Fyrir langalöngu fékk ég póst á facebook frá konu sem ég þekkti ekki neitt. Skilaboðin voru þessi: ’Veistu að þú ert með nauðgara á vinalistanum þínum?’
Nei, ég hafði nú ekki vitað það og hrollurinn skreið niður eftir bakinu á mér. Hún sagði mér nafn mannsins og frá gömlu dómsmáli þar sem hann var í aðalhlutverki. Ljótt mál og frásögnin trúverðug.
Ég þekkti manninn ekki persónulega fremur en svo marga aðra fb vini mína. Hann hafði stöku sinnum tekið þátt í umræðum á síðunni minni og mér fannst hann skemmtilegur. Ég spurði hann hvort þær upplýsingar sem konan hafði gefið mér væru réttar og það stóð heima. Hann vissi líka hvaðan upplýsingarnar komu því þessi sama manneskja hafði haft samband við fleira fólk á fb. sem hafði í kjölfarið tekið hann út af vinalistanum sínum.
Ég hugleiddi að gera það líka. Ég hafði einu sinni tekið nauðgara út af vinalistanum mínum. Mann sem var að hrella konu sem mér er annt um. Ég veit ekki hvernig nauðgarar hugsa en ég er allavega viss um að þeir hugsa ekki mjög rökrétt og ég vildi ekki gefa klikkuðum manni neina ástæðu til að halda að hann kæmist að henni í gegnum mig.
En þetta var öðruvísi. Þessi maður sá sök sína. Hann var mér vitanlega ekki að hrella neinn og ég sá í raun ekki að neinum stafaði hætta af því þótt hann tæki þátt í umræðum á fb. Hann hafði játað, setið af sér dóminn (það er óþarfi að ræða goggunarröðina á Litla Hrauni) komið út meðvitaður um sekt sína, í veröld sem hafði snúið við honum bakinu. Hann kynntist konu nokkrum árum síðar. Hún elskaði hann og á tímabili var hann næstum því farinn að trúa því að hann gæti lifað eðlilegu lífi. Hann sagði henni frá málinu og hún fór frá honum. Um leið slitu allir sem hún þekkti sambandi við hann. Þessi maður lifði í einangrun. Facebook var eini vettvangurinn þar sem hann átti einhverskonar samskipti við aðrar manneskjur. Það hefði ekki þjónað þeim tilgangi að vernda neinn og engu réttlæti heldur að taka þann möguleika frá honum.
Maðurinn er það sem hann gerir. Þegar maður er dæmdur fyrir hryllilegan glæp, glæp sem samfélagið getur ekki fyrirgefið, eru tveir möguleikar í stöðunni; hann situr af sér dóminn og gengur út sem morðingi/nauðgari og heldur áfram að nauðga og/eða drepa, eða hann gengur út sem fyrrverandi morðingi eða nauðgari og reynir að hefja nýtt líf. Ef hann er morðingi munu einhverjir trúa því að hann hafi framið sitt síðasta (og vonandi eina morð). Hann á erfitt uppdráttar, vissulega en hann á þó oftast kost á einhverjum stuðningi frá einhverjum. Það er hinsvegar alveg sama hvort kynferðisglæpamaður situr við sama heygarðshornið og sér ekkert athugavert við hegðun sína eða hvort hann hefur snúið við blaðinu, hafi hann einu sinni játað á sig kynferðisglæp, þá er hann úrkast að eilífu.
Ég tók þennan mann ekki út af vinalistanum mínum. Hann hvarf reyndar af fb nokkrum dögum síðar. Kannski bjó hann sér til gerviprófíl til þess að reyna að halda einhverjum mannlegum tengslum. Kannski fyrirfór hann sér. Ég er allavega nokkuð viss um að hann lokaði ekki fb síðunni sinni af því að hann væri hræddur við firringuna eða hundleiður á því að fá fjólubláa glimmerengla með væmnum skilaboðum inn á síðuna sína.
Af hverju tók ég hann ekki út af vinalistanum? Var ég með því að gefa út yfirlýsingu um að mér þættu nauðganir bara hið besta mál og vildi helst eiga sem flesta nauðgara að vinum? Eða var ég svona göfuglynd að leyfa greyinu sem enginn vildi neitt með hafa að hafa nafnið mitt á listanum sínum til merkis um að einhver viðurkenndi tilverurétt hans?
