Haltu húsfund um eitthvað sem skiptir máli á meðan hann er í útlöndum og pottþétt að fundarboðið mun fara fram hjá honum. Taktu ákvörðun í óþökk hans.
Þegar hann kemur heim, ekki þá láta hann vita af því að fundur hafi verið haldinn. Hvað þá hvaða ákvörðun hafi verið tekin.
Ráddu verktaka án þess að láta hann vita. Þegar hann áttar sig er orðið of seint að gera eitthvað í málinu.
Í gær stóð risastórt grenitré í garðinum mínum.
Í morgun varð mér litið út um gluggann og sá þá mann langt kominn með að fella tréð mitt. Stóra, gamla tréð mitt sem ég hafði aldrei samþykkt að yrði fellt. Mér skilst að ég hafi engan lagalegan rétt.
Ég hringdi í formann húsfélagsins og spurði hver hefði tekið þessa ákvörðun. Jú það var víst gert í september í fyrra á meðan ég var úti í Palestínu. Enginn í húsinu hefur sýnt þá lágmarkskurteisi að láta mig vita.
Í lögum um húsfélög segir að til fundar skuli boðað með minnst 4 daga fyrirvara. Ef íbúðareigandi vill vera viss um að fá fundarboðið þarf hann að tilkynna húsfélaginu hvert hann vill fá það sent. Semsagt, ef ég fer í 6 daga ferðalag getur húsfélagið tekið ákvörðun um að mála húsið bleikt og reisa styttu af Davíð Oddssyni í garðinum á meðan.
Helvítis fokking fokk!
Ennfremur, jafnvel þótt sé bannað að fella tré án samráðs við húseiganda, liggja engin viðurlög við því.
Þetta er aðeins eitt dæmi um gagnsleysi lagasetningar. Lög geta aldrei þjónað réttlætinu. Eina leiðin til réttlætis er samfélag sem byggir á virðingu og samstöðu. Ef það er ekki til staðar gera lög lítið gagn eða ekkert.
Tréð mitt er farið. Nágrannar mínir völtuðu yfir mig og sýndu mér ekki einu sinni þá lágmarks virðingu að láta mig vita. Ég hef engan lagalegan rétt, hvernig sem á það er litið. Það eina sem ég get gert er að koma þessu fólki í skilning um það í eitt skipti fyrir öll hvaða álit ég hef á svona valdníðslu.
Hér með býð ég öllum Íslendingum í partý heim til mín að Mávahlíð 39 á föstudagskvöldið frá kl 20-23:30. Takið með ykkur hljóðfæri, singstarkerfi og hvaðeina sem gæti orðið til skemmtunar. Takið einnig með ykkur gæludýr ef þið viljið. Ef einhvern langar að elda lyktsterkan mat mun ég með ánægju leyfa afnot af eldhúsinu.
Þið þurfið ekki að taka neitt sérstakt tillit til nágrannanna, bara vera farin af svæðinu fyrir miðnætti, því ekki viljum við nú brjóta lög um svefnfrið. Ef fólk kýs frekar að eiga samskipti eftir bókstaf laganna en almennri virðingu og kurteisi, þá er um að gera að láta það eftir því.
——————————
Mjög vont að láta brjóta á sér og ég hef búið með nágrönnum frá helvíti, sem virtu engin mörk í samskiptum og það er skelfilegt.
En var þetta ekki líka tré nágrannanna? Ef þau vildu rífa það en þú ekki. Hvers vegna? Tók það skyggði það á sólina úr suðri eða hver voru þeirra rök? Svona fyrst þú ert að involvera okkur í þetta lesendur þína og í nafni virðingar og kurteisi, reifaðu sjónvarmið nágrannanna líka.
Posted by: Róbert | 16.04.2009 | 14:22:58
——————————
Algjörlega óþolandi þegar fólk lætur svona. Það er til svo mikið af smásálum að það hálfa væri full mikið.
Svo er spurning hvort maður eigi að leggjast á sama lága planið og gera þeim lífið leitt? Fokkit! Haltu feitt partý, helst fimmtudag, föstudag og laugardag og brunch á sunnudag með álíka látum. og aftur… og aftur… og aftur 🙂
Posted by: Jónas | 16.04.2009 | 14:24:43
——————————
Hversu hátt var tréð? Ef það var hærra en 6 metrar þarf leyfi borgarinnar til að fella það….
Posted by: GG | 16.04.2009 | 14:55:21
——————————
Tréð skyggði ekki á birtu. Þar sem ég var ekki á fundinum, hafa sjónarmið nágrannanna ekki verið kynnt fyrir mér að öðru leyti en því að formaður húsfélagsins gaf þá skýringu að það hefði verið ‘ljótt’.
