Gegndrepa

Mér skilst að lykillinn að hamingjunni felist í því að klára allt þetta sem maður byrjaði á endur fyrir löngu.

Þegar maður er búinn að smyrja á sig, fyrir utan venjulegt andlitskrem og húðmjólk, fótafrískandi, hárvaxtarheftandi, rassasléttandi, brjóstastinnandi, augnpokastrekkjandi, svitastoppandi, munnhrukkumildandi og naglbandamýkjandi kremum, þarf maður þá virkilega að klára handáburðinn líka til að ná blissinu?

Einn skammt af slöppum?

Hvaða hálfapa datt í hug að láta sjoppuafgreiðslufólk setja franskar kartöflur í loftþétta poka „til að halda á þeim hita“?

Líklega þeim sama og fann út að besta leiðin til að kæla gosdrykki væri sú að fylla glasið af muldum ís. Ég drekk reyndar ekki gos sjálf, hvorki vantsþynnt né óþynnt en gufusoðnar franskar, það eru nú bara helgispjöll. Gott ef ekki guðspjöll.

Skoða Sóló

Stefán bauð mér með sér á kaffihúsafund hjá einhleypraklúbbi í gær. Þarna voru samankomnir 5 karlar og 500 konur, flest eldri borgarar með smábörn. Neinei, ekki barnabörn heldur sín eigin. Mín kynslóð mun líklega ekki eignast barnabörn fyrr en um áttrætt. Sennilega er ég eina manneskjan í heiminum sem finnst æskilegt að konur hefji barneignir áður en þær komast á breytingaskeiðið. Já, mér finnst það í alvöru æskilegt, ekki bara réttlætanlegt í undantekningartilvikum. Halda áfram að lesa