Einkavinavæðing — taka tvö

Þegar Elín Jónsdóttir sagði upp sem forstjóri Bankasýslunnar sagði hún:

Framundan eru stór og aðkallandi verkefni.  Ber þar hæst að leggja þarf drög að sölu á eignarhlut ríkissjóðs í fjármálafyrirtækjum að hluta eða öllu leyti.

Stjórn Bankasýslunnar er nú búin að ráða mann í hennar stað, Pál Magnússon.  Því hefur verið haldið fram að Páll hafi litla reynslu í bankamálum, og reyndar minnsta reynslu af umsækjendum um starfið.  Stjórnarformaður Bankasýslunnar, Þorsteinn Þorsteinsson, telur það þó ekki til vansa, enda hafi Páll mikla reynslu úr stjórnkerfinu.  Sú reynsla felst ekki síst í því að hafa verið aðstoðarmaður Valgerðar Sverrisdóttur þegar hún, ásamt Geir Haarde, einkavinavæddi Landsbankann og Búnaðarbankann, en þann síðarnefnda fengu flokksbræður þeirra Valgerðar og Páls á þægilegum kjörum.

Nú á Páll sem sagt að fá annað tækifæri til  að selja „eignarhlut ríkissjóðs  í fjármálafyrirtækjum“.

Ef Ísland væri ekki bananalýðveldi væri Páll búinn að afþakka stöðuna, og Þorsteinn að segja af sér, fyrir hádegisfréttir á morgun.  Það væri samt engin trygging fyrir því að spillingin haldi ekki áfram heljartökum sínum á valdi og peningum á Íslandi.

Deildu færslunni