Þessi undarlega tegund

Vinur hans hringdi. Ég held að samtalið hafi snúist um bíla og annað strákadót en þótt ég sæti í sama herbergi gæti ég ekki fyrir mitt litla líf rifjað það upp. Það eina sem fangaði athygli mína var þessi stutti bútur:

-Ha, er ég eitthvað að kíkja á kerlingar? Ja ég reyndar búinn að kynnast einni.
-Nei,nei, hún er árinu yngri en ég.
-Nei, ég held ekki að þú þekkir hana, hún bjó reyndar fyrir norðan en það er mjög langt síðan.

Málið dautt og talinu snúið aftur að einhverju sem ekki festist við neina heilastöð.

Svolítið annar stíll en þegar konur tala saman. Ég hefði í langflestum tilvikum komið því að fljótlega í samtalinu að ég hefði hitt mann. Viðbrögð vinkonunnar, undantekningalaust:

-Í alvöru? Og hvað?
Og ef ég byrjaði ekki þá þegar á langri sögu með mörgum lýsingarorðum og dramatískum þögnum sem byðu upp á misþægilega spurningar, myndi hún örugglega pumpa mig.
-Hvenær hittirðu hann?
-Ertu búin að hitta hann oft síðan?
-Ertu alvarlega skotin í honum eða bara að tékka?
-Er hann almennilegur eða ætlarðu bara að hafa hann sem leikfélaga?
-Hann er ekkert þessi prumpandi matsjótýpa er það nokkuð?
-Hvernig kynntistu honum?
-Hvernig er hann?
-Og er hann sætur líka?
-Hvað gerir hann?
-Á hann börn?
-Á hvaða aldri er hann?
-Hvar býr hann?
-Ertu búin að sofa hjá honum?
-Kann hann að kyssa?
-Er hann búinn að vera á lausu lengi?
-Oh, þetta hljómar allavega vel. Segðu mér meira.
Og það eru engar líkur á ég eigi nokkurntíma eftir að svara svona spurningum með tveggja orða setningum.

Fyrir 20 árum hefði ég talið að ástæðan fyrir því að umræðan um mig varð ekki ýtarlegri í annars mjög löngu samtali (miðað við mitt símaþol), væri sú að hann hefði lítinn áhuga á mér.

Fyrir 15 árum hefði mér þótt líklegt að honum þætti óþægilegt eða dónalegt að tala um mig svo ég heyrði.

Í dag veit ég að hvorugt er rétt. Karlmenn bara tala ekkert um konurnar sem þeir sofa hjá eða ef út í það er farið um nein önnur sambönd heldur. Þeir geta hist eftir margra ára aðskilnað og liðið sultuvel saman yfir skák eða formúlunni en frétta svo annarsstaðar að vinurinn náði því að skipta um konu, jarða föður sinn og eignast tvö börn á þessum árum. Svoleiðis umræðuefni kom bara ekkert upp.

Það er samt ekki áhugaleysi sem veldur því að karlmenn tala lítið um annað fólk sín á milli. Ég held að fjölskyldan og vináttutengsl skipti flesta karlmenn mjög miklu máli og þeir eru alveg til í að ræða samskipti við konur. Reyndar ekki í sömu smáatriðum og konur en ég hef ekki orðið þess vör að þeir forðist að ræða sambönd nema þegar eru líkur á að sú umræða verði neikvæð og leiðinleg. Þessi undarlega dýrategund finnur bara ekki hjá sér hvöt til að ræða samskipti og tilfinningamál við aðra karlmenn nema þá við mjög nána vini sína þegar eitthvað mikið bjátar á. Og jafnvel í þeim tilvikum er það fjarri þeim að leggjast í sálgreiningu. Þeir virðast ekki hafa neina þörf fyrir að fara ofan í saumana á því sem gerðist eða spá fyrir um framhaldið, segja bara eitthvað á borð við „það er allt í hassi heima“ eða „þetta pakk í vinnunni er alveg að fara með mig“ og vinirnir afgreiða málið með því að segja „assgotans vesen“ og slá félagann kumpánlega á öxlina. Engar spurningar. Málið útrætt. Vinurinn búinn að fá staðfestingu á því að aðrir kannist við það sem hann er að ganga í gegnum og virðist ekki þurfa neitt meira en það.

Ég get ekki sagt að ég skilji þessa nægjusemi en ég held ekki lengur að þetta bendi til einhverra djúpstæðra sálarkvilla. Þeir eru bara svona. Það er hvorki gott né slæmt, bara alveg rosalega skrýtið. Eiginlega eins og sagógrjón.

 

One thought on “Þessi undarlega tegund

 1. ——————————————-

  Þetta virðist vera alþekkt því ég hef svo oft heyrt konur undrast það að menn þeirra geti verið að tala í langan tíma í símann um “ekki neitt”, kannski bíla eða fótbolta, en þegar þeir eru spurðir eftir þetta langa símtal hvað hafi annars verið í fréttum af viðkomandi þá standa þeir algjörlega á gati því það var ekki rætt. Já svona eru nú þessar elskur.
  Kær kveðja til ykkar allra.

  Posted by: Ragna | 31.10.2007 | 12:49:44

  ——————————————-

  “Eins og sagógrjón”

  Meistaralegt.

  Þegar einhver hefur orð á því að þú skrifir vel máttu mínvegna yppa öxlum og segja:

  “Það er ekkert erfitt. Maður stjórnar bara tækinu”.

  Posted by: Varríus | 31.10.2007 | 13:12:47

  ——————————————-

  Þú hefur, sem iðulega, lög að mæla.
  Annars hef ég alltaf elskað sagógrjón…

  Posted by: Kyngimögnuð | 31.10.2007 | 14:28:22

  ——————————————-

  Áhugaverðar pælingar sem endra nær. Því þær eru svo sannar. Skellti upp úr á einum stað. En varla erum við allir svona? Og varla eru allar konur ,,hinsegin”? Kannski það bendi til djúpstæðra alvarlega sálarkvilla? ..nei varla.

  Posted by: Kristinn | 31.10.2007 | 17:45:23

  ——————————————-

  Þetta er alveg staðreynd. Við karlmenn tölum ekki um sambönd og tilfinningamál við karlkyns vini okkar nema þá kofinn standi í björtu báli Snilldarfærsla hjá þér:)

  Posted by: Guðjón Viðar | 31.10.2007 | 18:18:14

  ——————————————-

  Snildarfærsla, ekkert annað. Frábært hvað þú hittir oft naglan á höfuðið.
  sagógjón?
  Hef ekki meira um það að segja

  Posted by: Stefán | 31.10.2007 | 18:39:54

  ——————————————-

  Því miður þekki ég þig ekki en sem betur fer datt ég inn á bloggið..oooooo…hvað þetta er SATT ..!

  Posted by: Dögg | 31.10.2007 | 21:51:57

Lokað er á athugasemdir.