Fyrir skömmu sá ég umræður á Facebook um jarðarfarir og pælingar um það hvort skipti nokkru máli hvaða kirkju fólk veldi ef það leitaði ekki til annarra trú- eða lífsskoðunarfélaga.

Já, það getur alveg skipt máli en kannski snýst það nú frekar um prestinn en kirkjuna. Ég get mælt með kirkju óháða safnaðarins fyrir þá sem hafa verulega ósmekklegan húmor og finnst viðeigandi að viðra góðlátlega menningarfordóma í jarðarförum.

Útför móður minnar fór fram frá kirkju óháða safnaðarins síðast liðið haust. Af ástæðum sem ég mun ekki fara út í hér var ég ekki viðstödd þá athöfn. Það var kannski ágætt því ef frásögn systkina minna og annarra sem þar voru er rétt (og ég hef enga ástæðu til að ætla annað) þá er ekki víst að ég hefði sýnt prestinum þá kurteisi sem þykir viðeigandi við slík tækifæri.

Ég hef ekki fengið botn í samhengið, enda segja þeir sem á hlýddu að séra Pétur Þorsteinsson hafi ekki sett það í neitt samhengi við hina látnu, en hann tók semsé upp á því í miðri líkræðu að tala um moskubyggingar Múslíma. Mun guðsmaðurinn hafa tekið fram að það væri bara sjálfsagt að allir fengju að reisa sín guðshús og að múslímar hefðu lagt ýmislegt til menningarinnar, svosem matsölustaði.

Í beinu framhaldi sagði presturinn frá skemmtilegu samtali sem hann hefði átt við kunningja sína frá Miðausturlöndum sem hefðu þá verið með ráðagerð um að opna veitingastað á Íslandi. Kvaðst séra Pétur hafa lagt til að þeir sérhæfðu sig í eldun hundakets og byðu upp á rétti á borð við Snata-snitsel, Seppa-súpu, Kát í karrý og Vask í wasabi.

Í Kína eta menn hundaket en það tíðkast ekki í Miðausturlöndum
Þessi réttur gæti verið Vaskur í Wasabi

Séra Pétur hafði reyndar áður stungið upp á því að í stað þess að hafa jarðarför, skyldum við hafa jarðarfjör. Aðstandendur hefðu því mátt reikna með einhverjum sniðugheitum en þetta féll semsagt ekki í þann frjóa jarðveg sem klerkurinn hafði reiknað með.

Að athöfn lokinni þáðu gestir kaffi og meðlæti í safnaðarsalnum. Gekk þá guðsmaðurinn milli borða með eyðublöð og bauð syrgjendum að skrá sig í óháða söfnuðinn.