Pyntingaklefar

Eitt af því sem við skoðuðum í Úganda var dýflissan þar sem Idi Amin lét þá sem hann taldi til fjandmanna sinna rotna í hel í bókstaflegri merkingu.  Forsetahöllin, Mengo-höllin eins og hún er kölluð eftir hæðinni þar sem hún stendur, er frekar nútímaleg bygging. Höllin sjálf er lokuð ferðamönnum en hægt er að skoða dýflissuna sem er þar í bakgarðinum.

Idi Amin og Milton Obote

Mengo-höllin var konungshöll fram til 1966. Úganda hafði verið undir yfirráðum Breta en fékk sjálfstæði 1962 og var Mutesa II konungur kjörinn forseti. Milton Obote varð forsætisráðherra og Idi Amin var yfir hernum. Saman stóðu Amin og Obote í skipulagðri glæpastarfsemi, m.a. gull- og fílabeinssmygli og þegar þingið krafðist rannsóknar réðst herinn, undir stjórn Idi Amins, á konungshöllina og myrti hátt í þúsund saklausra borgara á Mengo. Mutesa konungur var hrakinn í útlegð og Obote afnam stöðu forseta og sölsaði undir sig öll völd með aðstoð vinar síns Idi Amin.

Þremur árum eftir valdaránið hrakti Idi Amin þennan fyrrum samherja sinn frá völdum og lofaði að koma á lýðræði. Þess í stað sæmdi hann sjálfan sig forsetatign og vegtyllum ýmsum og hófst þegar handa við að ofsækja stuðningsmenn Obotes sem og ýmsa minnihlutahópa.

Amin sat á valdastóli frá 1971-1979 og gat sér nafn sem einn grimmasti harðstjóri sögunnar. Ekki eru til áreiðanlegar heimildir um fjölda fórnarlamba hans en talið er að hann hafi látið drepa á bilinu 100.000-500.000 manns án réttarhalda. Vinsældir hans dvínuðu hratt og þrátt fyrir hernaðarlegan stuðning Gaddafis hraktist hann að lokum í útlegð og Obote komst aftur til valda. Andstæðingar Obotes ásökuðu hann um kosningasvindl og eitthvað á bilinu 100.000-500.000 til viðbótar féll í hernaðarátökum. Hvort sem Obote komst til valda með svikum eður ei, er ljóst að hann naut lítilla vinsælda. Lýðræði og mannréttindi áttu ekki upp á pallborðið hjá honum frekar en Amin og hann notaði dýflissuna í sama tilgangi og hinn illræmdi forveri hans allt þar til hann var rekinn frá völdum á nýjan leik árið 1985.

Hér sést inngangurinn að klefunum. Í aðeins 100 metra fjarlægð eru venjuleg heimili, börn og búfénaður á vappi í grasinu og ekkert sem minnir á hryllingssögu staðarins.

 

Dýflissan

Mengo-dýflissan er neðanjarðarbyrgi. Ísraelsmenn byggðu hana í þeirri trú að hún yrði notuð sem vopnabúr en Idi Amin taldi heppilegra að nota bygginguna sem fangelsi.

Pyntingar eru eina orðið sem hægt er að nota um vistina í þessum klefum. Það er kaldhæðnislegt að maður sem komst til valda m.a. vegna loforða um að leysa alla pólitíska fanga úr haldi, skuli hafa varpað fólki í dýflissu af svipuðu tagi og tíðkuðust á miðöldum, fyrir þær sakir að vera af asískum uppruna, aðhyllast trúarbrögð eða stjórnmálaskoðanir sem honum féllu ekki eða jafnvel bara fyrir að hafa háskólamenntun eða starfsreynslu úr stjórnkerfinu.

 

Þessi hani var á vappi fyrir utan heimili í nágrenni dýflissunnar

 

 

Og þessi litli drengur

 

Hér er vegasjoppa, bara rétt við innganginn. Takið eftir barninu bak við runnann hægra megin. Þetta er ósköp hversdagslegt umhverfi og ef ég hefði ekki vitað hvert ferðinni var heitið hefði mér sennilega dottið í hug grænmetisgeymsla eða eitthvað slíkt.