Að sjálfsögðu hefði ég viljað fá að heyra þeirra rök en með því að halda fundinn á meðan ég var erlendis, komust þau bæði hjá því að kynna mér sitt sjónarmið og hlusta á mitt. Hvað heitir svoleiðis framkoma á mannamáli?
Posted by: Eva | 16.04.2009 | 14:57:30
——————————
Úje! Ég er alltaf til í teiti.
Posted by: Örn | 16.04.2009 | 15:00:21
——————————
Bwahaha… Það sem skiptir öllu máli er að þú tekst á við missinn á yfirvegaðan hátt.
Samhryggist með tréð.
Posted by: Hugi | 16.04.2009 | 15:01:48
——————————
Þú ert greinilega ekki í uppáhaldi hjá fleirum en mér.
Posted by: rth | 16.04.2009 | 15:39:54
——————————
En að reyna að ræða við þau?
Posted by: Kristín B | 16.04.2009 | 15:50:45
——————————
Ræða hvað Kittý mín?
Útskýra fyrir fullorðnu fólki hversvegna mér finnst nóg að umbera leynimakk og valdníðslu af hálfu yfirvalda og bankakerfisins þótt ég þurfi ekki líka að vera á nálum yfir því að fólk sem ég þarf að eiga samskipti við komi aftan að mér?
Eða ræða möguleikann á að planta öðru tré? Það tekur ekki nema 50 ár að ná þessari hæð.
Mér þykir leitt að missa tréð en það er nú samt ekki stóra málið. Það sem virkilega kemur mér í geðshræringu er sú helvítis staðreynd að ég bý í samfélagi þar sem fólk virðist almennt hafa smekk fyrir að nota lagabókstafi til að valta hvert yfir annað.
Posted by: Eva | 16.04.2009 | 16:12:43
——————————
Sæl Eva
Þar sem ég bý í fjölbýli þá þekki ég hvað hvað sumir eru ósmekklegir og tillitslausir.
Ég skil ekki svona framkomu.
Ok. skil að tréð hafi kannski pirrað suma en að geta ekki haldið fund um svona mál og önnur stór mál þegar allir eru heima. Nú eða sjá til þess að allir hafi tækifæri til að senda þá fulltrúa á fundinn fyrir sig.
Ef fólk ætlar að lifa í samfélagi þar sem alltaf er bara farið eftir ítrasta lagabókstaf þá getum við rétt ímyndað okkur hversu gott og skemmtilegt það samfélag verður.
Grannar þínir vilja greinilega bara fara eftir lagabókstaf en ekki tillitsemi eða bara almennri kurteisi.
Góða skemmtun 😉
Posted by: Ásta B | 16.04.2009 | 16:24:40
——————————
Nennirðu í alvöru að fara að standa í nágrannastríði ofan á pólitíkina?
Posted by: Kristín B | 16.04.2009 | 17:11:35
——————————
svo er líka góður vani að, þurfi maður að bregða sér´af bæ, að skilja hljómflutningstækin eftir á fullu blasti. muna bara að koma heim aftur fyrir miðnætti
Posted by: Brjánn Guðjónsson | 16.04.2009 | 17:14:01
——————————
Varanleg lausn:
Flyttu útá land. þar fokkar enginn í garðinum þínum
Posted by: arnar | 16.04.2009 | 17:16:29
——————————
Samhryggist þér og vona að þetta verður gott partý.
Einu sinni bjó ég í blokk með fallegum garði og ca.10 metra háu fallegu grenitréi. Nokkrum vikum fyrir jól lít ég út um gluggann og sé að tréið er horfið (ákveðið á einhverjum fundi sem ég vissi ekkert af). Tveimur dögum síðar var síðan búið að „skreyta“ stubbinn sem eftir var, með, jú hverju öðru en öðru grenitréi…
Posted by: sóley | 16.04.2009 | 17:16:32
——————————
Samhryggist þér.
Hef lent í valdníðslu nágranna og veit hvað það er. Hægt að líkja því við nauðgun.
Snilldarhugmynd með partíið, reyndar lét ég mér það nægja að stilla gítarmagnarann í botn og geri enn, við viss tækifæri 🙂 og virði fólkið ekki viðlits.
En haltu hugarrónni.
Gangi þér vel
Kv. Leifur.
Posted by: Leifur | 16.04.2009 | 17:28:10
——————————
Nei ég nenni því ekki neitt en nágrönnum mínum finnst greinilega í lagi að fara á bak við mig af því að það löglegt. Ég get ekkert gert í því nema sýna þeim hvernig lífið verður þegar lög eru sett ofar kurteisi.
