Skólaheimsókn í Úganda

Síðasta vor var ég svo lánsöm að fá tækifæri til þess að ferðast til Úganda. Einn af mörgum eftirminnilegum atburðum var heimsókn í barnaskóla í Masindi, sem er 45.000 manna bær í nágrenni Kampala.

Í Úganda er börnum á aldrinum 7-14 ára boðið upp á skólagöngu, foreldrum að kostnaðarlausu, en foreldrum er ekki skylt að senda börn í skóla. Meira en 90% úgandískra barna njóta skólagöngu í dag en aðstæðurnar í skólunum eru langt frá því að vera sambærilegar við það sem við eigum að venjast.

Þegar okkur ber að garði er frímínútum að ljúka og börnin á leið inn í kennslustofurnar. Húsnæði skólans minnir helst á gripahús en starfsfólk skólans hefur gert sitt besta til þess að gera það hlýlegt.

Okkur er fylgt inn í kennslustofu yngstu barnanna, sem óðar spretta á fætur í virðingarskyni. Börnin sitja í hópum við borð sem eru svo lítil að þau koma naumast stílabókum fyrir og nemendafjöldinn er ótrúlegur. Hér er ekkert rafmagn, hvað þá tölvur. Ekki heldur gler í gluggum enda yrði þá sennilega ólíft af súrefnisskorti því hér er þétt setið.

Kennarinn heitir Amy, glaðleg kona um þrítugt. Við fætur hennar á gólfinu situr tæpra tveggja ára telpa, dóttir hennar. Amy segist alltaf taka hana með sér í skólann því hún hafi engan til að gæta hennar heima. Hún svarar spurningum mínum greiðlega.

Er algengt að séu svona mörg börn í bekk, hvað eru þau eiginlega mörg?

Amy: Þau eru 102. Það er algengt að um 100 börn séu í bekk. Hér eru 1.100 börn og 11 kennarar.

Þau virðast vera á misjöfnum aldri, eruð þið þá ekki með aldursskipt bekkjarkerfi?

Amy: Jú, að nokkru leyti. Grunnskólanum er skipt í 7 bekki og reiknað með einu ári á hvert stig. En sum börnin missa marga mánuði eða ár úr skóla ef er þörf fyrir þau heima eða til að afla tekna. Og þá hafa þau ekki gagn af að vera með jafnöldrum sínum þegar þau koma aftur í skólann. Í mínum bekk eru flest barnanna á aldrinum 7-8 ára en eins og þú sérð eru nokkur eldri, alveg upp í 11 ára.

Í mínu heimalandi þykir erfitt að hafa meira en 20 börn í bekk. Er ekki mikill hávaði í þeim og erfitt að hafa stjórn á svona stórum hóp?

Amy: Sjö ára börn eru of lítil til þess að hafa hljóð allan tímann svo ég leyfi þeim að tala saman í lágum hljóðum. Ég næ athygli þeirra með því að skipta þeim í hópa eftir því hvar þau eru stödd í námsefninu. Hver hópur situr við eitt borð. Þetta er ljónahópurinn og þarna er gíraffahópurinn. Og þegar ég kalla á til dæmis ljónin, þá vita börnin í ljónahópnum að þau verða að hlusta. Og ef þau standa sig vel fá þau viðurkenningu.

Amy útskýrir viðurkenningakerfið. Fyrir ofan hvert borð hangir plastflaska sem stúturinn hefur verið skorinn ofan af. Þegar hópurinn stendur sig vel setur Amy gosflöskutappa í baukinn. Eftir vikuna er það sá hópur sem hefur safnað flestum töppum sem vinnur. Frammistaða hverrar viku er svo skráð á spjald sem geymt er í bauknum.

