Að syrgja með reisn

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Ég fann myndina á netinu, veit ekki hver tók hana

Birtan í mér stígur fram. Eigi skal gráta, heldur safna liði og hefna, hvæsir hún upp í rauðflekkótt andlitið á mér. Já væri það nú bara í boði. En við erum ekki að tala um neinn venjulegan morðingja heldur sýkópatafrumu. Krabba. Eina markmið hans er að drepa, jafnvel þótt hann drepi sjálfan sig í leiðinni. Maður ætti ekki að sýna þann veikleika gagnvart slíkum viðbjóði að grenja, heldur gera eitthvað í málinu. Eða allavega syrgja með reisn.

Þeir reyndu svosem að gera eitthvað í málinu. Þeir þræddu i hann slöngur, fylltu hann af fúkkalyfjum og blóðflögum og morfíni og jú-neim-itt en skrímslafrumurnar bara endurnýjuðust í sífellu. Þeir dældu sjúku blóðinu úr æðum hans hvað eftir annað og gáfu honum nýtt, hreint blóð í staðinn en ógeðspaddan eitraði það líka. Þeir boruðu í lærlegginn á honum til að taka mergsýni. Og svo aftur. “Hann er orðinn eins og blokkflauta núna” sagði Ingó og skellihló. Honum fannst hvítblæðið taka nógu mikinn toll þótt hann leyfði því ekki að svipta sig húmornum líka. En húmorinn beit ekki á meinið frekar en geislar og lyf. Í 80% tilvika ber fyrsta chemomeðferð árangur en þrjár meðferðir bitu ekki á Ingó.

Ég vissi að hann var dauðvona svo andlát hans hefði ekki átt að verða áfall en ég er samt í rusli og reið til skiptis. Það er rosalega fjórtánhundruð og eitthvað en ég þoli ekki þessa uppgjafartilfinningu. Tvær litlar telpur misstu föður sinn. Það er bara ekkert réttlátt og mér finnst ég þurfa að gera eitthvað í því. Láta Dauðann vita að við sættum okkur ekki við svona framkomu. En Dauðanum er jafn skítsama um reiðina í mér og húmorinn í Ingó. Hann veit að við getum ekkert gert.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Myndin er eftir Ingó

Uppgjöfin sem fylgir sorginni sviptir mann allri reisn og það gerir mig ennþá brjálaðri að horfa upp á sjálfa mig í svo aumingjalegu ástandi en því miður er heldur ekki sérlega kúl að vera brjálaður þegar maður finnur engan sökudólg. “Þá býrðu bara til sökudólg” segir Anna. “Í næsta almenningsgarði býr illur íkorni sem ber ábyrgð á þessu öllu saman. Þú verður að finna hann og murka úr honum lífið. Og þá hverfur allt hvítblæði úr heiminum og réttlætið sigrar og þú heldur andlitinu og allt verður fullkomið.” Eitt andartak getur maður hlegið að kjánaskapnum í sjálfum sér en húmor læknar ekki uppgjöfina, ekki frekar en krabbann.

Reiðin tilgangslaus, sorgin tilgangslaus. Hvorugt meikar sens og hlutirnir eiga að meika sens svo hvernig á manni þá að líða? Hann virðist svo nálægur á facebook, skype, gmail. Deyr fé, deyja frændur en rafræn tilvist aldrei deyr… Hann er þarna ennþá, óvirkur að vísu, en þarna er hann eins og ekkert hafi í skorist.  Mér finnst skrýtið að sjá hann í spjallglugganum, sjá síðasta  samtalið okkar og vita að þótt ég sendi honum skilaboð mun hann aldrei sjá þau.

 

Við töluðum ekkert saman síðustu þrjá dagana. Ég vissi að hann gat dáið hvenær sem var og hefði átt að hafa rænu á því að nota hvert einasta tækifæri til að tala við hann. Finnst ég eiga eitthvað ósagt þótt ég viti svosem ekki hvað það ætti eiginlega að vera. Bless? Fokk nei. Við hættum að kveðjast þegar sjúkdómurinn greindist. Ég held að það sé algengt að ímynda sér að manni liði betur ef maður fengi bara eina samverustund til viðbótar. Eitt tækifæri til að segja eitthvað. Það er sjálfsagt þessvegna sem fólk setur skilaboð á vegginn hans á facebook, einhverskonar tilraun til að eiga með honum eitt augnablik enn. Líklega trúa einhverjir því að hann geti séð kveðjurnar. Ég skil það alveg en ég trúi því ekki sjálf og þessvegna er það ekki nein lausn fyrir mig.

Mig langar að hitta hann einu sinni enn. Tala við hann einu sinni enn. Segja enn einu sinni “þú ert frábær Ingó” og heyra hann segja enn einu sinni “ég fer bara framhjá mér”. En ég veit að ein lokastund myndi ekki sætta mig við neitt. Ég vil fá margar, margar stundir með honum, vita af honum á Hringbrautinni og á Skype í mörg ár, áratugi. Rölta með honum út “til að lofa Betu að pissa” þegar hann langar í sígarettu, hlusta á hann segja sögur frá víkingahátíðum og plana með honum öll verkefnin sem við ætluðum að vinna saman en þurftum alltaf að fresta vegna eldgosa eða annarra stórviðburða. “Við drífum í þessu í haust” sagði hann. Eða “kýlum á þetta í vor”. En það verður ekkert haust eða vor héðan af og ekki ein stutt lokastund heldur. Mig langar að segja bless og gangi þér vel en hann þarfnast ekki velgengni framar og til hvers að kveðja einhvern sem er þegar farinn? Eða eiginlega ekki farinn heldur liðinn. Game over. Það meikar ekki sens að kveðja einhvern sem fær aldrei kveðjuna. Og hlutirnir þurfa að meika sens.

Sorgin býður ekki upp á neina reisn. Það er ekkert hægt að gera í málinu. Enginn sökudólgur sem hægt er að hella sér yfir. Enginn illur íkorni í Kelvingrove Park eða Hljómskálagarðinum sem hægt er að drepa. Og þegar reiðin er tilgangslaus og maður getur samt ekki sætt sig við dauðann, þá bara grenjar maður. Það er ekkert fjórtánhundruð og eitthvað og sannarlega engin reisn yfir manni í því ástandi.

En kannski er maður jafn ofurseldur sorginni og dauðanum. Hvorki húmor né rök vinna á henni. Og ekki séns í helvíti að hún muni nokkurntíma láta sér segjast.

Deila færslunni

Share to Facebook