 

Ég og Langsokkur negrakóngur við innganginn að pyntingaklefunum

Á dögum Idi Amin var vatni veitt eftir manngerðum skurðinum sem sést á efstu myndinni. Á þessari mynd erum við komin alveg að inngangnum og hér sjást fimm klefar á upphækkuðum palli.  Hæðin frá gólfi upp í klefana er um það bil einn metri. Vatnið rann inn í dýflissuna og fangar voru ferjaðir þangað á bátum. Enn í dag er væta á gólfinu.

Fyrir inngangnum var járngrind sem hefur verið fjarlægð. Í hana var leitt rafmagn og enn má sjá brot í veggnum þar sem rafmagnskapallinn lá (hægra megin á myndinni hér að ofan.) Járnhliðið leiddi rafmagnið í vatnið og engum tókst að flýja úr þessari prísund.

 

Rafmagnið var tekið af hliðinu þegar hermenn komu með fleiri fanga og eða til að fjarlægja lík. Sennilega hefur rafmagnið ekki verið á hliðinu öllum stundum þess á milli og ef til vill hefðu fleiri reynt að flýja ef fangarnir hefðu haft hugmynd um það hvar í veröldinni þeir voru niðurkomnir. Það vissu þeir ekki því áður en farið var með þá í dýflissuna var bundið fyrir augu þeirra og þeir reknir fram og til baka um hallarlóðina í marga klukkutíma svo þeir héldu að þeir hefðu ferðast langa leið og vissu ekkert hvað var hinumegin við hliðið.

 

Hver klefi er á að giska 30-35 fermetrar og leiðsögumaðurinn segir að í hverjum þeirra hafi verið vistaðir allt að 500 manns í senn. Ég veit ekki á hvaða heimildum sú tala er  byggð en þar sem útilokað er að 500 manns hafi getað sest þarna niður er ólíklegt að svo margir hafi verið þar nema nokkrar mínútur í senn. Þarna var engin lýsing, engin loftræsing og engin hreinlætisaðstaða. Í rigningum flæddi vatn inn í klefana. Þegar þrengslin urðu óbærileg brutust út slagsmál og gömlu fólki og veikburða var kastað út í rafmagnað vatnið. Fólk svalt til bana. Saur hlóðst upp inni í klefunum og margir hreinlega köfnuðu. Sumir höfðu verið pyntaðir á hroðalegan hátt áður en þeir lentu í dýflissunni.  Dæmi voru um að fólk væri augnstungið eða stungið á hol og innyfli dregin út úr líkamanum á meðan það var enn á lífi og sagt er að margir hafi sjálfir kosið að binda endi á þjáningar sínar með því að kasta sér í rafmagnað vatnið.

Líkum var svo ýmist hent fyrir krókódílana í Viktoríuvatni eða þau skilin eftir á víðavangi.
Í klefunum er ekkert að sjá sem bendir til þess að manneskjur hafi nokkurntíma hafst þar við nema veggjakrot. Lófaför og skilaboð sem fangarnir skrifuðu á veggi dýflissunnar með sínum eigin saur og blóði. Ég mæĺi með því að þeir sem heimsækja pyntingaklefana taki með sér vasaljós. Ekki hefur verið sett lýsing í dýflissuna svo maður sér aðeins þær áletranir sem næst eru dyrunum.

 

Það er of dimmt í klefunum til þess að ég gæti náð myndum þar en þessi áletrun er fyrir utan á vegg milli klefanna. Líklega hefur eiginkona einhvers fanganna skrifað þetta eftir að Obote hraktist í útlegð. „I never for my husband was killed people of Obote“.  Væntanlega hefur hún ætlað að skrifa „I never forgive“ eða „I never forget“.

 

Nei það er harla ólíklegt að þeir Úgandar sem upplifðu valdatíð þessara óbótamanna gleymi illvirkjum þeirra. Hvort það skiptir nokkru máli er svo önnur saga. Bæði Idi Amin og Obote létust í útlegð en hvorugur þeirra þurfti nokkurntíma að svara fyrir gjörðir sínar.

Deila færslunni

Share to Facebook