Um biturð

Elsku stelpan. Með því að láta aðra segja þér hvað er viðeigandi að skrifa og hvað ekki, gefurðu þeim sömu vald yfir þér. Þú mátt skrifa hvað sem þér sýnist um sjálfa þig og þitt sálarlíf. Álit annarra á fullkomlega eðlilegum tilfinningum segir ekkert um þig og fullkomlega eðlilegar tilfinningar segja ekkert annað en að þú sért fullkomlega eðlileg. Hvers vegna í fjandanum er biturð svona mikið tabú?

Biturð er háð sömu lögmálum og allar aðrar tilfinningar. Þú upprætir hana með því að viðurkenna hana, rökræða við sjálfa þig, taka þá afstöðu að framhaldið skipti meira máli en hið liðna og planta betri tilfinningu í stað hennar. Af einhverjum óskiljanlegum ástæðum virðast margir álíta að það sé veikleikamerki horfast í augu við sársauka og reiði. Af öðrum en ekki jafn óskiljanlegum ástæðum munu alltaf einhverjir reyna að þagga niður í þér með því að koma inn hjá þér skömmustukennd fyrir að taka því ekki með stóískri ró þegar annað fólk kollvarpar lífi þínu.

Það lýsir ekkert meiri eða merkilegri karkter að þykjast vera slíkur töffari að ekkert geti komið þér úr jafnvægi. Ég held reyndar að það sé alveg jafn óholt að afneita tilfinningum eins og að velta sér upp úr eymd sinni. Sár gróa best ef þau eru hreinsuð vel og svo látin í friði. Það gerir ekkert gagn að kroppa stöðugt í sár en ef þú hreinsar ekki drulluna úr sárinu færðu ígerð.