Hvörf

Keli og Lindita áttu 15 ára brúðkaupsafmæli í gær. Það er hellingur. Mér finnst það nánast flippuð hugmynd að Hulda Elíra hafi náð 12 ára aldri án þess að ganga í gegnum skilnað. Ég þekki bara svo fá slík dæmi um börn minnar kynslóðar. Halda áfram að lesa

Mér er svo illt í pólitíkinni

Ég er BÚIN að greiða þessi fáránlegu stimpilgjöld fjórum sinnum. Samt mun ég þurfa að greiða þau einu sinni enn ef mér dettur í hug að skipta um íbúð (ekki svo að skilja að það standi til.) Ég er búin að fá nóg af svokölluðu lýðræði. Það gengur ekki upp. Menntað einveldi ekki heldur. Getum við ekki fengið einhvern fávita sem einvald og sleppt öllum ráðgjöfum? Það er allavega leið sem er ekki orðin gatslitin ennþá.

Samkvæmisleikir

Rikki tók áskoruninni um að opna eldspýtnasokkinn, taka upp eldspýtu og kveikja á henni, slökkva á henni aftur og setja eldsýpuna ofan í stokkinn, án þess að nota vinstri höndina. Hann hélt eldspýtnastokknum milli tannanna og glotti. Halda áfram að lesa

Óttaregistur

Ég var hrædd við Grýlu. Trúði alls ekki foreldrum mínum sem staðhæfðu að hún væri ekki til. Um 6 ára aldur hætti ég að hafa áhyggjur af Grýlu en þá varð ég hrædd við höggorma. Um það leyti sem ég komst yfir mestu höggormafóbíuna varð ég hrædd við barnaverndarnefnd og verðbólguna og um það leyti sem verðbólgan hjaðnaði varð ég hrædd við alkóhólisma og er það reyndar enn.

Um tvítugt varð ég sjúklega hrædd við rottur. Þegar það lagaðist, 5 árum síðar, upplifði ég fjögurra ára fóbíulaust tímabil í fyrsta sinn á ævinni. Að lokum tókst mér þó að koma mér upp ástarsorgarkvíða á svo alvarlegu stigi að ég lagðist hvað eftir annað í ástarsorg á meðan vinurinn var ennþá að smokra sér í grænu hosurnar. Ég er komin yfir það, held ég, en nú er ég að hamanst við að koma mér upp brjálæðislegri hræðslu við kreppuna.

Ég hef aldrei orðið fyrir neinum óþægindum af völdum Grýlu, barnaverndarnefndar, höggorms eða rottu. Alkóhólista er einfalt að losa sig við. Ástarsorg er sjálfvalin eymd sem ég ræð alveg við í dag þótt ég hafi farið illa út úr henni á sínum tíma. Verðbólgan hefur ekki komið mér á vonarvöl og ég hef ástæðu til að trúa því að ég muni lifa kreppuna af líka. Samt hef ég legið andvaka af hræðslu við þessi fyrirbæri. Ég hef hinsvegar aldrei verið hrædd við lögguna, ekki einu sinni þegar ég var handtekin. Þótt það sé miklu rökréttara en allt hitt til samans.

Af þessu má ráða að ótti er frekar heimskuleg tilfinning. Allavega ekki rökrétt.