Stál

Hefur gengið á með éljum. Skrattinn hamast á dyrabjöllunni og Amma hans sendir sms. Skrattinn svarar ekki símanum og Amma hans svarar ekki dyrabjöllunni. Lítið um sprungnar skeljar í þeirri fjölskyldu.

Um miðnætti tróð ég Skrattanum í sauðarlegginn og stáltappa í opið. En ég átti bara einn legg svo Amman lék lausum hala í alla nótt og hélt fyrir mér vöku. Um það leyti sem hún fékkst til að leggja sig var Skrattinn vaknaður. Ég gerði tilraun til að bjóða honum morgunmat ef hann lofaði að vera stilltur en hann trompaðist bara og hótaði að aka stórri ýtu á stáltappann ef ég opnaði ekki fyrir honum.

Svei mér þá ef lítur ekki út fyrir stórhríð.

 

Stundin á milli

Él standa aldrei lengi. En þau koma stundum nokkur í röð. Önnur hrina í kvöld og svo er það búið.

Í augnablikinu er allt eins og það á að vera. Ég er að gúlla í mig súkkulaði. Það er með vanillukremi.

Stundum er sumt alveg eins og það á að vera.

 

Ljónakaramella

Maðurinn sem getur alveg sofið við hliðina á mér segir að varir mínar bragðist eins og karamellan í Lion-Bar. Vanilla eða hunang hefði kannski verið rómantískara en þar sem hann fílar Lion-Bar í ræmur er ég sátt við þann dóm.

Ég er búin að vera að sleikja á mér varirnar í allan morgun og ég finn nú bara venjulegt varabragð.

Lífið hefur allajafna verið næs við mig en þessa dagana líður mér jafnvel betur en venjulega.

 

Þú líííkaaa, nananananana!

Æ, hvað það hlýtur að vera sæt hefnd fyrir málfarshroðbjóðana hjá Fréttablaðinu að geta potað smávegis í Davíð Þór. Hljómar svona dálítið eins og þegar krakki sem hefur verið margskammaður fyrir að klína kexkremi í sófann, stendur mömmu sína að því að fara með kex inn í stofu.

Sorrý Stína, það er einfaldlega hægt að gera meiri kröfur til ritaðs máls í dagblaði en beinnar sjónvarpsútsendingar, ég tala nú ekki um þegar þátturinn einkennist af hraða og spennu. Kannski hefði Fréttablaðið efni á að ráða prófarkalesara ef blaðið væri selt þeim sem kæra sig um það í stað þess að því sé troðið í póstkassa hjá fólki sem er margbúið að frábiðja sér heimsóknir blaðbera og annarra rusladreifenda.

Ég legg til að Fréttablaðið verði lagt í eyði, ásamt Moggablogginu og Kópavogi. Og Framsóknarflokknum.

Lítill munur á kúk og skít

Með fullri virðingu fyrir Ögmundi flokksbróður mínum; hvað á það að fyrirstilla að velta sér upp úr þessu núna? Það eru engar fréttir að Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson tóku ákvörðum um það, án samráðs við kóng, prest eða almenning, að gera okkur aðila að árás á þjóð sem ekkert hafði gert á hluta okkar. Það eru heldur engar fréttir að stór hluti þjóðarinnar var samþykkur, þ.e. nógu stór til að viðhalda stjórn þessara labbakúta.

Æ, Ögmundur! Það voru ekkert bara þessir tveir drulluhalar sem samþykktu aðild okkar að stríði. Það voru líka vinir okkar og ættingjar. Í raun er fólk eins og ég og þú samábyrgt þegar upp er staðið, því ef okkur væri ekki andskotans sama, hefðum við auðvitað slitið öllum samskiptum við þá fjölskyldumeðlimi, vini og kunningja sem við vitum að settu x við D eða B í síðustu alþingiskosningum. M.a.s. ég sjálf, sem á ekki í minnstu vandræðum með að afskrifa þá sem ofbjóða mér, hélt sambandi við fólk sem með atkvæði sínu lýsti sig hernaðarsinna svo líklega ristir hneykslun mín ekki sérlega djúpt.