Véfréttin

Myndin er eftir Emily Balivet

Undir tungli
yfir jörð
situr Véfréttin í dyngju sinni
og greiðir hár sitt.

Einstaka ugla á sveimi yfir Álfheimum
minnir stöðugt á tilveru hennar
en þéttofið net
varnar óvígðum inngöngu.
Inn um möskva þess grillir í morgundaginn
og það segja menn
að hún vatni úlfum um nætur.

Í dagrenningu sést hún iðulega ganga að Urðarbrunni,
þar situr hún langtímum og starir ofan í vatnið.

Hún hlýtur að vera að spegla sig konan;
mikil ósköp sem þær geta verið uppteknar af sjálfum sér
þessar hofgyðjur
tautar Vegfarandinn,
því þótt honum sé enganveginn ljóst
hvort hún er frekar af ættum ljósálfa eða bergrisa
er hún allavega upprunnin í Álfheimum
en þar mun háborg hégómans til húsa.

Undrast mun hann þó
að þótt beri hún silfursverð við belti
og gullmen um háls
býður hún velkominn, grænklæddan dreng
sem staldrar við brunninn.

Allt sem þú vilt geturðu fengið,
spurningin er bara hvað það má kosta,
segir véfréttin.

Og hlustirðu glöggt, þar sem þú liggur í fleti þínu
muntu heyra óminn frá níu kristalsbjöllum,
næst þegar drengurinn fer hjá húsi þínu.
Þær hefur hofgyðjan hengt með silfurþræði á unghafurshorn hans
nornum til yndis.

Þeim sem kristöllum klingja
leyfa þær aðgang að brunninum.