Hrædd stjórnvöld eru hættuleg

Ákveðið hefur verið að flýta setningu Alþingis á laugardaginn, svo hún hefjist klukkan tíu en ekki hálftvö eins og venja hefur verið. Fáir trúa því væntanlega sem skrifstofustjóri Alþingis segir um þetta, nefnilega að þingmönnum sé svo í mun að geta byrjað helgina snemma.

Greinilegt er að hræðsla hefur gripið um sig meðal stjórnvalda. Þetta er hræðsla við réttláta reiði almennings, sem hefur horft upp á húsnæðislán sín stökkbreytast, samtímis því sem bankarnir halda áfram að raka saman ofsagróða með því að þrautpína þetta fólk, og auðjöfrar fá skuldir sínar afskrifaðar.

Búsáhaldabyltingin var nánast algerlega friðsamleg, og þau litlu átök sem þar áttu sér stað urðu ekki síst vegna vanstillingar óeirðalögreglu, til dæmis þegar hún ruddi Austurvöll með algerlega tilefnislausri táragasárás.

Sagan hefur margsinnis sýnt að hrædd stjórnvöld eru hættuleg almenningi. Það er við slíkar aðstæður sem mótmæli leiða helst til valdbeitingar lögreglu. Stjórnvöld á Íslandi eru hrædd, og þau grípa til örþrifaráða, í stað þess að mæta eðlilegum kröfum almennings. Það kann ekki góðri lukku að stýra.