Þarfatrapísan

Ég skil neysluhyggju, svona að vissu marki.
Ég skil alveg löngunina til að eiga allskonar fínt og gera allkonar gaman.
Ég skil líka þörfina fyrir stöðutákn.
Ég hef aldrei haft gaman af að þræða útsölur og það veldur mér of mikilli vanlíðan að vera blönk til að ánægjan af nýjum hlutum bæti það upp, en ég veit að verslunaræði er eins og hver önnur fíkn, óheppileg viðbrögð við óhamingju

Ég skil samt ekki eitt. Ef maður á t.d. 17 pör af hælaháum leðurstígvélum, hvernig getur mann þá hugsanlega vantað fleiri? Það er ekki eins og sé erfitt að finna önnur not fyrir peninga.

Ef maður áttar sig ekki á þarfapýramídanum er hætta á að maður sitji uppi með þarfatrapísu. Og þá fer maður að trúa því að meira sé aldrei nóg.

Mig vantar eitthvað til að vanta og nú er ég svo hrædd við þarfatrapísuna að ég þori varla í Bónus. Hvernig í fjáranum kemst maður ofar í þennan pýramída þegar maður hefur allt sem mann langar í nema það sem manni er lífsins ómögulegt að trúa á?