Þessi banani

banana-342575_640-300x281

Á leiðinni út í búð sá ég banana. Nei, ekki forsætisráðherra Íslands heldur venjulegan, ætan banana, af þeirri gerð sem vex á svokölluðum bananatrjám, gulan en ekki með brúnum flekkjum – ennþá. Hann lá á gangstéttinni fyrir framan mig, ég tók hann upp og hann reyndist heill og ómarinn. Raddirnar í hausnum á mér kepptust við að setja fram kenningar.

Tortryggna Eva: Þessi banani er ómarinn, sem merkir að hann hefur líklega ekki dottið úr illa lokuðum bakpoka. Þetta hlýtur að vera gabb – falin myndavél eða eitthvað í þá áttina. Líklega er eitthvað allt annað en banani í hýðinu. Kannski eitthvað lifandi. Eitthvað hræðilegt sem skrækir þegar við opnum hýðið.

Kaldhæðna Eva: Já, eða þá að örsmár örgjörvi er falinn í banananum og þegar þú borðar hann festist hann í ristlinum á þér og sendir feitabollulöggunni nákvæmar upplýsingar í hvert sinn sem þú lætur fleiri en 400 hitaeiningar ofan í þig. Þú ættir það reyndar skilið, fíflið þitt.

Áhyggjufulla Eva: Einhver hefur týnt banananum sínum og nú fær sá vesalingur ekkert að borða í hádeginu. Hvort á ég að taka bananann upp svo hann verði ekki að sorpi á götunni eða láta hann vera svo eigandinn finni hann afur?

Klikkaða Eva: Hvað hefði Jesús gert?

Kaldhæðna Eva: Hann hefði mettað með honum þúsund menn (auk kvenna og barna) og látið hin fjögur þúsundin (auk kvenna og barna) japla á  hýðinu.

Lögfræði Eva: Það er enginn að fara að snúa við til að leita að einum banana sem kostar 15 pence í Morrisons. Þetta er glöggt dæmi um res derelictae* – sem merkir að nú á ÉG þennan banana. Muhoohaha!

Síkrítaða Eva: OMG! The Universe gave me a banana!

Norna Eva: Hættu þessu nýaldarkjaftæði eins og skot, þetta er bara venjulegt tákn. Einhver banani mun verða á vegi okkar bráðum, það er ekki flóknara. Og talaðu svo íslensku við sjálfa þig – tilgerðarlegi hálfvitinn þinn!

Húsmóður Eva: Kannski er þetta tákn um að það sé hægt að nota banana til að hreinsa kalkið af plexiglerhurðunum fyrir sturtuklefanum?

Umhyggjusama Eva: Reyndar eru það betlararnir sem eiga þennan banana en ekki við. En þar sem við höfum ekki séð betlara í West End í meira en ár eru það líklega íkornarnir sem eiga hann.

Kaldhæðna Eva: Já, eða rotturnar, um að gera að fóðra þær! Viltu ekki bara gefa þetta upp til skatts líka?

Nýtingarfasista Eva: Við tökum þennan banana með okkur heim. Punktur! Þú veist að þeir sem henda mat fara til helvítis.

Þessi ráðstefna endaði með því að nýtingarfasistinn fékk sínu framgengt.

Og nú liggur bananinn hér á borðinu og starir illilega á mig. Réttur eigandi bananalaus og sennilega svangur. Heimilisleysinginn sem gæti verið að gæða sér á honum rótandi í ruslinu hjá McDonalds. Íkornarnir rótandi í næstu götu-ruslafötu. Að maður tali nú ekki um rotturnar. Grey-prakkaranir með földu myndavélina í rusli yfir því að öll þessi fyrirhöfn hafi verið til einskis. Allt mér að kenna.

 

Og nú á ég allt eins von á því að einhver kaldrifjaður lesandi segi mér að hætta þessu væli og troða þessum banana í andlitið á mér (eða kannski eitthvert annað). En sannlega segi ég yður: Lúxusvandamál eru ekki til þess að leysa þau. Þau eru til þess að velta sér uppúr. Aftur og aftur, og endalaust.


Res derelictae er notað um hluti sem eigandinn hefur skilið eftir handa hverjum sem eiga vill.