Amy sýnir okkur með miklu stolti heimatilbúin kennslugögn, aðallega litrík veggspjöld en einnig enskukennslutæki sem hún kallar „sjónvarpið okkar“. Þetta er pappakassi sem gluggi hefur verið skorinn úr og kefli hefur verið komið fyrir inni í honum. Á keflinu er renningur með enskum sagnorðum, handskrifuðum með stóru letri og þegar keflinu er snúið birtist eitt orð í senn í glugganum. Önnur sýnileg kennslugögn eru krítartafla og ein bók sem liggur á kennaraborðinu. Ég sé engar kennslubækur á borðum barnanna og spyr Amy hvort það sé rétt sem mér hefur verið sagt að skólar í Úganda þurfi að komast af án bóka.

Amy: Já, það er yfirleitt bara kennarinn sem fær bók. Ég skrifa svo námsefnið á töfluna og nemendur skrifa í stílabækurnar sínar. Það skiptir miklu máli að þau skrifi hjá sér en því miður eiga þau ekki öll bækur og penna.

Ég fæ leyfi til að ávarpa bekkinn. Spyr fyrst hvort þeim þyki gaman í skólanum. Þetta eru stillt og prúð börn og þegar ég ber spurninguna fram býst ég við að þau sem vilja svara rétti upp hönd. En þau rétta ekki upp hönd, heldur svara öll í kór, hátt og snjallt, eins og eftir skipun „Yes, mrs Eva!“ Ég spyr Amy hvort hún telji að börnin séu almennt ánægð í skólanum og hún fullyrðir að svo sé. Ég á dálítið erfitt með að trúa því að svona hópsvör komi beint frá hjartanu og beini því næstu spurningum mínum að einstaklingum en ekki hópnum. Ég spyr tvær telpur og tvo drengi hvort sé gaman í skólanum og hvað sé skemmtilegast. Börnin virðast feimin en svara þó. Þau eru sammála um að enskan sé skemmtilegust og að Amy sé góður kennari.

Við skoðum einnig kennslustofur eldri barnanna. Bæði á miðstiginu og í elsta hópnum standa nemendur upp um leið og við komum inn og í öllum stofunum eru samskonar þrengsli og námsgögn öll í formi heimatilbúinna veggspjalda.


Í unglingadeildinni spyr ég nemendur hvort þau langi að halda áfram í námi að grunnskóla loknum. Kennarinn þeirra segir að fyrir mörg þeirra sé það erfitt því framhaldsnám sé dýrt og lítið um styrki. Þau segjast þó öll reikna með að halda áfram í námi. Ég geri mér ekki grein fyrir því hvort þau álíta að það sé svarið sem ég vilji heyra eða hvort þeim finnst óþarfi að ræða fátækt sína í stórum hópi.

Að lokum tek ég yfirkennarann tali. Hún heitir Connie og hefur unnið við skólann í 14 ár. Ég spyr hana fyrst út í kynjahlutföllin í skólanum.

Connie: Kynjahlutföllin eru nokkurn veginn jöfn. Stúlkur í rétt rúmum meirihluta hér en víðast hvar í Úganda eru þær aðeins færri.

Það kemur mér dálítið á óvart að sé ekki mikill kynjahalli í grunnskólum. Ég hef alltaf haldið að í Afríku þætti mikilvægara að mennta drengi en stúlkur.

 Connie:  Já, það er nú reyndar þannig ennþá. Það hefur mikið breyst á síðustu árum og nú þegar ríkið býður upp á ókeypis skóla eru stúlkur sendar í skóla ekki síður en drengir en það var ekki þannig á meðan foreldrarnir þurftu að borga skólagjöld. Það eru enn þá miklu færri stúlkur en piltar sem fara í framhaldsnám.

Er það vegna þess að fólk hefur ekki efni á að senda öll börnin og lætur þá strákana ganga fyrir?

Connie: Það er kannski ekki alveg svo einfalt. Sumar stúlkur fá ekki framhaldsmenntun jafnvel þótt fjölskyldan hafi efni á því. Það er ekki það að foreldrarnir vilji ekki að stúlkur fái menntun heldur vilja þeir líka gifta þær og það gengur fyrir. Það er algengt að stúlkur séu giftar 15-16 ára og þær fara ekki í nám eftir það. Þetta er aðeins að breytast en gengur hægt og ennþá þykir meira áríðandi að mennta strákana.

