Guði sé lof að ég er trúleysingi

-Jæja, það er nú gott að þú ert búin að fyrirgefa, sagði hún og ef ég væri ekki meðvituð um almenna tilhneigingu múgans til að klæmast á orðinu fyrirgefning, hefði ég snappað.

Það hefur EKKERT, nákvæmlega ekkert með fyrirgefningu að gera, þótt maður taki þá heilbrigðu afstöðu að láta tiltekið mál ekki angra sig.

Heilbrigð mannvera lifir ekki í fortíðinni og kvíðir ekki framtíðinni. Halda áfram að lesa

Greitt með ánægju

Afborgunin af námslánunum er svolítið stór biti en ég hef alltaf greitt þau með ánægju. Mig svíður í nískupúkann undan skattinum, af því að stór hluti hans fer í eitthvað sem ég er mótfallin en LÍN (þrátt fyrir margháttað bókhaldsrugl) gaf mér tækifæri sem ég verð alltaf þakklát fyrir. Ég naut hvers einasta dags í Háskólanum og það sem ég lærði þar nýtist mér í hvert sinn sem ég les bók, horfi á kvikmynd og set saman galdur, kvæði eða smásögu.

Ég er löngu hætt að réttlæta það að hafa farið í nám sem ég hef lítið nýtt í praktískum tilgangi. Mér finnst það bera vott um vonda gerð af heimsku að líta einvörðungu á menntun sem lykil að launuðu starfi. Það er alltaf hægt að finna einhvern sem vill borga manni fyrir að gera eitthvað en sumir virðast ekki reikna með því að þeir muni nokkurntíma eiga frístundir. Ég reikna með að lifa 20-30 ár eftir að ég hætti að vinna og þá ætla ég ekki að horfa á Leiðarljós.

Sonur minn sárfættur

Byltingin er kominn af fjöllum eftir rúman sólarhringslabbitúr með stuttri setu í bíl og er nú staddur á Vík í Mýrdal. Bræður hans 8 hljóta að vera synir Hilmars. Allavega ætla ég ekki að standa í því að sauma 9 rauðar skotthúfur fyrir jólin.

Skyldi þessi reynsla duga honum til að sannfærast um gagnsemi þess að taka bílpróf?

…og allt verður fullkomið

Ég er þjónn þinn og lærlingur, sagði Búðarsveinninn. Það fannst mér fallegt.

Elsku drengurinn heldur að hann sé kominn í draumastarfið. Ég lofaði honum skítalaunum og gnægð hundleiðinlegra verkefna en hann ljómaði bara eins og hann hefði aldrei heyrt um neitt skemmtilegra en að fara í Sorpu, flokka steina eftir stærð, glíma við hálfónýtan prentara og telja geðfatlað fólk ofan af því að eyða örorkubótunum sínum í hluti sem gætu haft neikvæð áhrif á bata þess.

Nú þarf ég bara að ráða spákonu, markaðsstjóra, símadömu, skotveiðimann og bakara og þar með þarf ég ekki að gera neitt nema skrifa sonnettur og lakka neglurnar á mér. Svo læt ég byggja mér kastala í Vesturbænum svo ég geti setið við efsta turngluggann og horft á veldi mitt rísa.

Búðarsveinn fundinn

Búðarsveinninn byrjar í dag. Ég veit að mörgum kann að þykja undarlegt að ráða ungan pilt þegar ég á tvo slíka heima. Málið er að ég elska drengina mína mjög mikið og þótt þeir hjálpi auðvitað til, vil ég alls ekki gera vinnuna og heimilislífið að einu og sama fyrirbærinu. Ég veit heldur ekki hvernig það færi með Andlit byltingarinnar að þurfa að velja á milli þess að taka laugardag í að þjóna annaðhvort byltingunni eða Nornabúðarveldinu. Það væri svona svipað og að láta barn velja á milli foreldra. Auk þess mun það ekki hafa fjölskylduharmleik í för með sér þótt búðarsveinninn bregðist á ögurstundu eða ef kemur upp ágreiningur varðandi kaup og kjör. Fyrir nú utan það að þeir hafa svosem nóg annað að gera, báðir. Halda áfram að lesa