-Get ég aðstoðað, spurði afgreiðslumaðurinn, þar sem ég stóð við skrúfurekkann í Byko og reyndi (greinilega með góðum árangri) að líta út eins og bjargarlaus kona.
-Mig vantar svona skrúfur með hvössum enda, eins og t.d. þessar, en það þarf líka að vera ró eða eitthvað svoleiðis til að halda á móti, sagði ég.
-Þig vantar bolta, úskurðaði afgreiðslumaðurinn af karlmannlegu öryggi (kannski var hann nýbúinn að læra muninn á skrúfu og bolta) steðjaði að næsta rekka og sótti ósköp venjulegan bolta með sléttum enda.
-Hvaða hluta af ‘hvössum enda’ skildir þú ekki gæskur, urraði Birtan í mér, en þar sem ég er kurteis kona og hvers manns hugljúfi, lét ég hana ekki komast að, heldur sagði með votti af kvenlegu bjargarleysi; Já, einmitt svona, nema með hvössum enda.
-Viltu þá ekki bara tréskrúfu? spurði hann og rétti mér aftur sömu skrúfu og ég hafði haldið á áður.
-Ég þarf að festa hana. Ég ætla að festa botngrind í rúm með þunnri málmbrík og það hefur ekkert upp á sig að skrúfa í gegnum spýtuna ef skrúfan dinglar svo bara laus. Eru ekki til rær til að festa tréskúfur?
-Nei, það er aldrei gert þannig, sagði afgreiðslumaðurinn og horfði á mig eins og ég væri erkitypan af fávita.
-Auðvitað er það ekki gert þannig ef engin verkfæri eru til sem gera það mögulegt grasasninn þinn, sagði Birta en ég brosti bara, þó öllu stífar er áður.
-Þú átt semsagt engar hvassar skrúfur með róm eða eða öðrum festingum?
-Nei þær eru allavega ekki til hér. Kannski geturðu fengið þær í einhverri sérverslun,sagði hann.
Ég leit í kringum mig. Hafði einmitt haldið að ég væri stödd í sérverslun. Spurði hann ekki frekar út í hvað hann ætti við með sérverslun en fór heim og notaði handaflið til að þræla bolta í gegnum gat sem er gert fyrir oddhvassa tréskrúfu. Fannst það hlyti að vera minna vesen en að verða mér úti um borvél. Auðvitað reyndust götin á hinni hliðinni vera þannig staðsett að þau passa ekki við götin á málmbríkinni, sem þýðir að ég þarf eftir sem áður að verða mér úti um borvél og standa í einhverju helvítis veseni. Ekki veit ég hvaða gvuð ákvað að ekkert sem snerti hversdagslegustu smáviðvik þar sem skrúfur koma við sögu, mætti undir nokkrum kringumstæðum vera einfalt og auðvelt en víst er að sá gvuð er voldugri en góðu hófi gegnir.
Ég veit auðvitað að ég er spes. Ég geri mér alveg grein fyrir því að ég fæ mjög flippaðar hugmyndir. Ég vissi samt ekki að ég væri fyrsta manneskjan í veraldarsögunni sem léti sér detta í hug að setja tréskrúfu í þar til gert gat og festa hana, eins og hún væri málmbolti. Hér er sumsé hugmynd sem uppfinningamönnum heimsins er velkomið að nýta sér. Trix til að festa lausar trúskrúfur. Ef þeir sjá ekki fyrir sér að uppfinningin muni seljast grimmt, er þeim velkomið að heimsækja mig og gera þarfagreiningu á rúminu mínu.
—————————————-
Ég hef heyrt af því að Brynja á Laugarveginum, sem er sérverslun með járnvörur, bjóði upp á ódýrari skrúfur og betri en þær sem fást hjá Byko.
Það var m.a.s. skrifaður bakþanki um þetta í FBl. undir heitinu „Brynja ég elska þig“.
Posted by: Halli | 25.03.2008 | 13:30:24
— — —
Bestu fréttirnar í þessari færslu eru auðvitað þær, að rúmið þitt sé við það að liðast í sundur. Eða, ég gef mér það.
Posted by: Miss G | 25.03.2008 | 17:52:07
— — —
Ég hjó eftir sama atriði og ungfrú G.
Viltu geta náð rúminu í sundur aftur? Ef ekki geturðu þá ekki klínt einhverri límdrullu með skrúfunni til að fá þetta til að haldast fast?
Posted by: Unnur María | 25.03.2008 | 20:15:43
— — —
Ég held að það sé komið að því að þú fáir þér bara almenilegt rúm … ég mæli með stálbotni fyrir þig. Svo er líka síðast þegar að ég atugaði afsláttur á suðugræum í bíkó. en svo er líka alveg hægt að byrja bara á gólfinu áður en jarðgangaborvélin kemur þér þangað.. annars er þetta kunnulegt vandamál. rúm eru ekki eins góð og þau voru …
Posted by: Dreingurinn | 1.05.2008 | 3:43:53