Getur verið að sé leynivinaleikur í gangi hjá löggunni á Akureyri? Undanfarið hafa komið mjög margar flettingar þaðan á þessa gömlu færslu. Langflestar flettingar frá tmd eru á færslur þar sem ég tjái mig um heilaþvottinn og hundsháttinn sem lögregluþjónar þurfa að undirgangast til að geta sinnt starfinu eins og til er ætlast svo þetta stingur dálítið í stúf. Halda áfram að lesa
Lobbi rekinn
Guðmundur Ólafsson er víst ekki lengur velkominn á sorphaug íslenskrar fjölmiðlunar.
Þótt Guðmundur sé algerlega á öndverðum meiði við mig í stóriðjumálum, hef ég metið hann að verðleikum sem einhvern hugrakkasta og sannsöglasta fjölmiðlamann Íslands. En það er svosem ekki við því að búast að fólk sem þorir að viðra óþægilegar staðreyndir falli í kramið. Ég óska Guðmundi til hamingju með að hafa fengið það staðfest að hann eigi ekki heima á þessum vettvangi íslenskra heimskingja.
Álfar
Af hverju er sú mýta að Íslendingar trúi á álfa svona lífseig? Hið rétta er að hátt hlutfall Íslendingar aðhyllist óskilgreindan spíritistma. Þeir skýra undarlegar tilviljanir gjarnan með aðkomu framliðinna en þar sem þeir eru hreint ekki vissir í sinni sök, finnst þeim hroki að fullyrða að það geti ekki allt eins verið álfar eða aðrar náttúruvættir sem eiga í hlut. Það merkir þó ekki að þeir trúi á álfa. Ég efast um að meira en 1% fullorðinna Íslendinga trúi á huldufólk.
Hallelujah
Hallelujah, dýrð sé Gvuði, eftir Leonard Cohen er sennilega eitthvert vinsælasta lag síðustu ára. Gott lag, grípandi, sönghæft án þess að vera of einfalt. Ég held reyndar að textinn eigi töluverðan þátt í þessum miklu vinsældum en þar er tekist á við dýpstu kennd mannsins, ástina, sem færir manni ekki endilega hamingju en er þó svo ólýsanlega dýrðleg. Mér skilst að Cohen hafi ort á sjöunda tug erinda. Ég þekki aðeins sjö þeirra en í þeim renna ástin, listin og trúin saman í eitt allsherjar hallelujah, lofgjörð sem er þó svo brothætt og jarðbundin að hvergi örlar á væmni.
Smá um galdur
Mér leiðist. Fæ þau skilaboð frá Fésverjum að ég eigi bara að galdra eitthvað jákvætt.
Galdur getur ekki gert neikvætt ástand jákvætt. Hinsvegar er hægt að horfa á neikvæða stöðu með jákvæðu hugarfari, þ.e.a.s. að finna út hvernig maður getur nýtt erfiðleikana þannig að niðurstaðan verði jákvæð eða glímt við þá á jákvæðan hátt. Þar geta galdrar vissulega hjálpað en fyrsta skrefið er nú bara að brúka það sem maður hefur á milli eyrnanna. Halda áfram að lesa
Dauðarefsingar
Ég heyri oft það viðhorf að þegar enginn vafi leiki á um sekt einhvers hræðilegs ofbeldismanns og morðingja, þá sé dauðarefsing rökrétt. Enginn er tekinn af lífi í Bandaríkjunum sé talið að minnsti vafi leiki á sekt hans. Því miður þá gerist það samt æði oft að þrátt fyrir að dómskerfið telji sekt manns hafna langt yfir skynsamlegan vafa, er saklaust fólk líflátið. Bara möguleikinn á að það gerist dugar til þess að sannfæra mig um að dauðarefsingar megi aldrei eiga sér stað.
Skyn
Vaknaði um miðja nótt og fann fyrir þér, líkamlega. Fann þig halda um úlnliði mína. Fann rólegan andardrátt þinn þétt við bakið á mér. Halda áfram að lesa