Nei, ég hugsaði þetta ekki þannig. Ég er enginn talsmaður skilyrðislausrar fyrirgefningar og álít reyndar að hefnd eigi oft fullan rétt á sér. Það er hinsvegar ekki hefnd sem er að verki þegar ógæfumanni er úthýst úr mannlegu samfélagi. Hefnd er í eðli sínu persónuleg. Hún er re-venge eða endurgjald í neikvæðri merkingu. Illgjörð gagnvart einhverjum sem á það skilið. Tilgangur hennar er sá að fullnægja réttlætinu, finna sálarfrið til þess að verða fær um að láta atburðinn að baki. Hefndin tekur enda, annars þjónar hún ekki tilgangi sínum.
Ríkið getur ekki tekið hefndina að sér. Það eina gagnlega sem ríkið getur gert við afbrotamenn, er að taka hættulega menn úr umferð til að vernda samfélagið gegn þeim. Ríkið reynir hinsvegar að fullnægja réttlætinu með því að refsa því fólki sem brýtur af sér. Það virkar að vísu ekki, ekki á neinn hátt. Fólk verður ekki betri manneskjur af því að ganga í gegnum refsingu. Refsingar hafa ekki fyrirbyggjandi áhrif og allra síst þjóna refsingar dómskerfisins hefndarþörfinni. Svar þessa grunnhyggna samfélags er samt sem áður refsing. Viðeigandi stofnun fyrir þá sem ekki er hægt að halda í skefjum er ekki til!
‘Hættulegur maður’ er góð afsökun fyrir ofsóknum. En það ekki fyrst og fremst ótti við hættulega menn sem er að verki þegar glæpamaður hefur tekið út sína formlegu refsingu til þess eins að lifa í félagslegri einangrun og sæta jafnvel ofsóknum sem enginn hefur áhuga á að sporna gegn. Það er ekki heldur hefnd þegar fólk sem þekkir ekkert til þolendanna ofsækir afbrotamann. Það eru ekki réttmæt viðbrögð manneskju sem á harma að hefna, að hundelta mann, auglýsa heimilisfang hans og lýsa því í smáatriðum hverskonar pyndingar hann á skilið, heldur hrein og klár grimmd. Kynferðisglæpamenn eru úrkast, menn sem enginn hefur samúð með. Það er alveg sama hversu skítlega maður hagar sér, það er alltaf hægt að benda á nauðgarann og segja að hann sé ennþá meira ojbjakk. Samfélag okkar umber það að ill hegðun þeirra, hvort sem þeir hafa látið af henni eður ei, sé notuð sem réttlæting fyrir refsingu sem engan enda tekur. Réttlæting fyrir ofsóknum og einelti.
Eiga nauðgarar það skilið að fá að lifa eðlilegu lífi? Nei áreiðanlega ekki. Verðskuldar fjöldamorðingi það að halda lífi? Nei, í raun ekki. Samt er ég mótfallin dauðarefsingum. Ekki eingöngu vegna hættunnar á því að saklaus maður sé líflátinn (enginn er líflátinn nema dómurinn telji engan vafa leika á sekt hans en samt sem áður gerist það af og til að rangir dómar eru kveðnir upp og þeim framfylgt) heldur líka vegna þess að dauðarefsing getur aldrei þjónað réttlætinu.
Þegar maður hefur hegðað sér svo skelfilega að hann á ekki skilið að lifa, rekumst við á undarlega þversögn; eina leiðin til að fullnægja réttlætinu er sú að fremja ranglæti. Dauðarefsing gengur ekki upp sem leið til að fullnægja réttlætinu. Hún getur ekki verið réttlát, sama hversu mikill skíthæll maðurinn er. Persónuleg hefnd gæti hugsanlega fært þolandanum frið en refsing yfirvaldsins gerir það ekki. Það er ekki hægt að fullnægja réttlætinu með því að fremja ranglæti. Og það er nú þessvegna sem miskunnsemin var fundin upp.
