúar sl. Hefði UA talið sig knúinn til að skila Alþingi slíkri skýrslu hefði Alþingi þar með þurft að taka afstöðu til þess hvort skýrslan gæfi tilefni til frekari aðgerða.

Fyrrum innanríkisráðherra, Hanna Birna Kristjánsdóttir, virðist samkvæmt þessu hafa forðað sér frá hugsanlegri málssókn með því að viðurkenna að samskipti hennar við lögreglustjóra hafi verið með þeim hætti sem lögreglustjóri hafði lýst fyrir Umboðsmanni.