Það er mjög þægilegt að eiga maka sem stendur ekki í því að rökræða við trúaða. Sú kona sem býr við þann lúxus kemst upp með nánast hvaða sérvisku sem er bara með því að gefa henni trúarlegt yfirbragð.
Dæmi 1
Eynar: Af hverju notarðu litlu pokana í ruslið?
Eva: Af því að ég er svo umhverfisvæn.
Eynar: Ég ekki viss um að sé umhverfisvænna að nota liltu pokana. Það er hægt að setja þá í endurvinnslu og stóru pokarnir taka meira svo yfirborðsflatarmál þess sem fer í óendurvinnanlega sorpið er sennilega minna ef við notum þá. Annars getum við bara mælt þetta.
Reyndar finnst okkur báðum óskaplega gaman að mæla hina ýmsu hluti og dundum okkur gjarnan við tommustokk og eldhússvog á síðkvöldum, en þar sem Eynar hefur töluvert betra auga fyrir stærðum, sá ég fram á að með skrifleg gögn í höndunum gæti hann sannfært mig. Ég notaði því gamla góða húsráðið, að vitna í sannleikann sem býr í hjarta mínu.
Eva: Já en ástin mín, vissirðu ekki að þeir sem setja litlu pokana í endurvinnslutunnuna fara til Helvítis? Þú vilt ekki að ég fari til Helvítis er það nokkuð?
Dæmi 2
Eynar: Hvar er stóri potturinn?
Eva: Í pottaskápnum.
Eynar: Ég sé hann ekki.
Eva: Hann er í hinum pottaskápnum.
Eynar: Hinum pottaskápnum? Áttu við hornskápnum?
Eva: Ja sérðu pott í skápnum?
Eynar: Jújú hann er hér.
Eva: Og er þetta þá ekki pottaskápur?
Eynar: Þú átt við að eldhússkáparnir skipti um hlutverk eftir því hvaða áhald þú ert með í höndunum?
Eva: Já hjartað mitt.
Eynar: Og með hvaða rökum breyttist þessi skápur allt í einu í pottaskáp?
Eva: Engum rökum elskan. En það þarf að árujafna eldhúsið reglulega. Dreifa hvíta ljósinu á milli skápa þú veist. Og það er bara svona sem það er gert.
Eynar: Þú átt við að pottaskápur sé hver sá skápur sem þú setur pottana í?
Eva: Jamm, þetta er svona galdraeldhús, hér spretta upp pottaskápar eftir þörfum.
Eynar dæsir í góðlátlegum „ég ætla ekki einu sinni að reyna að skilja þetta“ tón.
Dæmi 3 G-mail
Eva: Viltu kaupa mayonese á heimleiðinni?
Eynar: Af hverju ekki mæjones?
Eva: Vegna þess að ég er y-trúar og vil útbreiða fagnaðarerindið sem víðast.
Þetta skítverkar í hvert einasta sinn. Hann hristir bara höfuðið og leyfir mér að ráða.