Fyrr í þessari viku var flóttakona hýdd í Íran. Hún heitir Leila Bayat og okkur kemur þetta mál við, ekki bara vegna þess að öll mannréttindabrot koma okkur við, heldur vegna þess að það vekur spurningar um stefnu Íslendinga í málefnum hælisleitenda.

Norðmenn afrekuðu það semsagt í mars á þessu ári að vísa írönskum hælisleitanda frá Noregi, glæpakonu sem átti yfir höfði sér hýðingu. Glæpur hennar var áfengisneysla. Norska útlendingastofnunin neitaði einfaldlega að taka það trúanlegt að dómnum yrði framfylgt og sendu hana aftur til Íran. Ég las fréttir um þessa brottvísun fyrr á árinu en var búin að gleyma þessu máli en það rifjaðist upp fyrir mér í morgun þegar ég sá frétt um að dómnum hefði verið framfylgt.

Dómurinn hljóðaði upp á 80 svipuhögg. Norska Útlendingastofnunin taldi ótrúlegt að því yrði framfylgt, hversvegna veit ég ekki; það eru engar fréttir að líkamlegar refsingar eru praktiseraðar í Íran, og braut gegn þeirri grundvallarreglu að láta þann njóta vafans sem á það á hættu að brotið verði gegn mannréttindum hans.

Íslenska Útlendingastofnunin er í þeirri lúxusaðstöðu að þurfa aldrei að taka ábyrgð á örlögum þeirra hælileitenda sem sendir eru úr landi á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar því þeir koma allir til Íslands í gegnum „örugg ríki“. Ríki eins og Noreg, sem sjá ekki um manndráp, pyntingar og ólöglega frelsisviptingu sjálf, heldur senda fólk í klærnar á stjórnvöldum sem hika ekki við að beita pólitískum ofsóknum og grimmilegum refsingum.

Sem dæmi um mann sem Útlendingastofnun ætlaði að vísa úr landi er Mouhamed Lo, sem flúði úr ánauð í Máritaníu. Útlendingastofnun fékk skriflega staðfestingu á því frá Noregi að hann yrði sendur aftur til Máritaníu, þar sem búið væri að setja lög sem banna þrælahald. Að vísu er margstaðfest af  mannréttindahreyfingum sem njóta viðurkenningar hjá stofnunum Sameinuðu þjóðanna að þrælahald tíðkast í Máritaníu en það virtist ekki hafa neina þýðingu í málinu. Mouhamed var í felum á Íslandi (sem merkir í reynd stofufangelsi) í 18 mánuði; það var eina leiðin til þess að bjarga honum.

Annað dæmi eru Torpikey Farrash og Maryam Rasí, afghönsku mægðurnar sem voru töluvert í fréttum fyrir rúmu ári síðan. Öryrki og barnung dóttir hennar sem hefur verið á flótta frá því að hún man eftir sér. Fyrir þrýsting frá fjölmiðlum og almennum borgurum var þeim bjargað.

Þessum þremur flóttamönnum var bjargað vegna þess að þeir eignuðust vini og stuðningsmenn á Íslandi. Við vitum hinsvegar ekkert um það hversu margir hafa verið sendir burt, til Ítalíu, Grikklands eða Noregs, og sendir þaðan til þess að þola frelsissviptingu, ánauð, örbirgð, ofsóknir, pyntingar og kannski dauða.

Flott fyrir Íslendinga að láta Norðmenn vinna skítverkin. Það svellur í manni þjóðarstoltið við að hugsa til þess að ef Leila Bayat hefði komist til Íslands, hefði Útlendingastofnun ekki þurft að senda hana til Íran, hún hefði bara verið send til Noregs og þaðan til Teheran, þar sem hún þurfti að þola 80 svipuhögg. Íslendingar stikkfrí og allir glaðir. Æðislegt að hafa hingað til haft ríkisstjórnir sem hafa framfylgt þessari hagstæðu túlkun á Dyflinnarreglugerðinni.

Ljósmyndir:
Samsetta myndin af Leilu Bayat er héðan
Ingólfur Júlíusson tók myndina af Mouhamed
Fatima Khurasani tók myndina af  Torpikey Farrash og Maryam Rasí


Þessu tengt: