Straumur flóttamanna til Evrópu á síðustu árum hefur ekki farið fram hjá neinum. Fjöldi manns setur sig í lífshættu árlega til að komast yfir landamæri og margir týna lífi á leiðinni. Það sem af er árinu 2020 hefur yfirvöldum verið tilkynnt um minnst 760 manns sem hafa látist á flóttanum eða er saknað. En hörmungunum lýkur ekki þótt fólk komist á áfangastað. Oft eru hælisleitendur í biðstöðu árum saman, margir heimilslausir og margir á hrakningum milli landa.

Þetta vita allir sem eitthvað hafa fylgst með en færri eru meðvitaðir um að fólk sem er á flótta í eigin landi er oft í enn verri aðstöðu.

Vegalaus í eigin landi

Á síðasta ári voru 50.8 milljónir manns skráðir vegalausir í eigin landi. Það er 10 milljónum meira en árinu áður. Í flestum tilvikum er þetta er fólk sem hrekst að heiman vegna vopnaðra átaka eða náttúruhamfara en einnig er nokkuð um að minnihlutahópar flýi ofsóknir af hálfu samfélagsins sem yfirvöld skortir getu og/eða vilja til að stemma stigu við.

Samkvæmt umfjöllun The Guardian í dag höfðu forsvarsmenn hjálparstofnana vonast til þess að árið 2020 yrði ár vitundarvakningar um stöðu vegalausra en óttast nú að kórónufaraldurinn dragi athyglina frá vandanum. Ennfremur er líklegt að faraldurinn komi sérlega illa niður á flóttafólki sem oft býr við mikil þrengsli í yfirfullum flóttamannabúðum og neyðarskýlum eða ófomlegum byggðum sem hafa lítinn eða engan aðgang að heilbrigðisþjónustu.

Úrræðaleysi á heimsvísu

Flóttamannasamningur Sameinuðu þjóðanna tekur aðeins til þeirra sem hafa flúið heimaland sitt og eru á flótta undan eigin yfirvöldum. En það komast ekki allir svo langt og það er ekki skárra að vera ofsóttur af öðrum. Þrátt fyrir það er ekki til neinn alþjóðlegur samningur um réttindi vegalausra í eigin landi. Alþjóðastofnanir hafa gefið út leiðbeinandi tilmæli til stjórnvalda en það er enginn bindandi samningur til.

Þar fyrir utan eru fjölmörg dæmi um að fólk sé bæði ofsótt í eigin landi og utan þess. Þjóðarmorðið á Kúrdum í Írak á valdatíma Saddams Hussein er ágætt dæmi um það flækjustig sem upp getur komið. Þar voru framin fjöldamorð á fólki af tilteknum þjóðflokki Kúrda, Feyli fólkinu, og margir „hurfu“. Auk þess voru 350 þúsund manns sviptir ríkisfangi sínu, skilgreindir sem Íranir og sendir nauðugir til Íran, þrátt fyrir að eiga þar engar rætur og engin réttindi og þrátt fyrir að Kúrdar í Íran byggju þegar við aðskilnaðarstefnu.

Hvert átti þetta fólk svo að leita þegar það mætti líka ofsóknum í Íran? Kúrdar eru „landlaus þjóð“, fólk sem hefur ekki viðurkenningu alþjóðasamfélagsins á rétti sínum til þess að byggja það land sem það fæddist á. Var þetta fólk á flótta í eigin landi eða utan þess? Var það ofsótt af sínum eigin yfirvöldum eða öðrum?

Dæmið sýnir hversu gagnslaust það er að láta staðsetningu fólks ráða úrslitum um tilkall þess til verndar.

Þörf fyrir gagngera endurskoðun

Alþjóðastofnanir hafa að sjálfsögðu gert heilmikið til þess að aðstoða þá sem eru vegalausir í eigin landi. En aðstæður til þess eru oft erfiðar. Stjórnvöld viðurkenna ekki alltaf getuleysi sitt til að ráða fram úr vandanum. Dæmi eru um að stjórnvöld hafi hindrað fólk í því að fara úr landi. Þó er stærra vandamál að ríkin geta, í krafti fullveldisréttar, synjað hjálparsamtökum og alþjóðastofnunum um aðgang að svæðinu. Nú þegar landamæri eru víða lokuð eiga hjálparstofnanir ennþá erfiðara en áður með að koma nauðsynjum til vegalausra og skrá umfang vandans.

Vandamál vegalausra er margþætt en sú kúgun sem viðgengst í skjóli fullveldisréttar er eitt þeirra. Flóttamannasamningur Sameinuðu þjóðanna er úreltur. Hann var gerður til þess að vernda fórnarlömb helfararinnar og annað fólk sem var ofsótt af yfirvöldum í eigin landi. Hann dugar ekki til að vernda þá sem flýja fátækt og hann tekur aðeins til þeirra sem hafa flúið yfir landamæri. Vegalaust fólk nýtur að sjálfsögðu réttinda samkvæmt almennum mannréttindalögum en það dugar ekki til þess að tækla þá sérstöku aðstöðu sem það býr við. Það er löngu tímabært að taka flóttamannakerfið allt til gagngerrar endurskoðunar.

Höfuðmynd eftir Julien Harneis sýnir þorpsbúa á leið í búðir fyrir vegalausa. Fólkið flúði stríðsátök í Norður Kivu í Kongó árið 2008.