Viðtökurnar við SCUM

Valerie Solanas

Ég var að lesa SCUM, fyrst nú, hef aldrei lesið ávarpið í heild áður. Það væri áhugavert að sjá viðbrögðin ef einræðu um ógeðslegt eðli og innræti kvenna yrði hampað sem listaverki.

Af hverju hef ég á tilfinningunni að Andspyrna myndi ekki hefja til skýjanna verk sem talaði um konur sem óværu og tíundaði það hvernig þær hafa mergsogið karlmenn bæði tilfinningalega og fjárhagslega, haldið þeim í margskonar ánauð, kallað fram allt það versta í þeim, hindrað þá í því að nýta hæfileika sína og í raun eyðilagt heiminn. Það er ekkert erfiðara að rökstyðja það viðhorf en sorann sem Valerie Solanas lét frá sér.

Það er út af fyrir sig athyglisvert að mitt í allri umræðunni um hlutgervingu kvenna og endalausa niðurlægingu þeirra af hálfu karlmanna, sé hatursáróðri í garð karlmanna lýst sem hressum og kjaftforum. Hvaðan kemur annars sú hugmynd að ef kona hefur orðið fyrir kynferðisofbeldi þá hafi hún þar með leyfi til þess að dreifa skít? Ég sé ekki fyrir mér að það fólk sem mælir þessu bót myndi hampa sambærilegum sora í garð t.d. svartra manna, með þeim rökum að höfundur hefði orðið fyrir nauðgun af hálfu svertingja.