Hraunborgir og sandar

Mér til undrunar var ég var ekki svo líkamlega þreytt eftir gönguna á Fjall Satans. Hinsvegar leið mér eins og ég hefði verið í prófi. Ég bjóst við að finna fyrir verkjum eða a.m.k. þreytu í fótunum daginn eftir en ég slapp alveg við það. Var dálítið stíf í öxlunum, sem er kannski skrýtið því ég reyndi ekkert á efri hluta líkamans en ég kenni streitu um. Einar skildi ekkert í þessu stressi því hann hefur aldrei verið neinn glanni. Hann veit greinilega ekki það sem hverjum manni ætti að vera augljóst að fjöll geta hvenær sem er hrunið.

Einar reyndi ekki að fá mig út í neitt varasamt seinni daginn. Fórum bara í bílferð og gengum örstutta og þægilega leið upp í fjall þar sem eru fallegar hraunborgir og ótrúleg litbrigði í landslaginu.

Hvítt, gyllt og svart – myndirnar gefa bara grófa hugmynd

Einar gekk upp að þessu borgvirki í fjallinu.
Ég lét nægja að horfa á það frá þessum hól.

Hér hlýtur tröll að hafa dagað uppi

 

Greinilegar rauðar og gular rendur í berginu.
Maður ætti helst ekki að fara í svona ferð nema taka jarðfræðing með sér.

Ókum síðan spöl og skoðuðum sanda. Hér hefur einhverntíma verið fljót og eftir því sem nær dregur ánni er sandurinn rakari. Á stöku stað reyndar svo rakur að ég er hálfrög við að stíga niður.
„Þetta er nú algerlega öruggt. Það versta sem getur gerst er að maður blotni í fæturna“ segir Einar.
„Já eða sogist niður í iður jarðar“ segi ég.
„Það er ekkert kviksyndi á Íslandi“ segir Einar.
„Hvernig veistu það?“
„Ég hef t.d. aldrei heyrt um að neinn hafi lent í kviksyndi eða orðið þess var.“ Jeminn eini. Þessi annars klári maður virðist gjörsamlega missa rökhyggjuna þegar íslensk náttúra er annars vegar.
„Semsagt, af því að þú hefur ekki frétt af því, þá hefur það ekki gerst! Einar minn gerirðu þér grein fyrir því hversu margir hafa hreinlega horfið á Íslandi og engin vitni. Ég gæti best trúað því að Geirfinnur sé hérna undir þessum sandbreiðum.
Það er skemmst frá því að segja að þessi kenning hlaut engar undirtektir.

Torfi tók þessa mynd. Ég held að þetta sé besta mynd sem er til af okkur Einari saman.

Þrátt fyrir sandbleytuna komst ég þurrum fótum að ánni
og ekkert okkar sökk í kviksyndið.

 

Einar er haldinn þeirri áráttu að þurfa alltaf að stökkva eða klifra yfir hvað sem fyrir honum verður utan dyra. Hér fannst honum alveg nauðsynlegt að stikla yfir og príla upp á grjótbakkann hinumegin.

Og hér kemur hann stökkvandi til baka.

Við gerðum enga tilraun til að leita að Geirfinni,
sem eflaust liggur hér einhversstaðar undir sandinum.

Merkilegt hvað sandur getur verið fallegur.

Ferðafélagar mínir urðu ekki par kátir þegar þeir sáu þessi hjólför í sandinum.

Kannski voru það sömu jeppafantar sem skildu þessa flösku eftir
á annars ósnortnum stað.

Þessi sandganga var virkilega góður endir á ferð sem var jú, eftir á að hyggja góð, þótt ég hafi verulegar efasemdir um að ég muni leggja í fjallgöngu aftur.

Lærdómur dagsins: Ég þarf að eignast flíspeysu sem er ekki 3 númerum of stór.