Mmmhmmm

Pegasus er búinn með vefbókina mína. Grey strákurinn. Hann hefur líklega haldið að það myndi svara einhverjum spurningum en glöggskyggnir hafa sagt mér að hún veki fleiri spurningar en hún svarar.

Nú er hann byrjaður á ljóðunum. Maður sem segist vera gersneyddur bókmenntaáhuga. Ég er farin að halda að þetta sé eitthvað persónulegt.

Ég sé að Lóa Aldísar er búin að gefa út skáldsögu. Stundum finnst mér eins og allir séu búnir að gefa eitthvað út nema ég. Jú ég gaf út eina ljóðabók en það er ekki að marka. Fólk les ekki ljóð. Nema náttúrulega Pegasus.

Andskot

-Það er eitthvert rugl í bankanum.

Jamm. Auðvitað getur bankastarfsfólk gert mistök. Ég hef lent í því sjálf. Það tók eina mínútu að laga það. Leigjandinn hans pabba míns borgaði ekki leiguna núna um mánaðamótin. Varð ægilega hissa þegar ég hafði samband því hún er með greiðsluþjónustu og innistæðan á reikningnum hennar var svo lág að upphæðin hlaut að hafa farið út. Hún fór inn á netbankann og sá villuna strax. Upphæðin sem hún leggur í reglubundinn sparnað hafði verið tekin tvisvar sinnum og ekki nóg eftir fyrir leigunni. Eitt símtal og mistökin eru leiðrétt. Halda áfram að lesa

Gúrk

Ég yrði leiðinlegur sjúklingur. Ég hef verið lasin síðan á fimmtudag og er með a.m.k. jafn mikla geðbólgu og hálsbólgu. Þetta er svona klassískt lasleikaástand, ekki nógu veik til að leyfa mér að leggjast í bælið en líður illa og er allt of slöpp til að ná viðunandi afköstum. Að sjálfsögðu er ég með ljótuna líka. Þrútin í kringum augun og rauð í kringum munn og nef. Sýg upp í nefið og hósta á milli þess sem ég staupa mig á dönskum brjóstdropum. Halda áfram að lesa

Ráðgjöf gegn heimskupörum

Ég vissi ekki að til væri fagleg ráðgjöf gegn heimskupörum. Annars langar mig að vita af hverju er tekið fram að hann megi ekki meðhöndla sprengiefni. Hefur hann gert það? Má fólk almennt leika sér að sprengiefnum? Er einhver sérstök ástæða til að álíta að hann hafi áhuga á sprengiefnum?

Harmaklám

Ég verð að játa að ég skil ekki alveg þessar fréttir .

Ekkert hefur komið fram um að þessu fólki hafi verið synjað um áfengismeðferð eða það beitt órétti á nokkurn hátt. Er það fréttnæmt að til sé fólk sem vill frekar liggja úti en að þiggja aðstoð til að hætta að drekka? Eða eru skilaboðin þau að þörf sé á hjónaathvarfi fyrir ógæfufólk? Ég er ekki gersneydd eymingjasamúð en mér finnst nú samt að við ættum fyrst að sjá til þess að hjón á elliheimilum fái að deila herbergi. Það er ekki til nein meðferð sem hefur langvarandi áhrif gegn öldrun.

En þetta er náttúrulega ekki frétt. Ekki umfjöllun um félagsleg vandamál heldur. Það er bara kominn tími á einhverja tragedíu til að runkast á. Það er kannski bara góðs viti að fjölmiðlar skuli ekki hafa fundið neitt safaríkara en þetta.

Að vera stelpa

Ég var stelpa. Fram í fingurgóma. Lék mér með brúður og vildi helst alltaf vera í kjól og með slaufur í hárinu. Þegar ég fékk að velja lit á herbergið mitt valdi ég bleikt. Skærbleikt. Og ég fékk gyllt pífurúmteppi, lítið snyrtiborð úr smíðajárni, með allskyns krúsidúllum og gylltum spegli fyrir ofan. Ég átti spænska senjótítudúkku í krínólíni og safnaði krúttlegum styttum. Mig dreymdi um að eiga lítinn terríerhund á silkipúða. Mig dreymdi ekki um að leika við hann eða fara með hann út að ganga. Sá hann bara fyrir mér sofandi á silkipúðanum eða sitjandi með litlu, bleiku tunguna lafandi. Hann var fyrst og fremst sætur. Halda áfram að lesa