Viltu valta yfir nágranna þinn?

Viltu valta yfir nágranna þinn? Hér er pottþétt uppskrift.

Haltu húsfund um eitthvað sem skiptir máli á meðan hann er í útlöndum og pottþétt að fundarboðið mun fara fram hjá honum. Taktu ákvörðun í óþökk hans. Þegar hann kemur heim, ekki þá láta hann vita af því að fundur hafi verið haldinn. Hvað þá hvaða ákvörðun hafi verið tekin. Ráddu verktaka án þess að láta hann vita. Þegar hann áttar sig er orðið of seint að gera eitthvað í málinu.

Úti í garði hjá mér er maður að fella tréð mitt. Stóra, gamla tréð mitt sem ég hafði aldrei samþykkt að yrði fellt. Mér skilst að ég hafi engan lagalegan rétt.

Lög þjóna ekki réttlætinu.

One thought on “Viltu valta yfir nágranna þinn?

  1. ———————————————-
    Lögin já. Til fundar skal boðað með minnst 4 daga fyrirvara. Ef íbúðareigandi vill vera viss um að fá fundarboðið þarf hann að tilkynna húsfélaginu hvert hann vill fá það sent.

    Semsagt, ef ég fer í 6 daga ferðalag getur húsfélagið tekið ákvörðun um að mála húsið bleikt og reisa styttu af Davíð Oddssyni í garðinum á meðan.

    Helvítis fokking fokk!

    Posted by: Eva | 16.04.2009 | 11:25:51

    ———————————————-

    Enn fremur, jafnvel þótt sé bannað að fella tré án samráðs við húseiganda, liggja engin viðurlög við því.

    Ég hef engan lagalegan rétt, hvernig sem á það er litið. Það eina sem ég get gert er að ná fram hefndum.

    Tillögur vel þegnar.

    Posted by: Eva | 16.04.2009 | 11:30:56

    ———————————————-

    Hvers vegna er verið að fella tréð?

    Posted by: Markús | 16.04.2009 | 11:31:28

    ———————————————-

    Af því að það fer í taugarnar á nágrönnum mínum.

    Fólkið sem ég keypti af var áður búið að stöðva þau í að fella það.

    Posted by: Eva | 16.04.2009 | 11:46:58

    ———————————————-

    Hvaða hlutir eru í þeirra garði sem eru þeim kærir? Svo gætirðu líka reist eitthvað enn ljótara í garðinum sem fer enn meira í taugarnar á þeim.

    Posted by: Bölverkur | 16.04.2009 | 11:55:48

    ———————————————-

    Ég skil að þú ert sár, en hefnd skilar engu. Líttu bara til deilu Palestínumanna og Ísraela þar sem hefndin ein ræður ríkjum í endalausum vítahring. Með því að hefna þá yfirtekurðu persónuleika nágrana þíns, og viltu verða eins og þau eru? Reyndu að forðast því að færa þig niður á þeirra plani.

    Posted by: Markús | 16.04.2009 | 12:08:05

    ———————————————-

    Þvílíkt skítapakk sem þú býrð með. Þú átt alla mína samúð.

    Posted by: Gurrí | 16.04.2009 | 12:16:33

    ———————————————-

    Nei Markús það er rétt. Ég ætti auðvitað bara að brosa og bíða eftir því að þau gefi Alcoa leyfi til að reisa stórt auglýsingaskilti í garðinum. Eða máli húsið bleikt.

    Posted by: Eva | 16.04.2009 | 12:23:25

    ———————————————-

    Gurrí, ég hef aldrei haft neitt upp á þetta fólk að klaga. Það hvarflaði aldrei annað að mér en að þetta væri heiðarlegt fólk sem umgengist nágranna sína af virðingu. Síðast í gær sagði ég gesti sem kom til mín að ég væri mjög heppin með nágranna.

    Þetta var 50 ára gamalt tré. Nágrannakona mín segir að það hafi verið ljótt en ég sá nákvæmlega ekkert ljótt við það og flestir þeirra sem hafa heimsótt mig hafa dáðst að því. Ég vissi að það hafði verið rætt á húsfundi skömmu áður en ég keypti að fella tréð en fólkið sem ég keypti af neitaði svo það var nú svosem á hreinu að fleiri skoðanir á trénu væru uppi. Mér datt hreinlega aldrei í hug að nokkur myndi gera annað eins án þess að tala við mig.

    Posted by: Eva | 16.04.2009 | 12:30:02

    ———————————————-

    Fyrirgefðu Eva, en mig grunar að þú misskiljir mig. Það er munur á mótmæli og hefnd, hvað þá það að láta vaða yfir sig þegjandi og hljóðalaust. f

    Það að fella tréð án samráðs við þig var ekki rétt og þú átt hiklaust að segja þeim það. Markmiðið er að þeir átti sig á því að að þeir hafi gert rangt, og reyni að bæta úr því. Er það líklegt að gera ef þú hefnir þín? Eða er líklegra að það gerist með því að mótmæla við þá og koma á framfæri við þá hversu sár og svekt þú ert. Þú ættir einmitt að benda þeim sérstaklega á að þú sért svekt (ef ég hef túlkað ummæli þín til Gúrriar rétt) því þú hélst að þau væru einmitt heiðarlegra.

    Hvað skilar hefndarleiðin þér? Segum að þú eyðileggir eitthvað sem þeim finnst fallegt, hver er þá niðurstaðan? Þá eru tveir fallegir hlutir horfnir úr heiminum. Hvað gerist ef allir nota hefndina? Endar það þá ekki með að það verður ekkert fallegt eftir í heiminum? Ég hef áður nefn Palestína, enn annað dæmi um hefndarsamfélag er Sturlungaöldin hér heima. Ég veit ekki með þig en ég er feginn að búa ekki á svæði eða tíma þar sem hefndin ríkir.

    Talaðu við nágrannanna þína. Gerðu þeim grein fyrir tilfinningar þínar og reiði. Vonandi átta þau sig á því að þau hafi gert rangt og leita leiða til úrbóta.

    Posted by: Markús | 16.04.2009 | 12:48:49

    ———————————————-

    Mér dettur ekki í hug að skemma eitthvað fallegt.

    Ég lifi samkvæmt reglunni; ég angra þig ekki að fyrra bragði en ef þú endilega vilt leiðindi þá geturðu fengið þau.

    Ég mun koma þessu fólki í eitt skipti fyrir öll í skilning um hvað það er praktískt að styðjast við lagabókstafinn fremur en gagnkvæma virðingu í samskiptum við nágranna sína.

    Posted by: Eva | 16.04.2009 | 12:58:12

    ———————————————-

    Ég vona að þér gangi vel með að gera nágrönum þínum grein fyrir kosti gagnkvæmrar virðingar og að einhver sátt náist í málinu. Kannski verður hægt að gróðursetja nýtt tré í grunni þess gamla?

    Posted by: Markús | 16.04.2009 | 13:23:11

Lokað er á athugasemdir.