Einn moggabloggari hefur tjáð sig um dóm yfir manni sem Kínverjar dæmdu til fimm ára fangavistar fyrir að krefjast mannréttinda. Enginn hefur ´kommentað´ á færsluna þegar þetta er ritað. Færslur vegna fréttar af pólsku glæpagengi eru hinsvegar á þriðja tug og mikill fjöldi athugasemda við hverja færslu. Enda snertir hugsanleiki þess að einhver lemji mann og annan á Íslandi okkur miklu meira en mannréttindabrot og þjóðarmorð í fjarlægum heimshlutum.
Bjóst annars einhver við því að engin félagsleg vandamál fylgdu því að flytja inn fátæklinga frá Austur-Evrópu og Kína í þúsundatali á örfáum árum, fólki sem hafði engan áhuga á að festa hér rætur, af því að Íslendingar ætluðu að verða svo rosalega ríkir á virkjunum og stóriðju þótt við hefðum engan mannskap til að sinna skítverkunum í kringum herlegheitin? Hélt einhver að heppilegasta leiðin til að fá útlendinga til að samlagast íslenskum samfélagsháttum væri sú að smala þeim saman í tuga- og hundraðatali í vinnubúðir uppi á hálendinu, án þess að gera þeim grein fyrir þeim lögum og óskráðum siðareglum sem gilda í landinu eða gefa þeim alvöru kost á læra málið? Reiknaði fólk í alvöru með því að við kæmumst upp með endalausa útrás en fengjum enga innrás á móti?
Okkars sitjum uppi með útlendingavandamál, kynþáttahatur og glæpaklíkur. Alveg eins og við var að búast. Gott á okkur.
———————–
Svo rétt…
Posted by: hildigunnur | 24.03.2008 | 15:59:22
— — —
Já, það ætti auðvitað að vera lýðnum ljóst að þetta, líkt og flest allt annað sem aflaga fer, má rekja beint til Impregilo.
Posted by: Hörður | 24.03.2008 | 16:06:25
— — —
Þetta ástand eins og flest annað sem aflaga fer má rekja beint til óhófsemi af einhverju tagi í bland við skort á skynsemi og fyrirhyggju.
Ég get tekið undir það sjónarmið að Impregilo sé hið mesta skítafyrirtæki en Impregilo hefði aldrei komið hingað nema af því að Íslendingar létu skyndigróðahyggjuna hlaupa með sig í gönur.
Posted by: Eva | 24.03.2008 | 16:17:46
— — —
Núnú, heil þrjátíu blogg um pólverjabarsmíðar sýnir þó það að vitleysingjahælið hafi fundið eitthvað alvarlegra til að blogga um en bingó á föstudaginn langa.
Og miðað við tölurnar sem þú gefur upp urðu tuttugufalt meiri læti yfir bingóinu en fangelsisdóm yfir baráttumanni fyrir mannréttindum.
Posted by: Kalli | 24.03.2008 | 17:01:05
— — —
Mikið rétt Eva, eins og alltaf 🙂
Merkilegt að Íslendingar reyndu ekki að læra af mistökum Skandinavíu og leggja áherslu á menntun og aðlögun.
Posted by: Þorkell | 24.03.2008 | 17:23:52
— — —
Mér hefur nú hingað til ekki funndist þurfa pólverja eða aðra útlendinga til að lemja mann og annan á Íslandinu. Íslendingar hafa hingað til staðið sig vel í þeim efnum sjálfir.
En mikið er ég sammála þér með þetta allt.
Posted by: Hulla | 25.03.2008 | 6:08:13
— — —
Frjálst flæði fjármagns og vinnuafls er afleiðing EES samningsins en ekki afleiðing virkjannastefnu eða Impregilo. Langflestir þessara nýju ríkisborgara er heiðarlegt og gott fólk og þeir á meðal þeirra sem eru glæpamenn eru það án tillits til þjóðernis síns. Við búum bara í breyttum heimi og það er ekkert annað en að laga sig af því.
Posted by: Guðjón Viðar | 25.03.2008 | 11:53:56
— — —
Vinnuafl flæðir vitaskuld þangað sem eftirspurn er eftir því. Eða hefur þú heyrt eitthvað um félagsleg vandamál vegna fjöldaflutninga Íslendinga til Póllands?
Glæpahneigð kemur þjóðerni ekkert við en gengjamyndun helst í hendur við langvarandi fátækt og það sem Íslendingar hafa einmitt klikkað á er að laga sig að þeirri staðreynd að við erum að breytast í fjölmenningarsamfélag. Við viljum mergsjúga ódýrt vinnuafl en ekki taka á okkur ábyrgðina sem fylgir stórsteymi af fátæklingum sem vissulega eru hvattir til þess að koma hingað, oft með gylliboðum sem standast svo ekki þegar til kemur.
Posted by: Eva | 25.03.2008 | 12:57:15
— — —
Hvers vegna ætli allir rjúki upp til handa og fóta ef glæponarnir sem vilja koma hér inn eru danskir og norskir, sbr Hells Angels „skemmtiferðina“ en ef jafnvel margdæmdir Pólverjar og Lettar vilja koma, þá bara værsågod spis? Skal ekki eitt yfir alla ganga?
Pólverjar sem ég þekki til, frábært og heiðarlegt fólk, eru skíthrædd, vita vel af glæpagengjunum, þora ekki að segja nokkurn hlut opinberlega, en orðið gengur þarna úti, fólk sem fær ekki að koma til hinna Norðurlandanna hefur verið velkomið hér og er strax komið með atvinnuleyfi hjá einhverjum verktakanum.
Ég ætla ekki BB að vera að gera þetta viljandi til að fá meiri stuðning fyrir einkaherinn. Ég bara vil ekki trúa því…
Posted by: hildigunnur | 25.03.2008 | 22:53:52