Ég bið ekki nokkurn mann um að bjóða barnanauðgaranum í hverfinu í fermingarveislu. Ég skil fólk sem finnst eitthvað mjög óhugnanlegt við að óforbetranlegur barnanauðgari sitji í kjördeild, enda þótt sennilega stafi mun minni hætta af honum þar en á röltinu fyrir utan grunnskóla. Ég lái engum það að fríka út af tilhugsuninni um að nauðgarinn á fb listanum hafi kannski skoðað ljósmyndir og viti hvar maður á heima. En ég bið þeim vægðar, já ég geri það. Ég fer fram á það að í stað þess að ofsækja kynferðisafbrotamenn, beini fólk frekar kröftum sínum að því að krefjast þess að ‘viðeigandi stofnun’ eða önnur ráð sem þjóna þeim tilgangi að vernda samfélagið verði tekin upp.
Miskunnsemi felur ekki í sér fyrirgefningu. Allavega ekki í þeirri merkingu að striki sé slegið yfir fortíðina og samskipti hafin á ný á grunni trausts og virðingar. Miskunnsemi merkir það að við horfumst í augu við þversögn réttlætisins. Við beitum miskunnsemi þegar við stöndum frammi fyrir því að velja á milli þess að sýna vægð eða þess að næra andstyggilegasta eiginleika mannsins, grimmdina. Eiginleika sem við gætum hugsanlega þurft á að halda til að verja mannslíf en höfum enga ástæðu til að efla og praktisera í daglegu lífi. Miskunnsemi merkir að við gefum fólki séns þegar það á það ekki skilið. Miskunnsemi merkir það að við stillum okkur um að ofsækja einhvern. Ekki af því að við séum svo æðisleg, heldur vegna þess að endalaus refsing bætir engan mann. Það eru hinsvegar meiri líkur á að slæmir menn taki upp betri viðhorf og hegðun ef við gerum heiminn mennskari.
————————————–
Hver af okkur er ekki sek um eitthvað slæmt? Í mínum augum er þessi kona sem skrifaði þér bréf sek um mjög alvarlegan glæp. Hver gaf henni rétt til þess að taka að sér hefnd og refsingu? Hver skipaði hana dómara og böðul? Hvað gefur henni rétt til að framlengja dóm manns sem hefur tekið út sína refsingu? Þú spyrð: „Eiga nauðgarar það skilið að fá að lifa eðlilegu lífi?“ Ef þeir hafa tekið út dóm sinn þá eiga þeir það skilið, alveg eins og við eigum öll skilið að fá annað tækifæri. Ef enginn á að fá annað tækifæri í lífinu þá getum við rétt eins læst alla inn. Við erum öll sek um eitthvað. Jú það má vera að sumir séu sekir um alvarlegri glæpi en lögmálið verður að vera það sama, annað hvort eiga allir að fá annað tækifæri (eftir að þeir eru búnir að taka út refsingu sína) eða enginn. Ég stal sem táningur. Er ekki best að senda öllum mínum vinum bréf um að ég sé þjófur? Hún sem skrifaði þér þetta bréf ætti að líta í eigin barm og spyrja sig að því hvort hún myndi vilja að allar hennar syndir eltu hana það sem eftir er ævi hennar.
Posted by: Þorkell Á. Óttarsson | 17.04.2011 | 11:50:13
Mér finnst í raun vanta í tungumálið orð yfir það sem þú ert að lýsa Keli.
Að eiga eitthvað skilið, eða verðskulda eitthvað, felur í sér þá hugmynd að maður hafi á einhvern hátt unnið til þess. Hugmyndin um að maður geti átt náttúrulegan rétt á einhverju, án þess að verðskulda það í raun, virðist vera okkur fjarlæg, nema þá helst gagnvart börnum eða þegar við erum að fjalla um mannréttindi, þ.e. rétt mannsins gagnvart yfirvaldinu.
Það er líka skiljanlegt að fólk sé ekki auðfúst til að gefa þeim annað tækifæri sem hafa framið bort sem útilokað er að bæta fyrir, eins og morð eða gróft ofbeldisverk og eins er mikil reiði skiljanleg gagnvart þeim sem láta ekki af atferli sínu. Kynferðisglæpir eru sérstaklega viðkvæmir af því að það er oft svo erfitt að sanna þá og ég held að þetta allt saman ýti undir ofsóknir gagnvart kynferðisafbrotamönnum. Ég trúi því að konan hafi ‘varað fólk við’ í þeirri trú að það sé aldrei hægt að treysta manni sem einu sinni hefur nauðgað og kannski þeirri trú að það myndi færa vinkonu hennar sálarró að vita líf hans ónýtt.
