Við erum rétt komin úr Hrísey, þar sem við vorum síðustu viku, flesta dagana í skítakulda.
Í dag er 24. júní og enginn smá heiður að útskrifast á sjálfum Þórudeginum. Hjarta mitt svellur af stolti yfir þessari tengingu. Hér með er ég semsagt formlega útskrifuð sem lögfræðingur. Kláraði dæmið utanskóla og á þremur árum — átti allt eins von á að þurfa að fresta útskrift en gott frí á Krít gerði gæfumuninn. Ég er að reyna að telja sjálfri mér trú um að þetta sé geðveikur árangur hjá mér. Mér þætti það örugglega ef einhver annar ætti í hlut.
Nú þarf ég bara að fá vinnu og ML gráðu og Hdl próf og helling af reynslu og þá get ég farið að sparka í yfirvaldið.
Ég mætti ekki við útskriftina. Þekki ekki fólkið í deildinni og langar ekki að halda upp á þetta að öðru leyti en því að Einar er búinn að setja kampavín í kæli. Tvær konur, stærðfræðingar frá Bandaríkjunum í verða í mat hjá okkur.
Það sem af er júní hef ég verið að passa Kvennablaðið fyrir Steinu og er ekkert farin að leita mér að lögfræðiverkefnum fyrir alvöru, hef bara nefnt það við þá sem ég þekki að ég sé laus. Ætti eiginlega að vera að lesa lögfræði á fullu til að undirbúa næsta vetur en hef ekki haft mig í það.
Ég fæ ekki svar um skólastyrk fyrr en í júlí, veit ekki hvort það verður þann 1. eða 31., sennilega einhversstaðar þar á milli. Finnst ponkulítið óþægilegt að vita ekki alveg hvort ég verð í námi í Glasgow eða á Íslandi næsta vetur. Í augnablikinu hlakka ég ekki einu sinni til þess að byrja.