Að vera stelpa

Ég var stelpa. Fram í fingurgóma. Lék mér með brúður og vildi helst alltaf vera í kjól og með slaufur í hárinu. Þegar ég fékk að velja lit á herbergið mitt valdi ég bleikt. Skærbleikt. Og ég fékk gyllt pífurúmteppi, lítið snyrtiborð úr smíðajárni, með allskyns krúsidúllum og gylltum spegli fyrir ofan. Ég átti spænska senjótítudúkku í krínólíni og safnaði krúttlegum styttum. Mig dreymdi um að eiga lítinn terríerhund á silkipúða. Mig dreymdi ekki um að leika við hann eða fara með hann út að ganga. Sá hann bara fyrir mér sofandi á silkipúðanum eða sitjandi með litlu, bleiku tunguna lafandi. Hann var fyrst og fremst sætur.Ég er ennþá stelpa. Ég er fallegust í kjól. Heimilið mitt er fullt af postulínsbrúðum. Mér finnst gaman að fá smágjafir í fallegum umbúðum og lít á belgískt súkkulaði og ilmandi húðkrem sem nauðsynjavöru. Það kitlar hégómagirnd mína þegar karlmaður slær mér gullhamra og borgar kaffið mitt. Mér finnst gaman að elda og vil helst ekki að neinn annar komi nálægt þvottinum.

Hefur öll þessi bleikja hindrað mig í því að gera það sem mér sýnist? Nei! Ég hef jafn lítið dálæti á saumavélum og borvélum, þessvegna hef ég ekki notað saumavél meira en borvél. Ég hef unnið hefðbundin karlastörf sem ekki útheimta mikinn líkamsstyrk þegar það hefur hentað mér. Ég hef t.d. verið öryggisvörður, fangavörður og unnið í vélsmiðju. (Ekkert af þessu var jafn erfitt og að skúra). Ég hef haft aukavinnu við smíði rafeindabúnaðar síðustu þrjú árin en það hefur hvorki gert mig sjálfstæðari, sterkari né karlmannlegri.