Menningarlíf mitt er í rúst. Ég hef mjög lítið farið í bíó, ekkert séð í leikhúsunum þetta haustið, og ekki farið á eina einustu tónleika á árinu, trúið þið því? Ég hef séð tvo þætti af House en annars horfi ég ekkert á sjónvarp nema Kastljósið þá sjaldan að ég er heima. Ég hef varla lifað neinu félagslífi heldur, ekki einu sinni haldið matarboð nema einu sinni síðan ég flutti inn í Mávahlíðina. Ég fór að vísu á bekkjarmót, góðu heilli, spilaði eitt skabbl við Pegasus og er að fara í morðgátuferð með Auði um næstu helgi en annars lítur út fyrir töluverða kvöldvinnu næstu vikur.
Endur fyrir löngu átti ég afmæli. Ætlaði að halda upp á það með pompi og prakt þegar ég hefði smalað börnum mínum heim frá útlöndum, ofan af fjöllum og út úr tukthúsum en hef ekki komið því í verk enn. Hvenær er orðið of seint að halda upp á afmæli?
Ég fékk leikhússmiða í afmælisgjöf en hef enn ekki fundið tíma til að nýta þá. Ég fékk líka gjafabréf í Smáralindina en er heldur ekki farin að koma því í verk að nýta það. Er samt búin að ákveða hvaða dásemd ég ætla að taka út á gjafabréfið. Dálítið sem bara einn maður fær að sjá. Ef ég finn þá einhvern tíma til þess að afhjúpa dýrðina. Sumt er bara ekki hægt að afgreiða á 20 mínútum.
Auglýsi hér með eftir fleiri klukkustundum í sólarhringinn svo ég komi nú einhverntíma einhverju af þessu í verk. Þigg einnig tillögur um forgangsröð þar sem Evan og Birtan geta engan veginn komið sér saman um hana.
——————————————————
Hefur þessi eini maður ekki góða tillögu að forgangsröðinni?
Posted by: Anonymous | 12.10.2007 | 15:57:17
——————————————————
Það er of seint að halda upp á afmæli þegar maður er dauður, sama hvaða tala/tölur eru á blöðrunum.
Posted by: egill | 13.10.2007 | 18:33:09