Án þess að vita

Fólk heldur oftast að það sé mikilvægara en það er. Samt er því stöku sinnum öfugt farið. Oft í hverri viku hitti ég mann sem heldur áreiðanlega að hann sé mun stærra númer í lífi fjölskyldu sinnar, vina og nágranna en raun ber vitni. Samt hefur hann ekki hugmynd um að ég, sem veit ekkert um hann, ekki einu sinni fullt nafn hans, er sennilega uppteknari af því hvað hann er að hugsa en allt þetta fólk samanlagt.

Neeej, ég er ekki ástfangin af honum. Ég á það til að fá fólk á heilann af öðrum ástæðum. Ég hef samt velt því fyrir mér undanfarið hvort ég skipti kannski töluverðu máli í lífi einhvers sem ég þekki ekki, án þess að hafa minnsta grun um það.

Verðmat

Fasteignasala auglýsir frítt verðmat án skuldbindingar um að íbúðin sé sett á sölu. Ég minnist þess nú ekki að hafa verið rukkuð um verðmat þegar ég hef sett mínar íbúðir í sölu en vel má vera að einhver fasteignasala sé til sem rukkar fyrir það. Held samt frekar að búi eitthvað undir þegar það sem venjulega er innifalið í pakkanum er auglýst sem „frítt“. Halda áfram að lesa