Posted by: Eva | 17.04.2011 | 12:06:04
Ég gleymdi einu. Mér finnst samfélagið allt of upptekið af því af því að skilgreina fólk út frá einstökum atvikum. Maður sem hefur hjá öðrum manni er hommi. Einhver sem nauðgar er nauðgari. Einhver sem stelur er þjófur. Rétt eins og um ólæknandi sjúkdóm sé að ræða. Ég er ekki svo viss um að einstök atvik skilgreini eðli okkar. Eru einhver vísindaleg gögn sem sanna að sá sem nauðgar einu sinni muni gera það aftur? Ég veit alla vega um tvo einstaklinga sem hafa nauðgað og ekki endurtekið plæp sinn.
Posted by: Þorkell Á. Óttarsson | 17.04.2011 | 13:06:36
Maður sem sefur… ekki hefur 🙂
Posted by: Þorkell Á. Óttarsson | 17.04.2011 | 13:08:05
Maðurinn er það sem hann gerir en það fer eftir afleiðingum hegðunarinnar hvort hann er skilgreindur út frá henni. Þú þarft t.d. að drekka oft og mikið í einu til að vera skilgreindur sem drykkjumaður en hinsvegar bara að drepa einu sinni til að teljast morðingi.
Rannsóknir benda til þess að einhver hluti kynferðisglæpamanna sé óforbetranlegur og það er nú sjálfsagt hluti af ástæðunni fyrir því að margir vilja úthýsa þeim algerlega. Hins vegar eru það aðeins þeir sem nást sem taka þátt í svona rannsóknum. Líklega nást fæstir þeirra sem beita kynferðisofbeldi og þessvegna segja rannsóknir í raun ekkert um það hversu líklegt er að sá sem hefur einu sinni nauðgað geri það aftur. Niðurstöðurnar eiga aðeins við um þá sem eru ‘afkastamiklir’ og/eða standa þannig að verki að hægt sé að sanna glæpinn.
Posted by: Eva | 17.04.2011 | 13:52:32
Þetta býður upp á spurninguna: Er hægt að flokka hundsun sem ofsóknir? Og á hundsun rétt á sér í svona tilfellum?
Posted by: Einar Steinn Valgarðsson | 17.04.2011 | 18:37:02
ég þakka þér fyrir þessi skrif. ég er móðir manns sem er dæmdur fyrir nauðgun. þessir menn eiga fjölskyldu sem betur fer sem vonandi afneitar þeim ekki. glæpurinn er samt ófyrirgefanlegur og hræðilegur. en allir eiga sér vonandi viðreisnar von og með því hugarfari kýs ég að líta fram á veginn og vona að sonur minn eigi sér framtíð og gæfu.
Posted by: Margrét | 18.04.2011 | 13:35:33
Ég vil ekki flokka hundsun sem ofsóknir. Það eru ofsóknir þegar maður getur fastlega gert ráð fyrir því að ef hann á annað borð fær vinnu, þá hafi einhver samband við vinnuveitandann viku síðar og ljóstri upp um fortíð hans. Þegar upplýsingar um heimilisfang eru birtar opinberlega ásamt mynd o.s.frv. o.s.frv. Það hlýtur að mega stemma stigu við kynferðisofbeldi með manneskjulegri aðferðum.
Hundsun er aðeins annars eðlis. Það er hægt að fordæma beinar ofsóknir en það væri rangt að reyna að þvinga einhvern til að sýna annarri manneskju almennilegheit. Hinsvegar getur hver og einn gert upp við sig hvort hann telji sig frekar vera að stuðla að heimi án ofbeldis með því að hundsa ógæfumenn eða sýna þeim allavega sömu virðingu og maður myndi sýna flækingshundi þótt maður hefði ekki áhuga á að hafa hann inni á gafli.
Posted by: Eva | 18.04.2011 | 22:37:57
Takk. Bara flott og gegnum heilbrigð pæling hjá þér Eva.
Satt og rétt að við sigrum ekki ranglætið með ranglæti.
Mbkv.
Íris
Posted by: Íris | 15.03.2012 | 23:40:45