Posted by: Eva | 16.04.2009 | 17:55:31
——————————
Ég er reyndar svo til flutt úr landi, er bara heima fram yfir kosningar. Ég er til í að leyfa ungu lúðrapönkbandi frjáls og endurgjaldslaus afnot af íbúðinni minni í sumar frá 7 á morgnana til 23:50 á kvöldin.
Einnig kemur til greina að leyfa einkareknum leikskóla afnot af íbúðinni sem og dagvistun fyrir gæludýr.
Veit einhver um fólk sem vantar geymslu fyrir kæstan hákarl?
Posted by: Eva | 16.04.2009 | 18:04:22
——————————
Má ég elda karrýsteiktegg heima hjá þér, og jafnvel brenna þau smá við?
Og auðvitað keðjureykja camel filterslausann á meðan ég æfi klettasólóinn á rafmagnsgítarinn minn (kem auðvitað með magnarastæðuna)? Er sameign sem hægt að reykja mikið? Jafnvel sameiginlegt þvottarhús? 😉
Fæ hunda vinkvenna minna lánaða til þess að spæna upp smá garðinn jafnvel?
Gott partý? 😉
En smá pæling… ef tréð var svona rosalega ljótt, afhverju snyrti fólkið það þá ekki? Eða er það ekki í boði með grenitré?
Posted by: Rut | 16.04.2009 | 21:33:31
——————————
Ég sá ekkert ljótt við þetta tré. Nú er mér sagt að það hafi verið sýkt en sé það rétt hefur ekkert verið gert til að uppræta þá sýkingu. Ég útiloka ekkert að þetta kunni að hafa verið praktískt en ég hefði viljað fá álit garðyrkjumanns sem ég treysti og hefði örugglega veitt ókeypis ráðgjöf.
Það sem mér svíður mest er samt þessi vinnubrögð, að tala ekki einu sinni við mig.
Posted by: Eva | 16.04.2009 | 22:11:25
——————————
Sæl Eva,
Kári hérna, sonur leynimakkaranna og einstaklingur með lögheimili í sömu byggingu og þú. Við höfum verið að tala um að taka þetta tré niður síðan við fluttum inn; það stíflaði þakrennurnar, jós yfir svalirnar okkar, blómabeðin, grasflötina, bílastæðin og trampólínið af greninálum, var brotið og illa farið eftir óveðrið hérna um árið, fullkomlega greinalaust á öllum neðri helmingnum og hálflíflaust og nálalaust nærri stofninum. Það var auk þess orðið RISASASTÓRT, svipað að hæð og þriggja hæða húsið okkar. Það var okkar, eða a.m.k. mitt, sjónarmið varðandi fellingu þessa trés. Auðvitað bý ég ekki þarna lengur, nema lagalega, svo ég hef kannski ekki rétt á að skipta mér af þessu máli beint, en mér finnst mikilvægt að þú þekkir okkar sjónarhól. Og ég veit að það var búið að margræða fellingu trésins. Mér þykir leitt að þetta hafi komið svona illa við þig. Sjálfur hlakka ég til að geta legið í garðinum í sumar án þess að þurfa að færa mig á nokkurra mínútna fresti eftir því sem sólin hverfur á bak við rytjóttar greinar blessunarinnar heitinnar.
Með bestu kveðju frá Nýju Jórvík og von um vinstristjórn,
Kári Emil.
Posted by: Kári Emil Helgason | 17.04.2009 | 1:22:56
——————————
Einu sinni voru fjögur dásamleg tré söguð niður í mínum (þáverandi) garði án minnar vitundar meðan ég var í fríi. Og ástæðan, jú einn íbúanna sá ekki alveg nógu vel út á götuna til að fylgjast með umferð – eða telja bíla -eða eitthvað. Þegar ég var búin að gráta fallegu trén „mín“ ákvað ég að verða leiðinlegasti, smámunasamasti og kvartsárasti nágranni ever. Það virkaði, þannig að eftir það datt engum lengur í hug að hreyfa legg né lið án þess að bera það undir mig. Svo flutti ég.
Þú átt allan minn skilning og stuðning í þessu máli.
Posted by: Hulda H. | 17.04.2009 | 10:30:37
——————————
Þar sem einlæg viðurkenning á mistökum virkar frekar vel á mig bið ég þá sem koma í heimsókn í kvöld að viðhafa prúðmennsku 🙂
Óli, tölum saman á morgun.
Posted by: Eva | 17.04.2009 | 20:10:09