Sigríður Ingibjörg, Guðfríður Lilja …

Hér fer á eftir  póstur sem ég sendi Alþingismönnunum Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur og Guðfríði Lilju Grétarsdóttur í gær.  Fái ég svör frá þeim mun ég birta þau hér.

———————————————————————————————

Sælar, Sigríður Ingibjörg og Guðfríður Lilja

Fjöldi fólks hefur misst eða er að missa heimili sín.  Ennþá stærri fjöldi kiknar undan húsnæðislánum sem hækkuðu um tugi prósenta í kjölfar hrunsins, og sér ekki fram á að losna nokkurn tíma úr því skuldafangelsi.  Bankarnir, sem fengu þessi lán með miklum afslætti, raka saman ofsagróða með því að blóðmjólka fólk sem hefur séð skuld sína stökkbreytast, þökk sé framferði þeirra sem græddu á tá og fingri fyrir hrun, og sem margir eru að drukkna í peningum og hroka enn í dag.

Ég skrifa ykkur tveim, því þið tilheyrið þeim örfáu alþingismönnum (í stjórnarliðinu) sem margir virðast enn bera virðingu fyrir og trúa að þið séuð í stjórnmálum á einlægum og heiðarlegum forsendum.  Sjálfsagt gætuð þið fengið fleira gott fólk með ykkur á þingi ef þið takið málin í ykkar hendur.

Varla ætlið þið að horfa aðgerðalausar á að bankarnir þrautpíni fólk sem ekkert hefur til saka unnið, til þess eins að bankastjórarnir geti haldið áfram að baða sig í peningunum sem þeir særa út?  Varla viljið þið að það verði eftirmæli þessarar vinstri(?)stjórnar sem kennir sig við norræna velferð, að hún hafi skilið þá sem minnst mega sín eftir í skuldfeni þeirra sem hirtu gróðann af sukkinu fyrir hrun, og samfélagið eftir í sárum sem ef til vill gróa aldrei?

Því spyr ég:  Hvað ætlið þið að gera?

Bestu kveðjur,

Einar

PS.  Þetta er opið bréf sem ég mun birta á blogginu mínu.  Mér þætti vænt um að fá svör frá ykkur, hversu stutt eða löng sem þau eru, og vil gjarnan birta þau líka.