Vindgálginn

Krossfestir menn eru ekki endilega frelsarar.
Og reyndar illmenni flestir,
verðskulda vafalaust bæði þjáninguna og dauðann
enda fæstir þeirra boðist til að deyja fyrir syndir mannanna.
Og ef enginn hefur áhuga á að krossfesta þig
er alltaf í boði að hengja sig í sjálfur,
helst í vindgálga.
Þú horfir í auga jötunsins undir trénu.

Blóðið rennur til höfuðs
þrýstir á augun.
Hrafn sest á höku hangandans
og kroppar vinstra augað ástúðlega úr andliti hans.
Með hægra auganu horfir hann niður í brunninn.
Kristalshljómurinn bergmálar í næturkyrrðinni
um leið og hann horfir á auga sitt hverfa
í hringgárað hyldýpið.

Að hanga á hvolfi niður úr eskitré
er ekki góð skemmtun.
Gustar undan vængjum hrægamma sem voka yfir trénu
og rokið rífur í hár þitt og klæði.
En náirðu að þrauka í níu nætur
mun einhver telja þig hetju
og fólk mun stara í viskubrunn
í von um að sjá þar auga þínu bregða fyrir.

Spurningin er hvað skal finna sér til dundurs á meðan:
ekki æfir maður skylmingar í þessari stöðu
né þjálfar sig í því að halda boltum á lofti.

Nema upp rúnar;
það er víst fátt annað í boði,
og læra tungumál fugla í framhjáhlaupi
en sumir þeirra eiga víst hreiður í þessu tré.

Í þessari stöðu verður fíflinu ljóst
að smámyntin sem hrynur úr vösum þess
niður í brunninn,
er í raun stjörnur,
og í hyldýpi himinsins
fólgnir mun stærri fjársjóðir.

Bikar, sproti, skjöldur og sverð;
allt bíður það betri tíma
en fyrir hverja nótt hrýtur hringur af hring
og auga á brunnbotni horfir aðeins til himnis.