Amy sagði mér að stundum misstu börn langan tíma úr skóla vegna þess að foreldarnir þyrftu á vinnuframlagi þeirra að halda. Bitnar það frekar á stúlkum?

Connie:  Samkvæmt opinberum tölum eru aðeins fleiri drengir sem flosna upp úr grunnskóla. Þeir hafa meiri tekjumöguleika en stúlkur og það skiptir máli þegar fjölskyldur eru í vanda. En ég hef samt meiri áhyggjur af þeim stelpum sem fá ekki að læra því ómenntaðar konur eiga svo miklu minni starfsmöguleika en karlar.

Ég er vön skólum sem eru vel búnir af tækjum og þar sem öll börn fá bækur svo mér finnst aðdáunarvert að ykkur skuli takast að mennta börnin við þessar aðstæður. Er bókaleysið ekki mikið vandamál?


Connie: Jú, auðvitað gengi betur ef við hefðum bækur en pennaskortur er enn þá meira vandamál. Það er hægt að kenna án bóka en þá þurfa nemendur að geta skrifað niður. Mörg barnanna mæta án skriffæra, eiga ekki stílabækur, sum þeirra mæta ekki í skólabúningum og stundum mæta þau nestislaus. Hér er ekki hefð fyrir morgunmat, þau fá bara sætt te áður en þau fara í skólann, þau eru í skólanum frá 8-5 og sum þurfa að ganga 5 km leið í skólann. Þetta er langur tími og slæmt ef þau mæta matarlaus.

Hafið þið einhver ráð til að bregðast við þessu? Er t.d. hægt að sækja um styrki fyrir þau börn sem verst eru sett?

Connie: Nei, við fáum enga styrki. Við erum með pennasöfnun á bensínstöðinni. Ferðamenn skilja stundum eftir penna þar en ekki nógu marga til þess að bjarga okkur. Við verðum bara að ræða við foreldrana þegar sama barnið kemur ítrekað áhalda- eða matarlaust.


En hefur það nokkuð upp á sig að ræða málin ef ástæðan er fátækt?

Connie: Margar fjölskyldur eru mjög fátækar en vandamálið er líka það að sumir feður láta aðra hluti ganga fyrir. Þegar börn koma matarlaus er það ekki bara vegna fátæktar heldur af því að mæðurnar ráða ekki við aðstæður. Þær eru kannski kornungar með 4 eða 5 smábörn og þurfa að vinna myrkranna á milli og þá verða eldri börnin bara að sjá um sig sjálf.  Sjö ára börn eru bara of lítil til þess að taka ábyrgð á því að útbúa sér nesti sjálf. Þau gleyma því.

Þetta eru þau vandamál sem við stöndum frammi fyrir á hverjum degi en svo koma líka upp vandamál sem eru á ábyrgð stjórnvalda en ekki heimilanna. Núna er ástandið til dæmis þannig að kamrarnir eru að fyllast. Við fáum ekki fjárveitingu til þess að láta tæma þá. Það þýðir að eftir nokkra daga neyðumst við til þess að loka skólanum þar til fjárveiting fæst.

Áður en við kveðjum tekur Connie af okkur loforð um að senda sér eintak af myndunum sem við tókum. Við þurfum að láta framkalla þær og senda með pósti því hvorki skólinn sjálfur né yfirkennarinn hafa netfang.

Auðvitað eiga íslenskir skólar við vandamál að stríða. Agavandamál. Einelti. Sérþarfir. Jú, auðvitað eru þetta vandamál en það eru forréttindi að geta sinnt þeim. Okkur finnst sjálfsagt að hafa tölvu í hverri kennslustofu og eðlilegt að stefna að því að hver nemandi fái tölvu til umráða en milljónir barna hafa ekki einu sinni aðgang að bókum. Við lokum skólum til þess að knýja á um hærri kennaralaun á meðan Afríkubúar loka skólum til þess að hindra útbreiðslu lífshættulegra sjúkdóma.

Og samt eru til Íslendingar sem telja okkur ekki hafa efni á þróunaraðstoð.

Deila færslunni

Share to Facebook