Þess vegna

-En ef þú ert þannig séð hamingjusöm, til hvers vantar þig þá karlmann? spurði hann, rétt eins og karlmaðurinn væri hin opinbera uppspretta hamingjunnar.

Til hvers vantar mig karlmann já? Kannski frekar til hvers vil ég karlmann, því áratuga reynsla hefur nú væntanlega sannfært flesta í lífi mínu um að mig vanti svosem ekki eintak af loðnara kyninu. Ekki frekar en mig vantar bíl þótt sé afskaplega þægilegt að eiga einn slíkan. Mér hefur bæði tekist að opna krukkur og rífa veggi án fulltyngis sterkara kynsins, þótt ég viðurkenni vissulega þakklæti mitt og feginleik fyrir allar þær krukkur sem karlmenn hafa opnað fyrir mig. Mér finnst það óttaleg firring en sannleikurinn er sá að ég ætti erfiðara með að lifa án tölvu en karlmanns.

Svo til hvers vil ég endilega eiga mann?
Það er nú ekki flókið. Bara til þess að finna fyrir nógu miklu öryggi til að njóta allar þessarar hamingju minnar. Að finna fyrir þessu undarlega fyrirbæri sem kallast nánd og kannski fjölga augnablikum alsælunnar.

-Að standa í eldhúsinu og skera grænmeti og finna að návist mín gleður hann, jafnvel þótt hann sé bara að lesa blöðin.
-Að vita af einhverjum sem ræður ekki bara betur við sum verkefni en ég sjálf, heldur tekur af skarið og framkvæmir án þess að ég þurfi að verkstýra honum.
-Að upplifa sæluna sem fylgir því að fá ástarjátningu upp úr þurru.
-Að sjá á honum svipbrigði sem maður veit að flestir aðrir vita ekkert hvað merkja.
-Að taka sameiginlega ákvörðun um eitthvað jafn ómerkilegt og það hvað eigi að hafa í matinn, af því að matmálstíminn er í raun mjög merkileg stund þegar maður deilir henni með einhverjum.
-Að finna hann leggja arm yfir öxlina á mér í mannmergð.
-Að finna fyrir þessari undarlegu auðmýkt sem kemur aðeins yfir mann þegar mann langar að þóknast einhverjum og veit að hann mun ekki misnota það á neinn hátt.
-Að fá faðmlag eftir góðan dag, og ofurlítið þéttara faðmlag í dálítið lengri tíma eftir slæman dag.
-Að hníga niður af þreytu og finna hann breiða ofan á mig og kyssa mig á gagnaugað.
-Að vakna hjá honum og sjá í augnum á honum að hann er að hugsa; æ, þarftu endilega að fara strax?

Það er hægt að eiga mjög góðar og skemmtilegar stundir með vinum og fjölskyldu. Maður getur fundið fyrir skilningi, jafnvel einhverkonar sálufélagi við þá sem maður vinnur með, sérstaklega ef verkefnið skiptir mann miklu máli. Kynlífsfélagi býður yfirleitt upp á nána snertingu og segir manni jafnvel eitthvað sem hann ræðir ekki við hvern sem er.

Maður getur alltaf orðið sér úti um augnabliks nánd sem dugar manni í rauninni alveg til að þrífast prýðilega og þessvegna vantar mig ekki mann. En mig langar í mann. Af því að það sem ég sakna er þessi tilfinning um að lifa öllu lífinu í nánd við einhvern. Einhvern sem er ekki að fara neitt og sem finnur ekki hjá sér hvöt til að gera líf mitt erfiðara.

One thought on “Þess vegna

  1.  ————————————————
    enn einu sinni hittirðu naglann á höfuðuð. takk!

    Posted by: inga hanna | 27.05.2008 | 9:16:31

     ————————————————

    Sætur þessi síðasti sem þú keyptir á Owned, the Rock. 😀

    Posted by: Pukastelpan Huld | 27.05.2008 | 16:25:37

     ————————————————

    Þar sem að þú þekkir mig ekki þá vildi ég bara skýra út hvernig ég rakst á síðuna þína og hvernig ég vissi um the owned buy. Ég rakst á siduna í gegnum Nornabúðina sem ég heillaðist mikið af og byrjaði að lesa bloggið þitt. The Rock er my hubby 🙂
    kv

    Posted by: Huld | 27.05.2008 | 20:49:44

     ————————————————

    falleg og raunsönn úttekt á því hvað það er gott að eiga félaga í amstrinu.

    Posted by: baun | 27.05.2008 | 21:14:24

     ————————————————

    og ég sem hélt að ég væri ein því allir eru svo „together“ á blogginu.

    En – heyri í þér

    Posted by: lindablinda | 27.05.2008 | 23:09:26

     ————————————————

    Já það er gott að eiga mann 🙂

    Posted by: Hulla | 28.05.2008 | 9:27:14

Lokað er á athugasemdir.