Kapítalisminn á sér margar skuggahliðar. Ég er þó ekki alveg búinn að gefast upp á sumum hugmyndum hans, eins og þeirri að einkaframtak eigi ekki að hefta að óþörfu. (Ég er heldur ekki búinn að gefast upp á skástu hugmyndunum sem gjarnan eru kenndar við sósíalismann, um að tryggja velferð allra borgara.) Það er því ekki af andúð á kapítalismanum í sjálfum sér sem ég set spurningarmerki við framferði Landsbankans, sem er í eigu ríkisins.
Nýlega kom fram í svari fjármálaráðherra við fyrirspurn að Landsbankinn hefði yfirtekið lán gamla bankans með afföllum upp á tugi prósenta. Samtímis kemur í ljós að hagnaður bankans á fyrri helmingi þessa árs er yfir 20 milljarðar. Bankinn hagnaðist líka um 27 milljarða í fyrra. Ljóst er að bankinn rakar saman gróða, ekki síst með því að pína til þrautar þá sem skulda íbúðalán og eru ekki búnir að gefast upp á að borga af þeim. Lán þessa fólks hafa líka hækkað um tugi prósenta frá hruni, eingöngu vegna verðtryggingarinnar.
Bankastjórinn kvartar samtímis yfir því að vera með svona mikla peninga í höndunum en geta ekki lánað þá út í nógu miklum mæli. Hann vill nota blóðpeningana til að græða ennþá meira, ekki til að lækka lánin sem hækkuð voru upp úr öllu valdi vegna hrunsins. Þetta er ekki heiðarlegur kapítalismi, heldur rán.
Landsbankinn er í eigu ríkisins. Ríkisvaldið ákvað að láta verðtrygginguna standa, þótt ljóst væri hvers konar hörmungar það hefði í för með sér fyrir fjölda fólks í landinu, sérstaklega þá sem enga ábyrgð báru á hruninu og ekki mökuðu krókinn á árunum fyrir hrun. Núverandi ríkisstjórn kennir sig við norræna velferð, og er kölluð vinstri stjórn. Ég leyfi mér að efast um að flokkssystkini þessa fólks á hinum Norðurlöndunum vildu kannast við þá afstöðu sem birtist í framferði bankanna, meira að segja þess sem er í eigu ríkisins.
Ég er ekki meðlimur í Hagsmunasamtökum Heimilanna, og ég hef ekki kynnt mér starf þeirra og stefnu, umfram það sem birtist í áskoruninni um afnám verðtryggingar og leiðréttingu stökkbreyttra lána. Mér finnst aukaatriði hvað þessi samtök aðhafast að öðru leyti, því hugmyndirnar í þessari áskorun styð ég heilshugar. Þess vegna hvet ég alla sem telja verðtrygginguna vonda fyrir samfélag okkar, og að það eigi að færa niður lánin sem hækkuðu svo gífurlega í kjölfar hrunsins, til að skrifa undir áskorunina.
Fjöldi undirskrifta er að nálgast 30 þúsund. Það er fjöldi sem erfitt er fyrir stjórnmálamenn að leiða alveg hjá sér. Auk þess eru að koma brestir í afstöðu bankanna, sem einhverjir eru farnir að bjóða óverðtryggð lán. Vegna þessarar stöðu er hugsanlegt að við getum haft áhrif sem ríða baggamuninn. Þess vegna hvet ég alla sem styðja efni þessarar áskorunar að undirrita hana hér.