Til hamingju með að vera óskeikul

texas-deputies-shoot-handcuffed-man

Ég sé að nokkrir dólgafeministar tala um mig sem „talsmann meintra gerenda“ í kynferðisbrotamálum og af samhenginu er helst að skilja að það beri vott um „hamslaust kvenhatur“ eins og ein mannvitsbrekkan orðaði það, að staldra við og spyrja á hvaða leið við séum eiginlega. Fyrir nú utan hina alræmdu athyglissýki sem alltaf virðist handhæg skýring þegar kona gagnrýnir samfélag sitt en feministar taka þeirri skýringu feginshöndum þegar það hentar þeim þótt þeir taki annan pól í hæðina þegar hún beinist að þeim sjálfum.

Ég reikna með að þetta fólk sé ákaflega stolt af kollegum sínum í Svíþjóð sem hafa fengið því framgengt að hver maðurinn á fætur öðrum hefur afplánað margra ára fangavist án þess að nokkrar sannanir liggi fyrir um að afbrot hafi verið framið. Bendi á þessa bók sem segir sögu 10 manna sem voru dæmir, ekki bara án sannana heldur þrátt fyrir himinhrópandi mótsagnir í framburði þeirra sem lugu upp á þá sökum.

Ég reikna með að þetta sama fólk hafi fordæmt þá sem slógu varnagla við orðum þessarar stúlku sem fékk föður sinn ranglega dæmdan í fimm ára fangelsi.

Ég hlýt að óska þessu fólki sem gagnrýnir mig fyrir „árásir“ mínar á Stígamót (reyndar hefur enginn bent á neitt sem ég hef sagt um Stígamót sem stenst ekki) til hamingju með að vera svo óskeikult í dómum sínum um kynferðisbrotamál að það geti afskrifað öll varnaðarorð sem afneitun á því að kynferðisofbeldi eigi sér stað eða jafnvel stuðning við nauðgara og barnaníðinga. Það var einmitt svona rétthugsandi fólk sem stóð fyrir galdraofsóknum 15. og 16. aldar og fékk að lokum kirkjuna í lið með sér.