Önnin er að hefjast fyrst núna. Held samt að hún sé álíka löng og hjá HÍ því það er engin kennslulaus vika – ekki gert ráð fyrir neinni verkefnaviku eða upplestrarfríi. Ég skil ekki alveg hvernig ég á að fara að því að taka próf daginn eftir að kennslu lýkur, hef sennilega gert það síðast í 8. bekk. Fékk svæsið geðbólgukast þegar ég sá stundatöfluna.
Einar áhyggjulausi sýnir enga meðvirkni með mér í þessari geðbólgu. „Dettur þér ekkert í hug að þessir kennarar séu bara búnir að átta sig á því að próf sem útheimta undirbúning fram yfir þann sem hefur átt sér stað alla önnina eru gagnslaus?“ segir hann. Hann hefur reyndar haldið því fram hingað til að öll próf tekin í einangrun og tímaþröng séu gagnslaus til annars en þess að auðvelda kennurum að koma sér hjá því að taka upp árangursríkari kennsluaðferðir. Lögfræðikennslan hér er greinilega ekki á þeim standard, það eru helvítis próf og ég er lengur að skrifa ensku en íslensku svo ég tel mig hafa fulla ástæðu til að sökkva mér í frammistöðukvíða fyrirfram.
Formleg kennsla hefst ekki fyrr en í næstu viku en við erum búin að fá upplýsingar um hluta námsefnisins svo ég eyddi morgninum í lestur. Í þessari viku erum við annars bara að hitta kennarana og kynnast helstu gagnasöfnum, þjónustu deildarinnar og innri vefsvæðum skólans. Hann er nú meiri frumskógurinn þessi vefur þeirra. Það má þó HÍ eiga að Uglan er notendavæn.
Skólasetning hjá Lagadeildinni í gær. Tók lestina í miðbæinn. Á móti mér í lestinni sat hávaxin stúlka með liðað hár. Venjulega veiti ég fólki í lestinni ekki sérstaka athygli en hún var með mjög dömulega lillabláa tösku sem stakk eitthvað svo í stúf við útlit hennar sem að öðru leyti var svo kæruleysislegt. Flestir samnemendur mínir eru sennilega á aldur við hana, hún gæti þessvegna verið ein þeirra, hugsaði ég. Ef ég væri ennþá að skrifa sápuóperu tilveru minnar myndi ég láta hana dúkka upp við setninguna og þar sem við mætum á sama tíma og tökum sömu lest myndum við tala saman í lestinni á leið í skólann og ég myndi bæta henni í safn hinna kynlegu kvista.
Móttaka með hvítvíni og smákökum, kynning á kennurum og námskeiðum. Það eru að a.m.k. 5 sérsvið í boði fyrir utan mannréttindalögfræðina, kannski fleiri. Margir útlendingar meðal stúdenta eða í það minnsta fólk sem er allavega á litinn. Þeir sem eru á mínum aldri reynast flestir vera kennarar. Annars er fólk eiginlega furðu líkt. Þarna er gaukur sem lítur út eins og Gísli Freyr Valdórsson og annar sem gæti verið litli bróðir Hilmis Snæs. Ég er ekki sérlega mannblendin við aðstæður sem þessar en ég mun verja talsverðum tíma með þessu fólki í vetur svo ég gef mig að manni sem hlýtur að vera á fertugsaldri. Hann er frá Írak og reynist vera á sama sviði og ég, í alþjóðlegri mannréttindalögfræði. Hann er ennþá stirðari í ensku en ég. Það er hughreystandi. Kannski eru nógu margir útlendingar til þess að þau neyðist til að reikna með rýmri próftíma, hugsa ég. Kannski er það fullmikil bjartsýni en maður má vona, svona á fyrsta degi.
Fer aftur að veitingaborðinu til að skila glasinu mínu og þarna stendur hún; stúlkan úr lestinni. Ætli hún sé með mér í hóp? Það er útilokað að sjá neinn mun á nemendum eða kennurum eftir sviðum. Fjármunaréttarfólkið er ekkert skjalatöskulegra en mannréttindaliðið. Hún gæti hafa valið hvað sem er.
-Ef hún er með mér í hóp er það tákn, hugsa ég, sem trúi ekki á yfirnáttúru en sé samt merkingartengsl allsstaðar.
-Tákn um hvern fjandann? Nýja sápu kannski? hnussar Birtan í mér.
–Ég veit ekki alveg. Bara gott tákn. Tákn um að þetta verði allt í lagi eða eitthvað.
Eftir kynningarprógrammið fer hver hver hópur í sína stofu ásamt kennurum. Sú sem hefur umsjón með mannréttindanámskeiðinu er svo grönn að hún lítur út fyrir að vera í tvívídd, með hárið greitt í lítinn hnút í hnakkanum og gleraugu sem eru stærri en andlitið á henni. Eiginlega eins og leikin teiknimyndapersóna. Stelpan er ekki með mér í hóp. Ekki svo að skilja að það hafi neina merkingu að hún sé ekki hérna, það hefði bara haft merkingu ef hún hefði valið það sama og ég.
Teiknimyndafígúran sannfærir okkur um að þetta sé allt hrikalega frábært og skemmtilegt en að við séum ekkert að fara að hafa það náðugt í vetur. Bjóst svosem ekki við því. Hún talar í ca 5 mínútur áður en dyrnar opnast.
„Afsakið, ég fór í ranga stofu“ segir hún. Hávaxin, með sítt liðað hár og þessa lillabláu tösku.
Hún tekur sömu lest og ég til baka.