Þegar ég segist vilja afnema skólaskyldu rekur fólk upp stór augu. Eða þá að það rúllar augunum. Hugmyndin þykir fráleit. Menn sjá fyrir sér hroðalegt óreiðusamfélag þar sem stór hluti þýðisins er ólæs og gerir helst ekkert annað en að spila tölvuleiki og reykja hass.

Fáir virðast horfa á skyldunám frá sjónarhóli barna og unglinga sem hafa óbeit á skóla. Til dæmis 13 ára krakka sem hefur meira en helming ævi sinnar verið þvingaður til að eyða drjúgum hluta ársins í félagsskap sem hann hefur ekki valið sjálfur, við viðfangsefni sem hann hefur ekki valið sjálfur, hatar í sumum tilvikum út af lífinu og er of ungur til að sjá fyrir endann á ömurlegum aðstæðum sínum. Vonandi er svo neikvæð afstaða barna til grunnskólans ekki algeng en við vitum mæta vel að hún er til. Við vitum líka að til eru börn sem hafa sáralítið gagn af náminu en þrátt fyrir fögur fyrirheit um „námsefni við hæfi“ eru allir sendir í sams konar próf. Hvað heitir það nú aftur þegar fullorðin manneskja er þvinguð til að vinna í 10 ár á vinnustað sem hún vill alls ekki vinna á, við verkefni sem henta ekki áhugasviði hennar og hæfileikum?

Fyrir þau börn sem þrífast ekki í skóla hlýtur skólaskylda að vera líkust ánauð. Við þurfum að afnema þessa ómanneskjulegu kvöð á fólki sem hefur engar forsendur til að spyrna á móti nema helst með því að vera öðrum til ama. Við ættum hins vegar um leið að byggja upp skólakerfi sem væri nógu aðlaðandi til þess að langflest börn myndu kjósa að ganga í skóla. Skólakerfi sem miðar ekki að því að steypa alla í sama mót heldur að virkja áhuga hvers og eins. Skólakerfi sem horfist í augu við að af öllu því sem var troðið í okkur í barnaskóla er aðeins tvennt sem situr eftir: Það sem við höfðum ánægju af að læra og það sem við hefðum lært hvort sem er.

Flest af því sem við lærum í grunnskóla er ónauðsynlegt. Hvaða þekkingu þarf maður til að komast af? Einhverja jú. Við þurfum að vera fær um að tjá okkur á tungumáli sem flestir í sama samfélagi skilja, þekkja helstu hættur í umhverfinu og kunna að nota peninga, tölvu og helstu heimilistæki. Þetta lærum við flest án þess að vera skikkuð til þess með valdi. Við þurfum líka að ná tökum á lestri, skilja reikningsaðgerðirnar fjórar og geta gert okkur skiljanleg á ensku en það þarf ekki 10 ára nauðungarvinnu til að ná því marki. Sennilega væri vel hægt að kenna þeim áhugalausu þessar greinar í gegnum eitthvað sem þeim hugnast betur en það eru bara ekkert sérlega hentugar aðstæður til þess í því skólakerfi sem við búum við í dag.

Ég hef ekki minnstu áhyggjur af því að ef við afnemum skólaskyldu verði ólæsi algengara en í dag. Á meðan lestrarkunnátta er nauðsynleg til að fólk sé samfélagshæft munu flest börn vilja lesa, rétt eins og þau vilja læra að tala, klæða sig og nota snjallsíma. Og í þeim örfáu tilvikum sem þau vilja það ekki, væri tíma þeirra hvort sem er betur varið til annars.